HJÁLPSEMIN kom upp á röngum tíma hjá félaga manns sem lögregla í Reykjavík hafði handtekið í fyrrinótt fyrir að hafa ráðist á dyravörð.
HJÁLPSEMIN kom upp á röngum tíma hjá félaga manns sem lögregla í Reykjavík hafði handtekið í fyrrinótt fyrir að hafa ráðist á dyravörð. Þegar búið var að koma manninum í lögreglubíl reyndi félagi hans að frelsa hann úr haldi og komast inn í lögreglubílinn, og lenti fyrir vikið í ryskingum við lögregluþjóna, og var handtekinn fyrir ómakið.

Talsverður erill var hjá lögreglu í miðborg Reykjavíkur eftir að hátíðarhöldum lauk aðfaranótt laugardags, en um 6.000 manns skemmtu sér þar fram eftir nóttu. Lögreglan var með töluverðan viðbúnað í miðbænum, en varðstjóri segir að ekki hafi komið upp meira af málum en um venjulega helgi.

Þrjú önnur líkamsárásarmál komu til kasta lögreglu, í einu tilvikinu slógust tveir menn í Austurstræti, og þegar lögreglumenn reyndu að skilja þá að réðust félagar annars þeirra að lögreglumönnunum. Þeir voru að sögn varðstjóra í nokkurri hættu en þurftu ekki að beita varnarúða. Annar þeirra sem flugust á var handtekinn, en aðallega til að koma honum undan.

Engin stórvægileg meiðsl

Tilkynnt var um hópslagsmál á skemmtistað um kl. 1 um nóttina, en þegar lögregla kom á staðinn voru aðeins tveir menn í átökum, og voru þeir skildir að. Samkvæmt upplýsingum lögreglu voru engin stórvægileg meiðsl eftir átök næturinnar í miðbæ Reykjavíkur.

Að sögn vakthafandi læknis á bráðamóttöku Landspítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi hefur verið mikill erill undanfarnar nætur, mun meiri en um venjulegar helgar.