Valdimar K. Jónsson prófessor við tilraunabíl sem knúinn er loftþrýstingi.
Valdimar K. Jónsson prófessor við tilraunabíl sem knúinn er loftþrýstingi.
Kristján Torfi Einarsson kte@mbl.is TALDAR eru góðar líkur á því að hægt sé að nýta loftþrýsting til að knýja borgarbíla framtíðarinnar. Ásgeir Leifsson hagverkfræðingur, Valdimar K.
Kristján Torfi Einarsson kte@mbl.is
TALDAR eru góðar líkur á því að hægt sé að nýta loftþrýsting til að knýja borgarbíla framtíðarinnar. Ásgeir Leifsson hagverkfræðingur, Valdimar K. Jónsson prófessor og Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur, hafa að undanförnu fylgst með þróun og framleiðslu á þessari nýjung í bílaiðnaðinum og í þeim tilgangi farið til Frakklands og kynnt sér frumgerð bílsins. Á þriðjudaginn ætla þeir að kynna bílinn og möguleika hans m.a. fyrir orkufyrirtækjum hér á landi og borgaryfirvöldum.

Þá stendur til að stofnað verði félag, Íslenska loftþrýstifélagið, sem mun leita leiða til að nýta þessa tækni hér á landi.

Að sögn Ásgeirs er sérstök ástæða fyrir Íslendinga að kynna sér þessa nýjung vel. Á Íslandi er engum koltvísýringi brennt við framleiðslu á rafmagni sem þýðir að hér á landi væri rekstur slíkra bíla mjög umhverfisvænn.

Frumgerð bílanna lofar mjög góðu og er stefnt að því að verksmiðjuframleiðsla hefjist á næstu mánuðum. Nú þegar liggja fyrir pantanir um allan heim.

Að sögn Ásgeirs er loftþrýstivélin sem knýr hinn nýja bíl ekki ný tækni heldur gömul. "Í upphafi síðustu aldar voru til námulestir sem gengu fyrir svipaðri vél og flest þekkjum við loftbora sem í grunninn er sama tækni. Enginn hefur þó nýtt þessar vélar í bíla áður," segir Ásgeir.

Það er franskur verkfræðingur, Guy Négere, sem hefur á undanförnum15 árum unnið að gerð bílsins. Bíllinn er búinn loftþjöppu og þremur loftþrýstikútum sem taka 90 l af lofti með allt að 300 bara þrýstingi. Loftþjappan gengur fyrir rafmagni og hægt er að hlaða loftgeymana á loftþrýstistöðvum eða með venjulegu húsrafmagni og þá tekur hleðsla 3-4 tíma. Allt er gert til að hafa bílinn sem léttastan, húsið er úr trefjaplasti og grindin úr áli. Loftþrýstingsvélar eru ólíkar hefðbundnum sprengivélum að því leyti að útblásturinn, sem er hreint loft, er kaldur eða undir frostmarki. Í núverandi mynd kemst bíllinn í bæjarumferð 120-150 km og benda útreikningar til að orkukostnaður verði í kringum 1. kr/km.