Sigrún Erla Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 20. desember 1953. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut 4. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar eru: Guðmundur H Jónsson, f. 23. janúar 1920, d. 16. febrúar 1984, og Sólborg K Jónsdóttir, f. 29. desember 1921. Systkini Sigrúnar Erlu eru María Guðmundsdóttir, f. 6. desember 1940; Jónína Margrét Guðmundsdóttir, f. 26. október 1944; og Valgeir Ólafur Guðmundsson, f. 7. nóvember 1947.

Útför Sigrúnar Erlu fór fram í kyrrþey.

Mig langar með örfáum orðum að minnast Sigrúnar systur minnar. Hún kvaddi þennan heim nú í byrjun sumars þegar grasið er að grænka, trén að laufgast og sumarblómin að skarta sínu fegursta. En það er ekki spurt um stund og stað. Skyndilega er ástvinur hrifinn burt úr þessum heimi og honum ætluð önnur verk á ókunnum slóðum. Ég bið Guð að geyma þig með eftirfarandi bænarorðum.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

(Matthías Jochumsson.)

Valgeir bróðir

og fjölskylda.

Kveðja til litlu systur minnar.

Veit náð þinni huggun, styrk, líkn og lækningu inn í líf þeirra sem eru sjúk á sál og líkama, vitja þeirra sem lifa við brostnar vonir og þeirra sem mæta nýjum degi í sársauka, veit krafti og von inn í líf þeirra, þess biðjum við þig, Drottinn.

Hinsta kveðja.

Jónína Margrét (Maddý).

Með fáeinum orðum langar mig til að kveðja móðursystur mína, hana Sigrúnu Erlu Guðmundsdóttur er varð bráðkvödd hinn 4. júní síðastliðinn.

Ég minnist marga símtala er hún átti við mig um lífið og tilveruna. Hún vildi fylgast úr fjarlægð með fjölskyldu sinni og nánasta frændgarði því vegna vanheilsu sinnar valdi hún það að vera ein og óáreitt af sínum nánustu, nema að hún kaus að hafa samband til að fá fréttir eða aðstoð við ýmis smám viðvik.

Fyrir rúmum 15 árum fluttist hún á Skúlagötuna og bjó sér þar fallegt og snoturt heimili er hún hélt við af kostgæfni og alúð. Það var gott að þiggja kaffi og eða kóksopa á ferðum mínum á Skúlagötuna í ýmsum snúningum og stússi fyrir hana frænku, en því miður með árunum fækkaði ferðunum en þrátt fyrir það þá hélst alltaf símasambandið við frænku.

Ég veit og finn að söknuður og sorg ömmu minnar er mikil við að horfa eftir yngstu dóttur sinni yfir móðuna miklu, og því bið ég góðan Guð að vaka yfir og veita henni styrk í dótturmissi hennar. En nú er hún frænka farin og komin á betri stað, laus við allt andlegt og líkamlegt böl og hvílist í öruggum faðmi Guðmundar föður síns.

Með þessum orðum kveð ég frænku mína hana Sigrúnu Erlu. Guð geymi þig.

Björgvin Björgvinsson.