Ragnhildur Helgadóttir
Ragnhildur Helgadóttir — Morgunblaðið/Jim Smart
Það á við um þessi réttindi eins og svo mörg önnur réttindi manna í þjóðfélaginu, að ekkert er sjálfgefið.
Það á við um þessi réttindi eins og svo mörg önnur réttindi manna í þjóðfélaginu, að ekkert er sjálfgefið. Því þarf að vera vakandi fyrir því að það slakni ekki á þessum streng, sem þó hefur náðst að gera svo sterkan," segir Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, þegar hún er beðin að minnast þess að níutíu ár eru liðin frá því konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.

Hún segir að gríðarlegar framfarir hafi orðið síðan þá. Nú þyki sjálfsagt að konur og karlar skipi framboðslistana og sitji á þingi - helst sem næst jöfnum hlutföllum, þótt það náist ekki alltaf. Hún ítrekar hins vegar að þegar framfarir hafi náðst á einhverju sviði megi ekki slaka á klónni, svo árangurinn glutrist ekki niður á nýjan leik.

Ragnhildur segir að konur verði líka að muna, þegar þær halda upp á 19. júní, að kosningarétturinn er ekki bara konum að þakka. Karlarnir hafi jú samþykkt breytingarnar á þingi. "Þær náðu karlmönnunum á sitt band," segir hún og leggur áherslu á að jafnréttisvinnan megi ekki bara fara fram í hópi kvenna. "Konur hafa oft á tíðum alltof mikið verið að tala hver við aðra og sannfæra hver aðra í stað þess að beina röksemdum sínum að karlmönnunum. Það voru þeir sem réðu öllu til lands og sjávar. Menn láta ekki stjórnartaumana af hendi nema þeir séu sannfærðir um að það sé skynsamlegt. Þess vegna þarf að fá þjóðfélagið allt, bæði karlmenn og konur, til þess að standa saman í því að varðveita það jafnrétti sem fengist hefur og koma því á þar sem það er ekki í nægilega góðu horfi. Þetta er sá partur af aðferðafræðinni sem mér finnst skipta mjög miklu máli, en hefur kannski ekki alltaf verið nægilega nýttur."

Ragnhildur segir að lýðræðisleg stofnun þurfi að sjálfsögðu að vera, í sem allra ríkasta mæli, spegilmynd af þjóðfélaginu sjálfu. "En konur þurfa ekki sí og æ að vera að leggja áherslu á sérstöðu sína; að við séum eitthvað betri, samviskusamari eða skynsamari en karlmenn. Það er auðvitað ekki svo. Það er upp og ofan meðal kvenna eins og meðal karla. Það má hins vegar vel vera að áherslur okkar geti verið mismunandi á mismunandi þætti."

Konur taki af skarið

Ragnhildur var kjörin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1956 þá 26 ára, tveggja barna móðir og laganemi við Háskóla Íslands. Hún var eina konan sem náði kjöri í kosningunum. Á kjörtímabilinu á undan hafði engin kona átt fast sæti á þingi.

Ragnhildur hafði verið virk í stúdentapólitíkinni og í Sjálfstæðisflokknum þegar hún var beðin um að taka fimmta sætið á lista flokksins í Reykjavík. "Ég held að uppstillinganefnd Sjálfstæðisflokksins hafi gert sér ljóst að framboðslistinn yrði sterkari ef á honum yrði einstaklingur sem sameinaði báða þessa kosti að vera ungur sjálfstæðismaður og kona."

Innt eftir því hvers vegna hún hafi ákveðið að gefa kost á sér segir hún að kvenréttindasjónarmið hafi ráðið för. "Mér fannst fráleitt - og það sama átti við um margar aðrar konur - að engin kona skyldi vera á þingi. Þegar ég svo stóð frammi fyrir þessari ákvörðun, varð mér ljóst að ef ég samþykkti þetta ekki, yrði trúlega engin kona á þingi. Þess vegna ákvað ég að gera uppstokkun á lífi mínu svo þetta yrði hægt." Hún segir að þetta sé eitt af því sem konur geti gert til að bæta kvenréttindi, þ.e. taka sjálfar af skarið ef þær geta mögulega komið því við.

Ragnhildur sat á þingi, með hléum, allt fram til ársins 1991. Hún var fyrst kvenna kjörin forseti þingdeildar og önnur kvenna skipuð ráðherra; fyrst menntamálaráðherra og síðan heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Aðspurð segir hún, að það segi sig sjálft, að staða kvenna í stjórnmálum hafi verið mjög slök, þegar hún tók fyrst sæti á Alþingi. Ástæðurnar hafi verið margslungnar og þjóðfélagslegar. Staðan nú sé hins vegar gjörbreytt. "Gjörbreyting hefur orðið á viðhorfum í þjóðfélaginu og þá um leið á viðhorfum kvenna sjálfra." Aukin menntun kvenna skipti þar miklu máli. "Konum finnst það ekki lengur vera skylda sín að tala hljóðlega inni á sínum einkavettvangi. Þeirra sjónarmið og þeirra ásýnd kemur nú víða fram í þjóðfélaginu." Hún segir að þegar litið sé yfir þann glæsilega hóp kvenna sem nú taki þátt í stjórnmálum þurfi enginn að hafa áhyggjur af framtíðinni.