Eftir Javier Cercas. Þýðandi Jón Hallur Stefánsson. Bjartur 2005 - 195 bls.
SÉRHVER saga er margar sögur eða í það minnsta mörg söguefni, margvísleg minningabrot. Allar sögur segja sinn sannleika jafnvel þó að þær séu skáldsögur. Í bókinni Stríðsmenn Salamis lætur höfundur bókarinnar og sögumaður, Javier Cercas eina persónu sögunnar segja: ,,Skáldsögur eru skrifaðar með því að tengja saman minningar." En ætli öll sagnfræði beri ekki líka keim af þessari aðferð - að tengja saman minningar. Sögumanni Stríðsmanna Salamis er raunar meinilla við að kalla sögu sína skáldsögu. Hann nefnir hana sannsögu af því að hún byggist að einhverju leyti á raunverulegum persónum og atburðum. Flestir Íslendingar láta sér slíka formúleringu í léttu rúmi liggja enda aldir upp við fornan sagnabrunn með yfirbragði slíkra sannsagna þó að vitaskuld séu sögurnar sem upp úr þeim brunni koma fyrst og fremst mótaðar með því að tengja saman minningar.

Saga Cercas byggist á endurminningum úr Spánarstríðinu. Einn helsti hugmyndafræðingur falangista, rithöfundurinn Sánchez Mazas, fellur í hendur lýðveldishersins og er leiddur fyrir aftökusveit í lok Spánarstríðsins. Fyrir einhverja hundaheppni kemst hann undan til skógar lítt sár en eftirleitarmaður lýðveldishersins kemur auga á hann. Í stað þess að taka hann höndum eða vega hann horfir hann aðeins á hann og hverfur á braut. Falangistinn kemst í hóp liðhlaupa úr lýðveldishernum og nær fyrir hjálp vinsamlegs fólks að komast í hóp sinna fasísku vina þar sem honum er fagnað sem þjóðhetju og hann gerður að ráðherra.

Þessi frásögukjarni er uppistaða sögunnar. En raunar má segja að hann sé bara upphaf sögu því að líta má svo á að Stríðsmenn Salamis séu þrenns konar saga. Cercas nálgast söguefnið nefnilega dálítið í anda þess merka höfundar Borges með því að skoða söguna inni í sögunni. Sagan fjallar því öðrum þræðinum um uppgötvun sögunnar og hvernig höfundurinn nálgast hana, grefur hana svo að segja upp. Sagan sjálf er því ferli inn í sannsögunni. Segja má því að sagan fjalli ekki síst um hvernig sagan verður til, hvernig skáldskapur og sannleikur vegast á í mótun hennar.

Í þriðja lagi kemst Cercas að þeirri niðurstöðu að sagan sé í sjálfu sér ekkert merkileg nema fyrir augnatillit hins miskunnsama lýðveldishermanns. Tilraunir hans til að gefa Mazas svipmót söguhetju falla eins og spilaborgir þegar hann rýnir í persónuleika mannsins og eðli fasismans sem hann var aðalhvatamaður að enda er hann breyskleikinn uppmálaður.,,Hann var stjórnmálamaður sem í hjarta sínu fyrirleit stjórnmál. Hann hélt á lofti gömlum gildum - trúfestu og hugrekki - en hegðun hans einkenndist af sviksemi og heigulskap, og hann lagði manna mest af mörkum til ruddalegrar misnotkunar þessara hugtaka í mælskulist Falange Epañola, hann hélt líka á lofti gömlum stofnunum, konungsveldinu, fjölskyldunni, kristinni trú, föðurlandinu - en hann hreyfði ekki litlafingur til að koma konungi til valda á Spáni, afrækti fjölskyldu sína, sem hann bjó iðulega ekki hjá, og hefði glaður skipt allri sinni katólsku trú fyrir eina kviðu úr Guðdómlega gleðileiknum; hvað föðurlandið varðar er ekki gott að vita hvað það eiginlega er, nema réttlæting á yfirgangi eða leti." Þetta er maður sem reyndi að skapa lifandi goðsögn úr reynslu sinni í stríðinu, upphefja sig með gyllingu ævintýraljóma en reyndist svo ístöðulaus og lítilsigldur að fljótlega féll á gyllinguna.

Bókin er því ekki síst leit að söguhetju.

Þriðji og seinasti hluti sögunnar fjallar einmitt um þá leit. Sá hluti þykir mér sýnu best skrifaður og af meiri sannfæringu en hinir fyrri. Þar hvetur sagan ekki bara til umhugsunar um eðli Spánarstríðsins eða stríða yfirleitt og ekki aðeins um eðli sannleika og sagnagerðar heldur ekki síst um úr hvaða efniviði hetjuskapur er gerður. Sagan er því einnig leit að gildum í samtímanum. Hún er líka tilraun til umfjöllunar og jafnvel uppgjörs við hinn sársaukafulla tíma Spánarstríðanna og fasismans, að létta ofurlítið því fargi af spænskri þjóðarsál.

Þýðing Jóns Halls Stefánssonar er víðast á nokkuð lipru máli og kjarnmiklu en hvort það er stíl höfundarins eða þýðingu Jóns að kenna finnst mér textinn einkennast sums staðar um of af latneskri setningargerð með löngum undirskipuðum málsgreinum sem aldrei virðast ætla að enda. Hér birtist vitaskuld vandi þýðanda sem yfirfærir rómanskan texta yfir á íslenkt mál í hnotskurn. Kannski er krafan um hinn hnitmiðaða aðalsetningastíl í íslenskum anda ekki sanngjörn þegar um slíka þýðingu er að ræða. Það er við búið að ýmislegt glatist þá úr stíl höfundar við þýðinguna.

Hvað sem þessum vangaveltum líður er hér á ferðinni bitastæð og vel skrifuð bók sem vekur ýmsar spurningar um stríð, sagnagerð og hetjuskap og raunar margt fleira.

Skafti Þ. Halldórsson