Knattfimi er iðkuð þegar stund gefst á milli stríða.
Knattfimi er iðkuð þegar stund gefst á milli stríða. — Morgunblaðið/Arnar Eggert Thoroddsen.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hljómsveitin Sigur Rós flaug í byrjun þessarar viku til New York til að hljómjafna nýjustu breiðskífu sína sem út kemur 12. september næstkomandi.

Hljómsveitin Sigur Rós flaug í byrjun þessarar viku til New York til að hljómjafna nýjustu breiðskífu sína sem út kemur 12. september næstkomandi. Arnar Eggert Thoroddsen hitti liðsmenn að máli í Sundlauginni, hljóðveri Sigur Rósar, og ræddi við þá um tilurð plötunnar og margt margt fleira.

E ftir að ég hafði malað kaffibaunir í einar fimm mínútur í eldhúsi Sundlaugarinnar spyr Jónsi snöggt: "Viltu ekki heyra lög af plötunni?"

Því er að sjálfsögðu jánkað og Orri Páll trymbill leiðir mig inn í stjórnherbergi hljóðversins þar sem er að finna þægilegan sófa og stóla. Hann býður mér sæti, setur á lag og tjáir mér að þetta verði líklega fyrsta lagið sem muni koma út, að öllum líkindum einungis í gegnum niðurhal. Svo er ég skilinn eftir.

Þó að lögin sem ég fékk að heyra falli kannski ekki alveg í þetta stutta rokk/popp form sem hefur verið hvíslað um að sé stefna nýju plötunnar eru þau vissulega stefnubreyting frá því sem var. Lögin einhvern veginn knappari, meira svona "rokk og ról".

Kjartan, hljómborðsleikari, segir síðar í viðtalinu að það sé nú það sem Sigur Rós sé fyrst og síðast: Rokk og ról. Hugmyndin um að meðlimir Sigur Rósar séu tedrekkandi nýaldarhippar sem semji lög um álfa og hraun er engu að síður lífseig. Þessi mýta er rædd og Jónsi segir hátt og hvellt. "Nei, það er bara "hardcore" kaffi hérna!". En bætir svo við glottandi. "En að vísu með sojamjólk út í..."

Papa Roach?

Síðan um haust 1999, stuttu eftir að Ágætis byrjun kom út, hefur Sigur Rós samanstaðið af þeim Jóni Þóri Birgissyni (gítar og söngur), Georg Holm (bassi), Kjartani Sveinssyni (hljómborð) og Orra Páli Dýrasyni (trommur). Orri leysti þar með Ágúst Ævar Gunnarsson af sem hvarf til listnáms. Ágætis byrjun er platan sem kom Sigur Rós á hið alþjóðlega popp/rokkkort og hefur í dag selst í ríflega hálfri milljón eintaka um heim allan. Á sínum tíma vonaðist Ásmundur Jónson, framkvæmdastjóri Smekkleysu og útgefandi plötunnar að selja hana í 1500 til 2000 eintökum.

Eftir því sem á hefur liðið ferils hafa meðlimir tekið í hin ýmsu hljóðfæri og léku þeir t.a.m. allir á steinhörpu Páls á Húsafelli þegar Hrafnagaldur Óðins var frumfluttur í London í apríl 2002, eitt af mörgum "hliðarverkefnum" sveitarinnar ef svo mætti kalla. Einkanlega er það þó Kjartan sem er þúsundþjalasmiðurinn virðist geta leikið á hvaða það hljóðfæri sem hendi er næst.

Jónsi, Kjartan og Orri koma nú inn í stjórnherbergið með kaffibollana sína, reiðubúnir í spjall. Georg er ekki mættur þegar sest er niður og létt hjal er því viðhaft í fyrstu.

Blaðamaður og liðsmenn eru enda nett ryðgaðir í blábyrjun en viðtalið er hið fyrsta sem sveitin gefur vegna nýju plötunnar sem er ónefnd eins og sakir standa. Talið berst í upphafi að heimsókn túvönsku hljómsveitarinnar Huun Huur Tu í Sundlaugina. Sveitin sú var stödd á Íslandi á dögunum vegna Listahátíðar og dvöldu liðsmenn hérlendis í rúmar tvær vikur.

"Það voru bara ég og Jónsi sem vorum hérna þá," segir Kjartan. "Við vorum báðir þreyttir og utan við okkur og kannski ekki bestu gestgjafar í heimi einmitt þá. En þeir voru eldhressir, tóku í hljóðfæri og spiluðu og sungu."

