[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekki kemur á óvart að tyggigúmmíið eigi upptök sín í Ameríku. Hingað til lands barst jórturleður einmitt vestan um haf, komst nánar tiltekið í tísku með bandarískum hermönnum sem hér dvöldu í síðari heimsstyrjöld og deildu út mörgum pakkanum.
Ekki kemur á óvart að tyggigúmmíið eigi upptök sín í Ameríku. Hingað til lands barst jórturleður einmitt vestan um haf, komst nánar tiltekið í tísku með bandarískum hermönnum sem hér dvöldu í síðari heimsstyrjöld og deildu út mörgum pakkanum. En það var sem sé Frank Henry Fleer sem steig fram með jórturleðrið Blibber-Blubber árið 1906. Uppskriftin var hins vegar langt frá því að vera fullkomin, alltof límkennd. Þess vegna sá Walter E. Diemer sig knúinn til þess að betrumbæta uppfinninguna og kynnti hann árið 1928 hina ágætustu útgáfu jórturleðurs sem hann kallaði Double Bubble, eða tvöfalda kúlu. Þetta mun hafa verið svokallað kúlutyggjó, en nú eru á markaði hinar margvíslegustu gerðir þessa vinsæla... tja, afþreyingarefnis... svo sem sprengityggjó, tyggjóplötur, kúlutyggjó, tyggjóborðar, tyggjósleikjóar og hver veit hvað. Þá skipta bragðtegundirnar tugum, teygjanleikinn er mismunandi, litirnir í ýmsum tónum og umbúðirnar jafn tengdar tíðarandanum og götuslangur. Tyggigúmmí er ýmist talið æsa eða sefa svengd, skemma eða vernda tennur, þjálfa eða laska kjálka, grenna eða þétta notandann og þannig mætti áfram og endalaust teygja...