Sverrir Hermannsson
Sverrir Hermannsson
Sverrir Hermannsson fjallar um auðlindir þjóðarinnar: "Það blasir við, að ráðstjórnin íslenzka hefir fært örfáum útvöldum lungann úr auðæfum þjóðarinnar ..."
Á LANDSFUNDI Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 1999 boðaði formaður hans sættir í fiskveiðideilunni. Fór hann fögrum orðum um að ekki mætti gera lítið úr ósætti þjóðarinnar í því örlagamáli, enda hafði margsinnis komið í ljós í skoðanakönnunum, að nær þrír fjórðu landsmanna lýstu andstöðu sinni við ólögin.

Með aðstoð málgagns flokksins og fleiri fjölmiðla tókst að sannfæra þorra manna um að bóta og betrunar væri að vænta.

Auðvitað varð niðurstaðan einsog forystumenn Frjálslynda flokksins höfðu spáð: Að kosningum loknum varð ekkert úr efndum, en þrælalögunum fylgt fram af sömu óbilgirni og áður.

Ráðstjórnarmenn komu sér saman um svokallað auðlindagjald, en hvísluðu því að lénsherrunum í leiðinni að þeir myndu létta af útveginum álíka miklu í gjöldum og því gjaldi næmi - og meira til, eins og kom á daginn.

Og áfram var haldið að afhenda útvöldum eigur almennings að gjöf.

Í upphafi undirbúnings einkavæðingar bankanna var sú stefna ráðstjórnar margítrekuð að sala þeirra yrði dreifð; að hámarkseign hvers kaupanda næmi ekki meira en sem svaraði 3-4% hlut. Í því sambandi var höfðað til þjóðarsálarinnar, að hún myndi snúast öndverð við, ef einn eða fáir aðilar ætluðu að "gína" yfir þessum mikilvægu fyrirtækjum.

En skyndilega kom annað hljóð í strokkinn. Ráðstjórnarmenn hófu umræðu um kjölfestufjárfesta - jafnvel erlenda - og fór bankamálaráðherrann þar fremstur í flokki.

Niðurstaðan: Gamla helmingaskiptaregla kvótaflokkanna. Vinir stóra flokksins skyldu fá vænni bitann - Landsbankann - en Sjálftökumenn, skammstafað S-hópur - hinn.

Þá þótti núverandi aðalritara og bankamálaráðherranum munurinn of mikill á bönkunum, enda var hann jafnaður með því að Landsbankinn seldi helmings eigu sína í VÍS S-hópnum með 5 - fimm milljarða - afslætti.

Í lögum um ríkisviðskiptabanka nr. 86/1985 segir í 21. grein að bankaráð taki ákvarðanir um "kaup og sölu hlutabréfa og annarra eignarhluta í félögum (stofnunum) sem bankinn á aðild að". Helgi Guðmundsson var formaður bankaráðs Landsbankans, þegar "sala" VÍS-bréfanna fór fram, og Kjartan Gunnarsson varaformaður. Það er óhætt að fullyrða að báðir hljóti að verða tukthúslimir vegna þessa máls, þegar þar að kemur - og kannski fleiri.

Það blasir við, að ráðstjórnin íslenzka hefir fært örfáum útvöldum lungann úr auðæfum þjóðarinnar - sjávarauðlindina - að gjöf, og "gína" þeir nú yfir afganginum, sem þeir ætla að eignast fjórir eða fimm saman.

Bankarnir hafa allir verið færðir vildarvinum á silfurfötum.

Og nú, þegar Landsbankamenn færa sig upp á skaftið og ásælast Íslandsbanka, kvakar Lómatjarnarálftin og segir að það muni ekki þóknast þjóðarsálinni að einn eða örfáir "gíni" yfir öllu bitastæðu!

Að svo er komið málum getur íslenzka ráðstjórnin þakkað sér - og sér einni, enda unnið kappsamlega að þeirri þróun að gera örfáa auðjöfra ríkari og láta allan landslýð annan mæta afgangi.

En skinhelgi og yfirdrepsskapur ráðstjórnarmanna ríður ekki við einteyming.

Höfundur er fv. form. Frjálslynda flokksins.