Bandaríska söngkonan Nina Nastasia var og á landinu um svipað leyti og kíkti líka í heimsókn ásamt unnusta sínum og samstarfsmanni Kennan Gudjonsson sem er hálfíslenskur. Indælis fólk þar á ferð að sögn strákanna.

Þegar viðtalið fór fram var enn á huldu hvort farið yrði út á mánudegi eða sunnudegi til hljómjöfnunar (viðtalið var tekið fimmtudaginn 9. júní). Kjartani tekst þó að lokum að sannfæra Jónsa um að sé á mánudaginn.

"Sterling Sound er það," segir Kjartan snjallt og grínar. "Við verðum að þétta "sándið" svolítið, við stefnum nefnilega á að hafa þetta í anda Korn og Papa Roach."

Umsvifalaust fer af stað heljarmikil umræða um síðustu plötu Papa Roach, Getting Away With Murder , og hinn svakalega þétta og kristaltæra hljóm sem á henni er, svo tær að hann stingur í eyru þegar hlustað er.

Hljómjöfnun eða "mastering" er síðasta stigið á vinnsluferli hljómplötu. Hér á Íslandi sér maður t.d. iðulega nafn Bjarna Braga í þessu tilliti og erlendis eru viss nöfn sem maður sér aftur og aftur á plötum vinsælla listamanna, nöfn manna eins og Bob Ludwig og Howie Weinberg. Í ljós kemur að Sigur Rós prufaði að láta Bob Ludwig hljómjafna en voru ekki hrifnir af því sem þeir heyrðu.

"Þetta var alls ekki lélegt," segir Jónsi um þá tilraun. "En útkoman var bara skrýtin. A.m.k. ekki það sem við vorum að leita að."

Tuttugu mánuðir

Upptökur á plötunni tóku um eitt og hálft ár.

"Var það ekki meira?" segir Jónsi með furðusvip. "Jú, þetta voru tuttugu mánuðir," svarar Orri þá að bragði sem virðist fljótt á litið talnagleggsti meðlimur sveitarinnar.

Á þessu tímabili hefur hljómsveitin og einstakir meðlimir skotist í margvísleg verkefni. Í raun hafa þeir verið upp fyrir haus í vinnu frá því að síðasta breiðskífa, ( ) , kom út haustið 2002. Auk þess að túra fyrri hluta ársins 2003 kom tónlist Sigur Rósar við heimildarmyndina Hlemmur út á plötu og sama ár vann sveitin tónlist við dansverk Merce Cunningham, Split Sides , ásamt bresku sveitinni Radiohead. Tónlist Sigur Rósar við verkið kom svo út í fyrra sem EP platan ba ba ti ki di do . Árið 2003 hjálpuðu meðlimir einnig vini sínum í Album Leaf, Jimmy LaValle, að vinna plötu í Sundlauginni. Sama ár fékk sveitin svo Evrópsku MTV verðlaunin fyrir myndbandið við fyrsta lagið á ( ) , sem gefið var út á smáskífu. Öll lögin átta á ( ) voru án titils en báru þó óeiginlega titla og var nafn þessa lags "Vaka" sem er nafnið á dóttur Orra. Það var Floria Sigismondi sem gerði myndbandið. Þetta ár hljóðritaði sveitin einnig tónlist fyrir stuttmyndina The Loch Ness Kelpie .

Þá hefur Jónsi komið fram einn sem Frakkur, en það gerði hann í Klink og Bank í fyrravor. Stuttu áður skellti Kjartan sér til Ísafjarðar og lék á Aldrei fór ég suður hátíðinni á Ísafirði sem Lonesome Traveller. Lék hann nokkur Sigur Rósar lög í afslöppuðum, kántrílegum búningi. Kjartan samdi einnig tónlist við stuttmyndina Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson. Helstu samstarfsaðilar Sigur Rósar undanfarin ár, strengjasveitin Amina, gaf þá út stuttskífu seint á síðasta ári.

Auk alls þessa hefur Sigur Rós verið tilnefnd til ýmissa verðlauna - m.a. Grammyverðlauna - lög eru farin að rata inn í Hollywoodmyndir, hinn virti strengjakvartett Kronos hefur útsett lög sveitarinnar og áfram má telja. Vegferðin þennan tíma hefur verið farsæl og áhugi fyrir sveitinni hér heima og að heiman er stöðugur og mikill.

