[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Edda: Ég hugsaði einmitt með mér, eftir að ég ákvað að vera með, hvað ég væri ótrúlega leið á umræðunni um konur. Og þá fór ég að velta því fyrir mér hvers vegna. Af hverju er ég orðin svona þreytt á þessu viðfangsefni? Samt er umræðan þörf.
Edda: Ég hugsaði einmitt með mér, eftir að ég ákvað að vera með, hvað ég væri ótrúlega leið á umræðunni um konur. Og þá fór ég að velta því fyrir mér hvers vegna. Af hverju er ég orðin svona þreytt á þessu viðfangsefni? Samt er umræðan þörf. Eru konurnar undir? Hvert er hlutverk kvenna í samfélaginu? Ég hugsaði, oh, þetta eina ferðina enn, en samt...

- Þarf kannski að finna þessari umræðu nýjan búning?

Gulla: Ég hef ekki stúderað femínisma sem slíkan, en þekki að sjálfsögðu kröfuna um jafnan rétt og að konur njóti sömu launakjara og karlar. Ég viðurkenni hins vegar að þegar ég lendi í samræðum við fólk og viðra mínar skoðanir, leiðist mér óskaplega þegar þeim er pakkað inn og sagt við mig: Þú ert greinilega bara svona mikill femínisti. Ég lýsi mínum skoðunum, en nenni ekki að láta stinga þeim ofan í skúffu sem heyrir undir tiltekna skilgreiningu. Þínar skoðanir falla undir þennan hatt, gjörðu svo vel.

Edda: Hvað er að vera femínisti? Maður sér fyrir sér konur í hópi með spjöld, ofsalega bitrar, reiðar og fúlar.

Gulla: Já, kannski er það málið. Maður tengir femínisma við rauðsokkur og fúlar konur með mótmælaspjöld. En það er leiðinlegt að sú mynd skuli strax koma upp í kollinn á manni.

Edda: Ef konu finnst að verið sé að mismuna henni í launum, á ég bágt með að trúa að hún upplifi þá ástæðu fyrir því að hún sé kona. En sjálfsagt eru bæði karlar og konur ómeðvituð um ástæður kynbundins launamunar. Þau störf sem fylgja heimilinu og barnauppeldi hafa fylgt konunni í gegnum tíðina og maðurinn hefur farið út fyrir heimilið til þess að færa björg í bú, það vita allir. Síðan kemur að því að konan vill meira sjálfstæði, fara út fyrir heimilið og sinna sínu starfi og frama. Þá eru störfin heima í lausu lofti. Hver á að sjá um þau? Þegar báðir eru útivinnandi, finnst mér að konan hafi meiri yfirsýn yfir það sem þarf að gera. Er það í genunum? Af hverju loðir ábyrgðin á því að setja föt í þvottavél oftar við konuna? Hvernig gerðist það? Við erum oft meira í smáatriðunum og þá dettur mér annað í hug. Konur byrja til dæmis mun seinna að leikstýra en karlar, þær hafa svo mikinn metnað og virðast hræddar við að bregðast, kannski sjálfum sér. Að þær verði ekki nógu góðar. Þær virðast ekki vilja byrja fyrr en þær eru orðnar nógu góðar. Þær æða ekkert af stað.

Gulla: Ég held að það sé mjög sjaldgæft að konur byrji að leikstýra nýútskrifaðar úr leiklistarskóla, sem strákarnir gera í "lange baner". Ég átti mjög skemmtilegt samtal við vin minn sem er tiltölulega nýútskrifaður og að setja upp sína aðra eða þriðju sýningu í menntaskólum og úti um allt. Hann spurði mig hvort mig langaði ekkert til þess að leikstýra og ég sagði, jú, mér finnst ég alveg að verða tilbúin til þess. Þá sagði hann, já, þetta er munurinn á strákum og stelpum, við pælum ekkert í því hvort við séum tilbúnir eða ekki. Það er ekki eins og ég hafi ekki fengið tækifæri til að leikstýra fyrir löngu, tíminn er fyrst kominn núna.

