,,Kannski endurspeglar spítalinn þjóðfélagið."
,,Kannski endurspeglar spítalinn þjóðfélagið."
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is Fleiri ófaglærðar konur Tækjakaupanefnd LSH er skipuð einni konu en sex körlum en í henni sitja tæknifræðingar, verkfræðingar og læknar og í nefnd um list og minjar eigi þrír karlar frá byggingarsviði sæti.
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is

Fleiri ófaglærðar konur

Tækjakaupanefnd LSH er skipuð einni konu en sex körlum en í henni sitja tæknifræðingar, verkfræðingar og læknar og í nefnd um list og minjar eigi þrír karlar frá byggingarsviði sæti. Vilhelmína Haraldsdóttir bendir á að á móti komi að í gæðaráði og siðanefnd séu konur í meirihluta. "Ég held að þetta hlutfall sé ekki athugavert miðað við að fagstéttirnar sitja frekar í nefndum en hér starfa miklu fleiri ófaglærðar konur en karlar."

Karlar eru í meirihluta í nefndum og ráðum á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) og fara mun oftar með formennsku. Engu að síður eru konur um átta af hverjum tíu starfsmönnum sjúkrahússins. Þetta kemur fram í skýrslu LSH um stöðu jafnréttismála árin 2003 og 2004.

Árið 2004 voru karlar formenn í 67% nefnda og 54% nefndarmanna.

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, fyrrum formaður janfréttisnefndarLSH og einn höfunda skýrslunnar, segir að þessar niðurstöður hafi komið á óvart og að engar skýringar liggi fyrir. Það sé athyglivert að á vinnustað þar sem konur eru í svo miklum meirihluta séu nefndir og ráð í öfugu hlutfalli.

Vilhelmína Haraldsdóttir, sviðsstjóri lækninga á lyflækningasviði II, fór nánar yfir stöðuna í framhaldi af skýrslunni en hún bendir á að nefndirnar dreifist ekki jafnt yfir starfsstéttirnar. "Þetta skiptist svolítið eftir því hvað nefndirnar eru að fjalla um. Það eru mjög margar nefndir með jöfnu hlutfalli karla og kvenna en svo eru aðrar þar sem hlutafallið er öðruvísi."

Vilhelmína segist ekki hafa skýringu á hvers vegna karlar eru oftar formenn nefnda en konur. "Mig grunar að þetta sé eitthvað sem yfirmenn þurfa að huga betur að," segir Vilhelmína en útilokar ekki að aldur og starfsaldur geti haft einhver áhrif. "Því lengur sem þú hefur gegnt starfi hjá stofnuninni því líklegra er að þú verðir beðinn um að vera formaður í einhverri nefnd."

Heildarlaun karla 60% hærri

Í skýrslunni er farið yfir launatölur fyrstu níu mánuði áranna 2003 og 2004. Bæði árin voru meðalheildarlaun karla tæpum 60% hærri en kvenna. Árið 2004 voru karlar með 556 þúsund kr. að meðaltali á mánuði en konur aðeins með 351 þúsund. Kynjahlutföll eru hins vegar mjög mismunandi milli starfa og oft eru heilu starfstéttirnar eingöngu skipaðar konum.

Vilhelmína bendir á að inni í heildarlaunatölum sé ekki tekið mið af vinnuframlagi, menntun, stöðu og álagi. Hún segir að 40% karla sem starfa á LSH séu læknar en aðeins 4% kvenna. "Það er ótrúlega mikil kynjaskipting á milli starfa sem gerir þetta svolítið snúið. Kannski endurspeglar Landspítalinn þjóðfélagið að einhverju leyti," segir Vilhelmína og vísar til þess að körlum fjölgar því hærri sem launin eru. "Ef maður skoðar kynjadreifinguna er hún allt öðruvísi hjá yngra fólki en þeim sem eldri eru. Í kandídatahópnum, sem eru nýútskrifaðir læknar, eru konur t.d. meira en helmingur en eftir því sem ofar dregur í aldri og menntun eru konurnar færri," segir Vilhelmína.

Í skýrslunni eru annars vegar skoðuð laun eftir starfsheitum en hins vegar eftir stéttarfélögum. Guðlaug Rakel segir að þegar horft er til stéttarfélaganna sé launamunur milli kynjanna töluverður en að innan þeirra sé fólk í mjög mismunandi stöðum. "Þegar horft er til stöðuheita er launamunurinn mjög lítill sem verður að teljast jákvætt fyrir Landspítalann. En auðvitað má velta upp ýmsum spurningum eins og t.d. hvort karlar hafi meiri möguleika á yfirvinnu en konur," segir Guðlaug og bætir við að höfða þurfi til þeirra sem fara með ráðningarvald varðandi hvernig fólk raðast í stöður. "Það væri t.d. mjög fróðlegt að skoða þessar tölur fyrir mismunandi svið og hvort munurinn sé meira áberandi á ákveðnum stöðum."

Karlhjúkrunarfræðingar fljótari að vinna sig upp

Í skýrslunni kemur fram að árið 2004 voru 25% karlhjúkrunarfræðinga í launahæstu stöðum á móti 13% kvenhjúkrunarfræðinga. Karlar voru með örlítið hærri grunnlaun, 11% hærri reglubundin mánaðarlaun og 13% hærri heildarlaun. Konur eru þó í miklum meirihluta í stéttinni eða í 862 stöðugildum á móti 23 stöðugildum karla.

Guðlaug segir að karlar í hjúkrunarfræðingastétt virðist fljótari að vinna sig upp. "Það er ekki hægt að fullyrða að þetta sé sök Landspítalans eða annarra. Kannski sækjast karlarnir meira eftir stöðuhækkunum en kannski fá þeir meiri hvatningu," segir Guðlaug og ítrekar að fara þurfi nánar ofan í þessi mál.

Vilhelmína segir að jafnréttisskýrslan sé gott tæki fyrir yfirmenn og stjórnendur og að með bættu skráningarkerfi megi nálgast mun ítarlegri upplýsingar um hvern starfsmann.

Í lok skýrslunnar er lögð fram aðgerðaáætlun þar sem m.a. kemur fram að ráða þurfi jafnréttisfulltrúa á spítalann. Vilhelmína segir ekki líklegt að það verði gert enda hafi spítalinn þurft að hagræða mjög í rekstri undanfarin ár.