Nýjasta útspil sveitarinnar í hliðarverkefnavinnu var lag sem samið var fyrir 200 ára afmælisfagnað til heiðurs H.C. Andersen sem fram fór í Kaupmannahöfn í apríl. Lagið var flutt undir túlkun Konunglega danska dansflokksins á sögunni um Litlu stúlkunni með eldspýturnar.

"Það er gaman að sinna svona verkefnum en hversu miklu við getum sinnt fer eftir því hvað við höfum mikinn tíma," segir Jónsi. Tilboð um alls kyns samvinnuverkefni og sérstök verkefni eins og þessi berast reglulega til sveitarinnar. Og í það miklu magni að umboðsmaðurinn fer að mestu yfir þessi tilboð.

"Mér fannst þessi afmælishátíð sem slík þó algerlega skelfileg," bætir Jónsi við. "Einhver svona Las Vegas stemning með Tinu Turner og Oliviu Newton-John í góðum fíling."

Hawaii heillar

Engir verulegir erfiðleikar mættu liðsmönnum við vinnslu nýju plötunnar.

"Neeei," segir Kjartan hugsi. "En síðasta plata var erfið. Þessi var það alls ekki ... a.m.k ekki miðað við þá síðustu."

Jónsi segir að þá hafi þeir verið búnir að spila lögin svo lengi á tónleikum. "Þessi plata gekk einhvern veginn hraðar og betur."

Nýja platan verður að öllum líkindum tíu laga og aðeins tvö lög hafa verið leikin á tónleikum hingað til. Framundan er svo umfangsmikið tónleikaferðalag, það stærsta sem sveitin hefur farið í til þessa. Fyrstu tónleikarnir verða í Glasgow 8. júlí og verður sveitin meira og minna á ferðinni allt fram í október. Farið verður um Evrópu, Japan, Ástralíu og Ameríku - og meira að segja til Hawaii.

"Pride of the Pacific heitir staðurinn víst," segir Orri og kímir og þeir reyndar allir. "Mjög flott hús, gamalt leikhús sem var byggt 1920."

Kjartan segir að þar ætli þeir að nota tækifærið og fara í smáfrí. Ástralíutúrinn endar 5. ágúst og tónleikarnir í Hawaii eru 9. sama mánaðar. Og svo verða ekki tónleikar fyrr en í september.

"Það var auðvitað frábært að landa þessu," segir hann. "Ætli maður fari ekki í köfunarnámskeið og svona. Og svo ætlum við að taka tónlistarhátíðirnar sumarið 2006."

Ferðalagið leggst mjög vel í strákana en Jónsi segir að þeir hafi ekki haldið eigin tónleika mjög lengi.

"Þetta verður rosa gaman og ég hlakka til að komast aftur í gír. Svona löng hlé á milli ferðalaga halda manni ferskum. Það er hressandi að finna að maður hlakkar verulega til að fara að spila."

Það er því greinilega mikill hugur í Sigur Rós um þessar mundir en nánar má lesa um dagsetningar væntanlegs ferðalags á www.sigur-ros.co.uk, sem er opinber fréttasíða sveitarinnar en hún inniheldur einnig ýmsar aðrar upplýsingar af margvíslegu tagi. Síðunni var hleypt af stokkunum árið 2000 og henni stýra Björn Erlingur Flóki Björnsson, Paul Mcallister og Chris Wray. Síðan var upphaflega eins og hver önnur aðdáendasíða en svo vel var að verki staðið að Sigur Rós ákváðu að ganga í samstarf við hana.

"Þeir eru með þetta allt á hreinu," segir Jónsi. "Meira en við!," en þess má geta að múm eru í svipuðum málum. Portúgali að nafni José Luís Neves rekur vefsíðuna mumweb.net en þar má nálgast ítarlegar upplýsingar um sveitina og allar helstu fréttir. Neves þessi er fyrst og fremst aðdáandi en er í dag í góðu samstarfi við múm.

Orri segir að þeir haldi góðu sambandi við vefstjóra Sigur Rósar síðunnar, bjóði þeim út á tónleika og hitti þá reglulega.