Edda: Við treystum okkur ekki fyrr en við teljum okkur vita að við getum gert það, og gert það óaðfinnanlega. Hvað með það þótt manni mistakist?

- Finnst ykkur þið bera minna úr býtum en strákarnir í leikhúsinu?

Gulla: Það er ótrúlegt að árið 2005 skuli enn vera svona mikill munur á framboðinu á kvenhlutverkum og karlhlutverkum. Það gerist aftur og aftur að sett eru á svið leikrit með engu kvenhlutverki. Það vekur enga sérstaka athygli. Hins vegar ef koma fram verk þar sem eru bara stelpur innanborðs, hlýtur það að vera eitthvað svona kvenna... Eitthvað kvenna-"projekt".

Edda: Þegar Þórhildur var leikhússtjóri valdi hún oft kvenleikstjóra og kvenhöfunda og verk um konur, eins og til dæmis Mávahlátur eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Þá var viðkvæðið alltaf: já, einmitt, hún ræður bara konur. Aldrei yrði þetta sagt um karla. Á hinn bóginn held ég að það sé alveg hægt að finna jafnvægi í þessum málum. Mestu skiptir að setja upp góð verk og metnaðarfulla dagskrá, burtséð frá því hvort karlar og konur eru í meirihluta. Framlag hvers og eins er það sem upp úr stendur.

Gulla: Ég veit ekki betur en að vetur eftir vetur hafi karlar verið allsráðandi sem leikstjórar í Þjóðleikhúsinu. Engum datt þá í hug að segja, já, þetta er svona karla... Það þykir bara fullkomlega eðlilegt.

Edda: Annars finnst mér leiðinlegt að þurfa að hugsa allt manns líf út frá karla- eða kvennasjónarmiðum, hvort sem er í leikhúsinu eða annars staðar. Á hinn bóginn virðist allt síga á karlahliðina, ef maður gerir það ekki.

Gulla: Ég heyrði af prédikun í vetur í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Presturinn lagði út af kvennadeginum og fór að tala nákvæmlega um þetta, femínista og karl- og kvenhlutverk og hvernig sú hugmynd, að í öllum samböndum yrði að vera einn ráðandi einstaklingur og einn undirgefinn, virtist vera innprentuð í mannskepnuna. Hann sagði jafnframt að litið væri á karlinn sem þennan ráðandi, höfuð fjölskyldunnar og að konan væri meira eins og limirnir sem dönsuðu eftir höfðinu. Mér fannst þetta svo frábært. Í framhaldi af því sagði hann að þetta væri mögulega skýringin á hómófóbíu, að karlmenn sérstaklega, hefðu ekki skilning á samböndum þar sem væru tveir jafningjar. Hommar sem ég þekki lenda oft í því að vera spurðir af heterósexúal karlmönnum sem þykjast vera opnir hvor sé konan í sambandinu. Þeir virðast ekki skilja að til sé samband þar sem tveir séu algerlega jafnir. Annar hljóti alltaf að þurfa að ráða. Konur virðast gera sér grein fyrir því að þótt maðurinn þeirra virðist á yfirborðinu og út á við höfuðið og gerandinn og allt það, hafa þær sitt að segja og vita í hjarta sínu hvaða hlutverki þær gegna og hvaða þýðingu það hefur fyrir manninn, börnin, þær sjálfar og samfélagið. En það er kannski bara ekki þessi þörf fyrir hendi að fara með það í blöðin hvað þær eru frábærar í því sem þær eru að gera. Hvort það heitir þá undirgefni veit ég ekki.

Edda: Vigdís var kjörin forseti og ég man hvað mér þótti hún stórkostleg og hvað gleðin var mikil yfir því. Við vorum fyrsta þjóðin sem kaus konu til forsetaembættisins, en hvað svo? Það er ekki hægt að lifa endalaust á því.

