Verk á Hreinsunareldi í Nýlistasafninu.
Verk á Hreinsunareldi í Nýlistasafninu. — Morgunblaðið/Eyþór
Samsýning 20 myndlistarmanna Til 19. júní. Nýlistasafnið er opið miðvikudaga til sunnudaga frá kl. 13-17.
SAMHLIÐA Listahátíðarsýningu Thomasar Hirschhorn í Nýlistasafni sem þegar hefur verið fjallað um, er þar að finna samsýninguna Hreinsunareld. Sýningarstjórar Hreinsunarelds eru þrír, þau Huginn Þór Arason, Bryndís Ragnarsdóttir og Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar. Hreinsunareldur kemur frá Berlín og New York, upphaflega setti þríeykið upp sýningu í Berlín. Upp úr þeirri sýningu spruttu þrjár sýningar í galleríi í Brooklyn og þeir sem sýna í Nýlistasafninu nú voru allir með á þeim sýningum. Viðfangsefnið, Hreinsunareldur, er að sögn Hugins Þórs kalda stríðið og hinn svart-hvíti hugsunarháttur sem einkenndi tímabilið. Í viðtali við Morgunblaðið sagði hann: "Purgatory þýðir hreinsunareldur og það er skilgreint sem biðstöðin áður en þú ferð í himnaríki eða helvíti. Purgatory er því líka bara jarðlífið - það sem er núna. Við setjum því líka samasemmerki milli þess óvissuástands, hvort þú ert að fara til himnaríkis eða helvítis, og kalda stríðsins, þegar fólk beið eftir því að gott eða vont myndi vinna. Og það sem vann, sem er kannski kapítalisminn, er hann eitthvað góður eða vondur?" Ennfremur segir Huginn að markmiðið með sýningunni hafi verið að draga fram þetta óvissuástand og valið á mjög breiðum hópi listamanna hafi miðast við það.

Það er spennandi að sjá sýningu sem hefur svona ákveðin markmið og leitast við að gera hugmyndir um ákveðið ástand sýnilegt. Þegar síðan til kastanna kemur er hugmynd varpað út í óvissuna og tuttugu ólíkir aðilar skapa listaverk sem á einhvern hátt tengist - eða tengist ekki markmiðinu. Við skoðun sýningarinnar hefði mér t.a.m. aldrei dottið í hug að fara að hugsa um óvissuástand kalda stríðsins.

Verk Unnar Arnar Jónassonar Auðarsonar mætir áhorfendum þar sem blóðugum höndum Thomasar Hirschhorn sleppir, einfalt samanbrotið plakat, Exodus, Exotica. Ljósmynd sýnir dreng standa við plöntu, hún virðist frá upphafi aldarinnar síðustu, eða e.t.v. fyrr, þegar framandi plöntur voru exótískar og siglingar til fjarlægra staða og ferðalög voru að aukast. Fallegt samspil myndar og orða. Í litla herberginu inn af mætast byssur og blóm, höfuðleður og hugsanir sem spila ágætlega saman. Ljósmyndir Johanna Damke af plöntu koma þar skemmtilega á óvart. Síðan mætast mörg verk í innri salnum. Fiskalampi, fiskur og fluga Ragnars Jónassonar með því dularfulla heiti Fatli eru sjónrænt grípandi og laða áhorfandann að sér, skreytigildið nær ekki að bera verkið ofurliði, það býr yfir einhverjum leyndardómi. Einföld innsetning Darra Lorenzen, Uppi, virkar vel í þessu samhengi þó að hugmyndin sé e.t.v. ekki ýkja frumleg. Myndbandsskúlptúr Deville Joel Cohen er hrár og agressífur, ef til vill kristallast hugmyndir sýningarstjóra um óvissuástand einna best í honum.

Í myndbandsherbergi má sjá myndbandsverk eftir fjóra listamenn, fyrir þá sem víla ekki fyrir sér fjörutíu mínútna myndbandssýningu. Einna athyglisverðast fannst mér myndband Arnar Helgasonar sem sýndi flugelda springa hratt og hægt, heillandi sjónarspil og án efa má vinna meira með það. Viðtal sem virtist vera við sænska karlhóru var óspennandi, hvort sem það var sviðsett eða ekki. Synestesía, skynjun orða eða stafa í lit o.s.frv., er áhugavert fyrirbæri en skrásetningarmáti myndbands Ditte Lyngkjær Pedersen náði ekki að fanga mig þrátt fyrir góða hugmynd að baki. Ekki veit ég hversu margir sýningargestir setjast niður í fjörutíu mínútur og horfa á myndbönd en þeir sem sýna verk sín á þennan hátt verða að gera ráð fyrir því að þau fari framhjá þorra gesta. Enn og aftur kemur spurningin um myndlist/myndband upp og hvert myndbandalistin stefni. Raunveruleikasjónvarp, heimildarmyndir og tónlistarmyndbönd reynast sjaldan áhugavert form.

Hugmynd sýningarstjóra er ef til vill nokkuð flókin og listamennirnir heldur margir til þess að hægt sé að tala um nokkra raunhæfa niðurstöðu, markmiðið lítur betur út á pappírnum en í raun. Það er til marks um sjálfstæði - eða áhugaleysi? - listamannanna á hugmyndinni að verksummerki hennar er tæpast að finna á sýningunni. En þó að sýningin sem heild skilji ekki mikið eftir sig, til þess eru verkin of mörg og ólík, svífur þar frjór andi yfir vötnum.

Ragna Sigurðardóttir