"Við ætlum þó að setja upp síðu sjálfir áður en platan kemur út," heldur Jónsi áfram. "En þetta er auðvitað magnað með þessa fréttasíðu, þarna eru upplýsingar og slíkt sem við vitum ekki sjálfir um. Þetta er fínt fyrir okkur þar sem við erum ekki miklir netgæjar."

Kjartan spaugar: "Við erum ekki af þessari kynslóð (allir hlæja). Maður kann þó að senda tölvupóst. Maður veit hins vegar ekkert hvað maður á að skoða þegar maður fer inn á þetta internet (hlær)."

"Ég hef ekkert"

Yfirbyggingin um Sigur Rós í dag er þónokkur. Umboðsmaður, lögfræðingar og slatti af alls kyns starfsfólki.

"Þetta er auðvitað "huge" band," segir Kjartan. "Við ætlum að verða jafnstórir og U2!"

Að gríni slepptu segja þeir að batteríið í kringum þetta sé orðið nokkuð að vöxtum.

"Þess vegna er mjög gott að búa hér á Íslandi," segir Jónsi. "Allur bransinn í kringum þetta er úti og það hefur reynst mjög vel. Við náum að vera í eigin heimi hér og þetta heldur okkur niðri á jörðinni."

Samningar Sigur Rósar við plötufyrirtæki sín eru hagstæðir að því leytinu til að þeir geta gert það sem þeim sýnist.

"Þannig að við fáum ekki skipanir um að fara í myndatöku, mæta í viðtöl eða neitt svoleiðis," segir Jónsi. "Samt er stundum gaman að fara í viðtal, tala við eitthvað lið og láta krukka í sér. Við fórum t.d. í tveggja vikna viðtalatúr vegna ( ) . Ferðuðumst um Evrópu og gerðum tólf viðtöl á dag eða þar um bil. Algjört maraþon. Þá lentum við á mjög mismunandi blaðamönnum. Sumir algjörir hálfvitar og sumir mjög klárir. Og það var rosalega gott að tala við þannig blaðamenn. Maður kom mjög einbeittur út úr þessu, var búinn að hugsa og tala nánast stanslaust í tvær vikur."

Kjartan og Orri lentu í mjög slæmum blaðamanni frá Sviss í téðum viðtalatúr.

"Hann var búinn að gera sér mjög svo fyrirfram ákveðnar hugmyndir um okkur, plötuna og slíkt," segir Orri. "Og móðgaðist ef hann hafði rangt fyrir sér. Hann var að fiska eftir einhverri svakalega djúpri hugmynd á bakvið plötuna sem var bara ekki til staðar"

Kjartan tekur sig nú til og leikur blaðamanninn (skræk rödd): "I got nothing! I got nothing!". Kjartan segir hann hafa verið mjög pirraðan.

"Aumingja karlinn, hann var búinn að dressa sig upp fyrir þetta og allt."

Tommy Lee

Kjartan segist vera í góðum gír vegna væntanlegs hamagangs. "Við höfum allir þroskast mjög mikið, a.m.k. fyrir mitt leyti. Þegar við vorum að byrja í öllum þessum pakka var maður dálítið smeykur við þetta. Maður var bara einhver strákur úr Reykjavík og ég var mjög tortrygginn á þetta. Ég treysti engum og allir blaðamenn voru bara ... æ, maður var bara hræddur og ég held að það hafi endurspeglast í þessum fyrstu viðtölum sem ég fór í. Núna er maður einhvern veginn öruggari og vanari. Manni líður miklu betur í þessum aðstæðum. En samt ... þetta er alveg svakaleg grýla einhvern veginn líka."

Jónsi segir að þeir séu í raun búnir að ganga í gegnum ákveðna þjálfun í að tala um það sem þeir eru að gera.

"Maður gerir það nefnilega aldrei venjulega. Við tölum aldrei um það sem við erum að gera okkar á milli. Við erum ekkert að kryfja þetta neitt sérstaklega. Þetta er rosalega skrítið því að blaðamenn er sífellt að reyna að fá einhvern botn í það sem maður er að gera og vilja fá svör. Og það er erfitt að gefa einhver ákveðin svör."

Hann segir bestu viðtölin vera þau sem umbreytast í nokkurs konar kaffihúsaspjall og skemmtilegast sé þegar umræðurnar fara út fyrir sjálfa tónlistina.

"Þetta voru 160 viðtöl samtals í kringum () ," segir Orri. "Ef maður var að ná góðu sambandi við blaðamennina gaf maður af sér en ef þetta voru einhverjir leiðindapésar þá fengu þeir bara vélmennalega romsu."