Gulla: Við erum komin að þeim tímapunkti að við þurfum að spyrja margra grundvallarspurninga. Búum við við lýðræði? Búum við við jafnrétti? Það er eins og við tökum öllu sem sjálfsögðum hlut. Fólk svarar þessum spurningum sjálfkrafa játandi, en hvernig er ástandið í raun og veru? Erum við frjálsar? Veljum við lífi okkar farveg sjálfar? Það er hægt að ráðskast með almenning á hvaða veg sem er og þegar jafnrétti er annars vegar er enginn vandi að segja, hey, stelpur, þið búið við réttindi, þið hafið val. Ef það er sagt nógu oft, fer maður bara að trúa því.

Edda: Mér finnst eitthvað svo erfitt að ræða þetta. Hvað segir það um mig? Kannski er ástæðan að maður vill ekki viðurkenna að maður sé minni máttar. Að þetta eigi við einhverjar aðrar konur en mig. Ég veit ég hef val, en samt ... samt ekki.

Gulla: Ég held að flestar mæður geti verið sammála um að þegar börnin manns eru annars vegar, þá er ekkert val. Uppeldi er ekki spurning um að maður sé að fórna glæstum frama eða þess háttar, allt verður bara svo einfalt þegar maður eignast barn. Ég var í Leiklistarskólanum þegar ég eignaðist son minn og ef hann hefði veikst eða einhver vandamál hefðu komið upp, hefði ég auðvitað hætt í skólanum og ekki þótt það baun sorglegt. Hver var þá að kúga mig? Enginn.

- Er ástæðan kannski forsendurnar sem gefnar eru; ef konur vilja ekki fórna fjölskyldulífinu og vinna myrkranna á milli, þá henta þær ekki til ábyrgðarstarfa?

Edda: Það er að minnsta kosti ekki beðið eftir manni. Svo þegar maður er tilbúinn er sagt: Nú, hvað, varstu ekki að eiga barn? Jú, það var fyrir tveimur árum.

Gulla: Við skulum ekki gleyma því að fullt af körlum eru komnir í algeran hnút með okkur. Það er fullt til af sjálfstæðum, einhleypum konum með börn sem sjá fyrir sér sjálfar og þurfa ekki á neinum að halda. Þær sækja sér það kynlíf sem þær vilja, þegar þær vilja, og eru sjálfum sér nógar. Þeir spyrja sig, hvert er okkar hlutverk orðið? Við megum ekki líta framhjá því.

- Hafið þið tekið eftir niðrandi orðfæri um konur á bloggsíðum og á sumum útvarpsstöðvum? Orðalagið "að sprengja í" er eitt dæmi sem tekið hefur verið upp í dagblaði og þá átt við kynlíf með konum. Finnst ykkur við, bæði konur og karlar, láta allt yfir okkur ganga til þess eins að vera ekki sökuð um tepruskap? Er umburðarlyndi okkar orðið of mikið?

Gulla: Þarna erum við komin að einhverju, sem mér finnst mjög þarft að ræða. Hvert er verið að fara með allt þetta kynlíf og kynhlutverk? Þá er ég ekki bara að tala um að berar stelpur á bílhúddum fari í taugarnar á mér, heldur þessi tryllingslega opnun og opna umræða um kynlíf. Foucault benti á það fyrir löngu að opnun kynlífsumræðu væri að eyðileggja kynlíf. Að á endanum yrði kynlíf afskræmt og fólk hætti að njóta þess. Hvernig kynlíf stundar ungt fólk í dag? 13 ára stúlkur hafa samfarir við marga karlmenn á einu kvöldi og líta ekki á það sem nauðgun, heldur eðlilegan hluta af því að vera í partíi. Hvaða rugl er þetta? Svona sögur heyrast og þar sem er reykur er eldur. Ég var í sýningu í vetur þar sem var mikil nekt og mjög opinská umræða um nákvæmlega þetta, samskipti kynjanna, kynlíf, mismunandi kynóra og kynhvatir. Mér fannst þetta svo tryllingslega erfitt og um tíma fannst mér ég virkilega vera að missa "mójóið". Ég hugsaði, er ég virkilega hætt að geta leikið, tekið þátt í ferlinu og unnið vinnuna mína? Ég tók út fyrir þetta hvern einasta dag. Var auðvitað að reyna að vera með. Í hverju æfingaferli, þegar ákveðið "konsept" er í gangi, er mikil umræða milli allra þeirra sem koma nærri um eigin reynslu. Ég bara gat þetta ekki. Fólk var að lýsa í smáatriðum prívatupplifunum sem mér finnst ég eiga fyrir mig og alls ekki eiga heima í svona vinnu, þó að hún sé einlæg. Ég upplifði mig sem forpokaða gamaldags kerlingu. En þegar ég gat rétt mig af hugsaði ég, þetta á ekki að vera svona. Kynlíf er einkamál og þessi allsherjar opnun er að gera það að einhverjum skrípaleik.

