Eyvindur P. Eiríksson
Eyvindur P. Eiríksson
Eyvindur P. Eiríksson, Lafleur 2005, 176 bls.
OG SVO er það blessuð ástin. Hið eilífa yrkisefni. Ástin og dauðinn við hafið. Eða, einsog í skáldsögu Eyvindar P. Eiríkssonar, Örfok, ástin í og á íslenskri náttúru. Rotnandi lík í auðninni sem að hálfu er runnið saman við náttúruna. Spennan við fyrstu kynni. Hinir óhjákvæmilegu árekstrar þegar kynnin verða nánari. Uppgjör og upplausn ástar og líkama. Sagan öll. Og hringrásin hefst að nýju. ÉG og ÞÚ. Aftur og aftur í gegnum aldirnar. Sömu vonir, sama gleði, sömu mistök, sömu vonbrigði. Kynslóð fram af kynslóð í samspili við blinda náttúruna sem heldur sínu striki hvað sem nýjum uppgötvunum í sálarfræði og upplýsingamiðlun líður. Sagan endalausa.

Eyvindur ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í vali á viðfangsefni. Gerir tilraun til að rýna í grundvallarþætti mannlegs eðlis um leið og hann endurspeglar þær áherslubreytingar sem orðið hafa í samskiptum kynjanna síðustu áratugi. Og kemst að niðurstöðu: Við erum öll villt í óbyggðum mannlífsins, leitandi hins helmingsins af okkur en hörfum undan í ofboði um leið og við finnum hann. Og ekkert framundan nema dauðinn.

Ekki ný niðurstaða, svo sem. Ekki frekar en spurningin sem lagt er upp með. Og raunar afskaplega fátt nýstárlegt að finna í þessari skáldsögu. Árásir á gerviþarfir, femínisma, neysluþjóðfélagið, græðgina, sjálfselskuna og höfnun ástarinnar hafa verið leiðarstef skáldsagna margra höfunda langa lengi. Og Örfok bætir litlu við það sem aðrir hafa áður sagt. Sorglega litlu þar sem Eyvindur er snjall höfundur, góður penni og hefur skoðanir sem ættu að skipta máli. Og hefur ofurást á tungumálinu. En einsog oft vill verða með ástfangna menn þá ber ástin hann ofurliði. Merkingin kafnar í orðunum fögru og eftir stendur síða eftir síðu af flottum setningum sem hafa stærra yfirborð en innihald. Persónurnar ÞÚ og ÉG, einu persónur sögunnar, týnast í orðaflaumnum.Tilfinningar, vangaveltur, sársauki og áður nefndar árásir á óvini lífsins fletjast út undir þunga orðanna og glata slagkraftinum. Lesningin verður langdregin og aftur og aftur týnir lesandinn þræðinum í hafi af orðum:

Og ÞÚ sendir geislana inn, langa og heitglóandi, kaldskínandi ísneista sem nálgast eins og gneistandi smásverð sem skjóta brennandi leisioddum í veruna rauðu sem skelfur og þenst og dregst og vill vera lifandi en er ekki ætlað að deyja, ÉG get ekki dáið, ÉG þenst, ÉG verð að lifa og ÉG lifi, og ÉG dregst, en sár berast á mig og ÉG verð að lifa. (bls. 54)

Og svona er haldið áfram. 176 síður af svo góðu eru nóg til að æra óstöðugan lesanda. Hér hefði góður yfirlesari gert kraftaverk. Það er Akkillesarhæll margra höfunda að hrífast svo af eigin texta að þeir mega ekki sjá af nokkru orði og það virðist hafa hent Eyvind P. Eiríksson við skrif þessarar sögu. Því miður.

Friðrika Benónýs