Tónlist Sigur Rósar hefur hitt fólk um allan heim í hjartastað og bara að lesa dóma viðskiptavina á Amazon vefbúðunum er stórmerkilegt. Fólk virðist í hálfgerðu losti og trúir því varla að það sé hægt að búa til svona fallega tónlist. Henni er lýst sem guðdómlegri og að meðlimir séu í sendiför fyrir friði.

Strákarnir hlæja við enda ekki annað hægt. "Jú jú, gulltár sem falla ofan af himnum og svona," segir Kjartan. "En það er auðvitað frábært ef fólk kann að meta þetta, höfum það alveg á hreinu."

Jónsi talar í þessu samhengi um kafla í nýrri bók Tommy Lee, trommuleikara Mötley Crüe.

"Þar er kafli um tónlist. Hann lýsir því hvernig hann lá í fósturstellingu á gólfinu með tónlistina okkar í botni. Vinkona hans kom að honum og slökkti á tónlistinni,"

Þessari sögu fylgja mikil hlátrasköll og auðvitað eru menn ánægðir með að sjálfur Tommy Lee sé að geta þeirra. "Það er minnst á okkur, Led Zeppelin og Megadeth," segir Kjartan, "Ekki amalegt!"

Orri upplýsir enn fremur að Tommy sé að sækjast eftir því að taka við þá viðtal er þeir koma til Bandaríkjanna.

Radiohead

Tommy Lee er ekki eina ofurstjarnan sem strákarnir hafa komist í kynni við og skemmst er að minnast þess að Lars Ulrich lýsti yfir miklu dálæti á sveitinni. Talið berst því að Thom Yorke, leiðtoga Radiohead, en Sigur Rós lék með sveitinni á nokkrum tónleikum haustið 2000 og síðar tóku báðar hljómsveitir þátt í dansverki Merce Cunningham.

"Við kynntumst Thom eða hinum gaurunum aldrei neitt mikið," segir Jónsi. "Við spiluðum einhverja tíu tónleika með þeim og það var eins og tvær hljómsveitir væru að spila algerlega í sitt hvoru lagi. Það var lítill samgangur á milli, við töluðum mest við bassaleikarann, Colin Greenwood, sem er algjör eðalnáungi."

Kjartan segir að það hafi verið svakalegt fyrirtæki í kringum Radiohead, öryggisverðir með talstöðvar úti um allt og því ekkert skrýtið að samgangurinn hafi verið svona lítill.

"Á svona túrum umgengst maður fyrst og fremst liðið sem er að túra með manni. Það er því ekki sjálfgefið að þegar einhver önnur sveit kemur inn í túrinn að hóparnir hristist eitthvað saman."

Fyrr á árinu 2000 höfðu Sigur Rós svo spilað með kanadísku síðrokksveitinni Godspeed You Black Emperor!, og segir Jónsi það hafa verið góða reynslu að túra með svo ólíkum sveitum.

"Það var lærdómsríkt fyrir okkur að sjá hvernig þetta gengur fyrir sig," segir hann. "Godspeed gerðu ALLT sjálfir og allt var svakalega alvarlegt. Svo voru það Radiohead og það var alveg svakalega fjölmennt starfslið sem fylgdi þeim. Ég var hissa á að sjá hversu mikið það var."

Georg er mættur

Í þessum töluðu orðum gengur Georg inn í herbergið. Því er ákveðið að færa sig inn í eldhúsið og búa til meira kaffi.

"Við erum mjög þakklátir Radiohead fyrir að hafa boðið okkur á þennan túr," segir Kjartan. "Þetta kom okkur á framfæri og var gríðarlegt tækifæri. Við vorum að spila fyrir 12.000 manns á hverju kvöldi liggur við."

Skyndilega leggur blaðamaður út á svellið og spyr hreint út: Er einhver sérstök hugmyndafræði á bakvið væntanlega plötu? Kjartan verður fyrir svörum.

"Humm ... þetta er bara náttúruleg þróun frá síðustu plötu. Hún var þung og það var bara mjög eðlilegt fyrir okkur að rokka þetta aðeins upp. Æ ... djö... var þetta asnaleg setning (hlær)."