- Erum við óvirk? Við bregðumst ekki við þótt við sjáum eitthvað athugavert í kringum okkur, virðist vera. Það gengur allt og má allt og allt er í tísku. Veruleiki hvers og eins er klæðskerasaumaður og restin kemur honum ekki við. Nennum við ekki að taka meiri afstöðu en að nöldra?

Edda: Ég er ekki viss um að konur sem komast til metorða vinni á sínum forsendum. Mér sýnist þær þurfa að fylgja leikreglum karlanna, þegar á hólminn er komið. Fylgja þær þá sannfæringu sinni? Maður telur að þær hljóti að gera það, en stundum fær maður á tilfinninguna að svo sé ekki. Kannski vilja þær ekki fá á sig femínistastimpilinn?

Gulla: Ég hef það mjög á tilfinningunni að um leið og fólk kemst til metorða, að ekki sé minnst inn á Alþingi, þá "offrar" það bara öllu og fylgir einhverri gefinni forskrift. Sannfæring virðist aukaatriði.

Edda: Í pólitík hef ég alltaf á tilfinningunni að verið sé að ljúga að mér. Ég er að leita að manneskju með heildarsýn, einhverri sem vinnur fyrir fjöldann og hefur hugsjónir fyrir alvöru að leiðarljósi. Ég held að það sé mjög auðvelt að láta afvegaleiðast og fyrr en varir er maður farinn að hugsa um sinn eigin frama og viðurkenningu. Menn hugsa; til þess að geta gert eitthvað verð ég að hafa status. Þá fæ ég völd og ekki er verra að fá pening líka, eða hvað? Ég er ekki frá því að samstaða kvennaflokka sé meiri en karla-, þeir missa sig alltaf í framapot. En reyndar missi ég að jafnmiklu leyti virðingu fyrir konum sem hugsa eins.

Gulla: Það er sorglegt, en það er langt síðan að ég tók mark á því sem stjórnmálamaður lét út úr sér síðast.

Edda: Þeir sem manni finnst tala af viti eru taldir furðufuglar og rugludallar, sýnist mér.

- Er mikið af klisjum um konur í leikhúsi?

Gulla: Þessi fáu kvenhlutverk sem eru til eru af öllu tagi og alls ekki einhæf. Það eru til mjög skemmtilegar og dramatískar rullur fyrir konur. Ég fékk að takast á við dramatísk verk um tíma í Borgarleikhúsinu en hef að stærstum hluta stundað gamanleik. Klisjan getur oft verið ógeðslega fyndin og það er gaman að gera grín að klisjunni. Allt byrjar og endar með því að hafa húmor fyrir hlutunum. Kannski er talað um að femínistar séu húmorslausir, en þeir eru ekki húmorslausari en aðrir sem hafa ákveðna og einarða skoðun á einhverju, taka hana alvarlega, fylgja henni eftir og fylgja sannfæringu sinni. Mér er sama hvort um er að ræða femínisma, pólitík eða trúarbrögð, eða hvað, þegar maður tekur sjálfan sig og málefnið mjög alvarlega þá hefur maður ekki húmor fyrir því. Þar með virkar fólk húmorslaust. Ég held að maður þurfi að hafa húmor fyrir hlutunum. Mér finnst ég fyndin í því sem ég tek alvarlega og fylgi eftir af hjartans einlægni. Annað er bara leiðinlegt.

