Snorri Þór Sigurðsson, Anton Elí Eggertsson og Daníel Hjálmar Eiríksson fylgjast með gæsaungunum.
Snorri Þór Sigurðsson, Anton Elí Eggertsson og Daníel Hjálmar Eiríksson fylgjast með gæsaungunum. — Morgunblaðið/Þorkell
LÁGVÆRT fuglatíst hefur síðustu tvær vikur heyrst daglangt í sumarbúðum KFUM í Vatnaskógi. Stafar það frá hópi sex gæsaunga sem tekið hafa sér bólstað við sumarbúðirnar starfsfólki sem og drengjum búðanna til mikillar ánægju.
LÁGVÆRT fuglatíst hefur síðustu tvær vikur heyrst daglangt í sumarbúðum KFUM í Vatnaskógi. Stafar það frá hópi sex gæsaunga sem tekið hafa sér bólstað við sumarbúðirnar starfsfólki sem og drengjum búðanna til mikillar ánægju. Að sögn Guðmundar Karls Brynjarssonar, starfandi forstöðumanns, var það fyrir tveimur vikum að starfsmenn fóru í bátsferð út á Eyrarvatn og rákust þar á gæsaungahópinn, en mamman var þar hvergi sjáanleg. Þegar bátnum var siglt aftur í land elti gæsahópurinn bátinn. "Og hér hafa þeir verið síðan," segir Guðmundur og bendir á að ungarnir hafi ekki einungis elt bátinn í land heldur elti þeir strákana hvert sem þeir fari, jafnvel um mörg hundruð metra leið.

Að sögn Guðmundar eru strákarnir duglegir að tína í ungana uppáhaldsgrösin þeirra auk þess sem þeir gauki stundum að ungunum brauði, sem fellur í góðan jarðveg. Hafa ungarnir því braggast afar vel og stækkað hratt.