Sigur Rós eru nú á mála hjá Geffen í Bandaríkjunum en E.M.I. í Bretlandi og annars staðar í heiminum. Upprunalega skrifuðu þeir undir hjá MCA í Bandaríkjunum en það er nú runnið saman við Geffen. Lengi vel voru þeir undir hatti Fat Cat Records í Bretlandi en samningum var rift, ekki vegna óánægju með Fat Cat heldur PIAS, dreifingarfyrirtækið sem er í samstarfi við Fat Cat.

Fyrstu skýru merki þess að Sigur Rós væri farin að vekja verulega athygli erlendis var á tónleikum hennar í Fríkirkjunni sem fram fóru á Airwaveshátíðinni árið 2000. Kirkjan var smekkfull af erlendum blaðamönnum og útsendurum plötufyrirtækja og í kjölfarið fór í gang tilboðsstríð á milli stóru fyrirtækjanna.

"Það voru fimmtán fyrirtæki sem gerðu okkur tilboð," segir Georg. "Við sendum út okkar skilmála og þrjú svöruðu jákvætt."

Rætt var um á þessum tíma að stórfyrirtækin hefðu verið á höttunum á eftir Sigur Rós til að tryggja sér hljómsveit sem nyti virðingar í hópi tónlistaráhugafólks, frekar en að menn væru að horfa í einhverjar stórkostlegar sölutölur. Þetta gerði Geffen einmitt á sínum tíma, er samningur var gerður við neðanjarðarrokksveitina Sonic Youth sem varð til þess að Nirvana ákváðu einnig að gera samning við Geffen.

"Ég held að þetta hafi verið einhvern veginn svona í okkar tilfelli, óþarfi að vera að draga eitthvað úr því," heldur Georg áfram. "Eftir að við hættum hjá Fat Cat fór svipað ferli í gang og við gerðum þennan samning við E.M.I."

Kjarri og sloppurinn

Nokkuð er nú liðið á viðtalið og allir löngu losnaðir við ryðið. Viðtalið leysist því upp í rólyndis spjall.

Þennan dag voru tveir dagar liðnir frá Iron Maiden tónleikunum í Egilshöll og þeir því í fersku minni, bæði hjá blaðamanni og meðlimum sem allir voru á tónleikunum. Þeir félagar virðast sæmilega að sér um Maiden en Georg segist þó aðeins hafa átt eina plötu, The Number of The Beast . Kjartan er sýnu mesti aðdáandinn og hann og blaðamaður rifja upp snilldarlög af síðustu skotheldu plötu sveitarinnar, Seventh Son Of A Seventh Son (1988) eins og opnunarlagið "Moon Child" og "Infinite Dreams". Allnokkuð teygist úr Maiden-umræðunni og rifjað er upp að Kjartan hafi komið hlaupandi upp á svið rétt áður en Sigur Rós lék á ógleymanlegum tónleikum í Hróarskeldu árið 2003, íklæddur risastórum Iron Maiden bol sem var meira eins sloppur utan um hann að sögn hinna.

"Það var hrikaleg tímasetning í gangi," segir Kjartan og dæsir. "Maður rétt náði að klára Maiden áður en við áttum að fara upp á svið."

Á meðan á viðtalinu stóð var rölt út í reykpásu reglulega. Á bílastæðinu utan við hljóðverið reyndu meðlimir sig í því að halda fótbolta á milli sín, nokkuð sem þeir sögðu vera orðið að hefð. Og það verður að segjast að tilþrifin komu reglulega á óvart, boltinn gekk stundum á milli fereykisins í drjúgan tíma. Menn fórnuðu sér í boltann af innblásinni ástríðu, með tilheyrandi hrópum og köllum og spyrnt var með hælum og hnjám auk þess sem bringur og skallar komu við sögu. Greinilegt að þessari hefð hefur verið haldið við lengi vel.

Það er freistandi að sjá einhver líkindi með þessum leik og list Sigur Rósar. Þarna úti á planinu kristallaðist þessi góði, látlausi andi sem einkennir þessa hljómsveit, hljómsveit sem hefur náð lengst allra poppara á alþjóðavísu fyrir utan Björk. Og líkt og hjá henni hefur það verið tónlistin og heilindi þau sem viðhöfð eru í vinnslu hennar sem hafa skilað þeim árangri. Meðlimirnir fjórir virðast allir sem einn leggjast á það að gera sitt besta - með ástríðuna að leiðarljósi innan vallar sem utan.

arnart@mbl.is