Edda: Ég gæti ekki verið meira sammála. Því hjartans mál er visst tungumál og oft fyndið þegar manni er dauðans alvara með eitthvað. Þarf maður alltaf að vera að hugsa um einhverja ákveðna stefnu og fylgja henni eftir? Mér leiðist það.

Gulla: Konur þurfa að slaka aðeins á og vera eilítið kærulausari og hafa húmor fyrir því að ef maður er útivinnandi og með ómegð og karl sem gerir lítið annað en að henda skítugum sokkum og nærfötum í kringum sig, þá er stundum allt á hvolfi. Og það er allt í lagi að taka á móti fólki þó að það sé ló og kusk út um allt. Hvað með það þótt ekki hafi verið vaskað upp í þrjá daga? Það hefur einfaldlega enginn verið heima.

Edda: Hvernig væri að koma raunverulega til dyranna eins og maður er klæddur og standa með sjálfum sér? Ég tek nefnilega eftir því í svona viðtölum að fólk, oft konur, segist koma til dyranna eins og það er klætt. Ég meina, gerum það þá. Þú fyrst!

Gulla: Finnum húmorinn í okkur sjálfum gagnvart því hvernig við erum. Það eru allir ógeðslega fyndnir, ef út í það er farið. Líka þessi sem er svo alvarlegur að hann er að drepast ofan í klofið á sér. Í leikhúsinu nálgast maður allt á forsendum leikhússins og einhver svona pæling á ekki alltaf við. Maður getur ekki klínt sínum skoðunum sífellt upp á allt sem er að gerast þar. Að leikstjóranum undanskildum.

Edda: Ég held að galdurinn felist í því að við hlustum hvert á annað. Ef maður einsetur sér að hlusta á aðra, virkilega hlusta, lærir maður mikið.

- Hvað með verkefni eins og Svínasúpuna? Er byggt upp á spuna eða framlagi hvers og eins?

Gulla: Þar unnum við eftir skrifuðu handriti. En hún er skemmtilegt dæmi um sýn ungra karla á kvenfólk. Rullurnar í Svínasúpunni voru annars vegar túttan og ritarinn, sem Edda Björg lék. Ég var aftur móðirin og geðveika konan. Þetta voru þær fjórar höfuðtýpur kvenna sem þeir gátu ímyndað sér eða ráðið við.

- Truflaði það ykkur?

Edda: Maður gat alveg séð fyrir sér að leika fleiri hlutverk, við hefðum vel getað leikið sketsa sem skrifaðir voru fyrir tvo karlmenn, án þess að það sé eitthvað "issue".

Gulla: Í seinni seríunni voru kannski fleiri kvenhlutverk, en þau voru ekki fjölbreyttari. Ég bíð nú til dæmis eftir því að einhver leikstjóri hafi hugmyndaflug í það að leyfa mér að leika túttuna.

Edda: Ég væri alveg til í að leika "geðveiku konuna". Þó að maður sé lítill og barnalegur, getur maður ýmislegt. Mig langar til þess að spreyta mig á því að sýna fleiri hliðar og dramatískari, ekki bara leika litlar stelpur. En það er líka undir manni sjálfum komið að breyta því.

Gulla: Ég braust út úr umgjörðinni á sínum tíma þegar ég sagði upp í Borgarleikhúsinu. Ég sagði, ég er hætt, farin, ég er ekki með í svona asnalegu leikriti...

Edda: Það er verk sem ég hefði viljað taka þátt í.

Gulla: Ég varð að gera þetta. Ég varð að hætta að vinna þarna og hætta að leika og flytja til útlanda. Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun. Ég var þreytt og leið og fannst ekki lengur gaman í vinnunni. Þegar vinnan er orðin leiðinleg, þarf maður að hætta, sama hvort maður er leikari eða eitthvað annað. Síðan komst ég að því eftir tvö ár að mig langaði til þess að halda áfram og eftir það er afstaða mín til vinnunnar allt önnur. Ég á til að mynda mun auðveldara með að segja nei. Áður sagði ég bara já, var auðmjúk og bljúg og var tilbúin til þess að þiggja nánast engin laun því ég var svo þakklát fyrir að mér skyldi hafa verið sýndur sá heiður að fá að vinna. Núna vel ég. Margir leikarar segjast ekki geta hugsað sér líf án leikhússins. Það á ekki við mig. Um leið og maður hættir að taka sjálfan sig og það sem maður fæst við alvarlega, verða hlutirnir auðveldari.

Edda: Einmitt, maður verður bara að slaka á.

- Hversu miklu máli skiptir útlitið fyrir leikkonur?

Gulla: Öllu! Ég er of feit til að leika túttuna. Túttan er aldrei feit.

Edda: Og ég ekki nógu feit, til þess að leika "geðveiku konuna".

Gulla: Af hverju lék Edda aldrei móður mína í Svínasúpunni? Við erum nánast jafngamlar, ég er fáeinum mánuðum eldri.

Edda: Þá fyrst hefði þetta verið fyndið.

Gulla: Það fyndna við mig er að ég er stór og feit. Þegar maður er þannig verður maður að þroska með sér húmor fyrir því. Mér finnst hins vegar vanta svolítið, að gera megi grín að konum sem eru fallegar. Fallegar konur virðast ekki hafa nokkurn húmor fyrir því. Þær fara bara í vörn.

Edda: Fallega konan vill kannski njóta viðurkenningar fyrir fleira en fegurð. Ef hún er falleg, hlýtur hún þá að vera vitlaus?

Gulla: Það hafa allir skotleyfi á mig, hvort sem ég er með rauðan varalit eða bleikan, í pilsi, buxum, eða hvað. En ekki á þessa sætu, það má ekki skjóta á hana. Hún verður bara snúðug.

Edda: Hvað meinarðu? Djók. Ég held samt að margar af þessum fallegu leikkonum hafi þurft að hafa fyrir því að fá að leika ljótar konur. Meira að segja í leiklistarskólanum vinna leiðbeinendur að því að afmá fegurðina því þeir eru svo stressaðir yfir því að þær verði of uppteknar af því að leika sætar konur. Hvað er athugavert við það? Hvers vegna er það nauðsynlegt?

Gulla: Ef það er aðaleinkenni leikkonu að vera forkunnarfögur, af hverju má hún þá ekki njóta þess í listinni? Ég kasta þessu svona í pottinn.

Edda: Annað sem mig langar til þess að tala um er launaleynd. Þar kemur nú eitt kúgunartækið.

Gulla: Eru lagalegar forsendur fyrir launaleynd? Getur vinnuveitandinn ákveðið það einhliða að ég sé að rjúfa trúnað ef ég segi öðrum hvað ég er með í laun? Í okkar stétt er þetta reyndar mjög einfalt. Sumir leikarar komast í þá stöðu að geta samið algerlega um kaup og kjör. Aðrir geta það ekki. Það er eins og í öðrum bisness.

Annað sem mig langar til þess að minnast á, er innlend dagskrárgerð. Ekki er miklu fé varið til þess málaflokks, en undanfarin tíu ár eða svo hafa fimm karlmenn setið um nánast allan pening sem varið er í framleiðslu á skemmtiefni í Ríkissjónvarpinu. Mér finnst svo skrýtið að ekki skuli hafa verið gerðar athugasemdir við þetta, þar sem um ríkisstofnun er að ræða. Þurfa ríkisstofnanir ekki að fylgja einhverri jafnréttislöggjöf?

Edda: Ég held að það sé hægt að búa til milljón löggjafir og reglugerðir um allan andskotann, en þetta byrjar allt og endar hjá okkur sjálfum. Við, konur sem karlar, verðum bara að átta okkur á því hvað það er sem við viljum og hverju við erum tilbúin að fórna til þess að fá það, bretta svo upp ermarnar og ganga í verkið.

Gulla: Draumarnir manns rætast ekkert sjálfkrafa, maður verður stundum að sækja sér það sem mann langar í og sem betur fer langar okkur ekkert öll í það sama.

Tjaldið fellur. | helga@mbl.is

Eftir Helgu Kristínu Einarsdóttur Ljósmyndir Kristinn Ingvarsson