Böðvar Bragason
Böðvar Bragason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þóri Júlíusson thorirj@mbl.
Eftir Þóri Júlíusson thorirj@mbl.is
DÓMS- og kirkjumálaráðuneytið hefur gert árangursstjórnunarsamning við Lögreglustjórann í Reykjavík en samningurinn var undirritaður af Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra og Böðvari Bragasyni lögreglustjóra á kynningarfundi Lögreglustjórans í Reykjavík. Þar var jafnframt kynnt stefnumótun embættisins til næstu ára og ársskýrsla embættisins fyrir árið 2004 var lögð fram. Samningurinn er til þriggja ára en í slíkum samningum er helst kveðið á um skyldur viðkomandi stofnunar og markmiðssetningu. Þannig mun ráðuneytið eiga auðveldara með að hafa yfirlit yfir stefnu og stöðu viðkomandi stofnunar. Auk þess að kynna stefnumótun sína hefur embættið nú þegar skilað ráðuneytinu starfsmannastefnu sinni.

Í stefnumótun lögreglunnar í Reykjavík fyrir árið 2005 er hlutverk lögreglunnar skilgreint á eftirfarandi hátt: "Hlutverk lögreglunnar í Reykjavík er að gæta laga og réttar, standa vörð um öryggi borgaranna, þjónusta almenning á sem bestan og hagkvæmastan máta og stuðla þannig að virðingu fyrir stjórnskipuninni, stöðugleika samfélagsins og félagslegri velferð íbúa."

Böðvar Bragason fagnar samningnum en telur að til þess að árangur eigi að nást þurfi að skoða sérstaklega innri boðleiðir embættisins auk þess sem tölvukerfið þurfi endurskoðunar við. Hann segist þess fullviss að allir viðkomandi aðilar eigi eftir að leggja sitt að mörkum til þess að markmið embættisins verði að veruleika.

Mikilvægt ferli

Björn Bjarnason segir samninginn mikilvægan enda sé hér um að ræða stærsta embættið á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. "Það er mikilvægt að hafa náð þessum samningi en eins og við sjáum leiðir hann strax til þess að lögreglan fer að móta sína stefnu og setja sér markmið," segir Björn en hann telur árangursstjórnunarsamninga mjög æskilega auk þess sem mikilvægt sé fyrir embættið að ganga í gegnum það ferli sem er samningnum samfara.

"Það er mjög mikilvægt fyrir innra starfið í sjálfu sér fyrir utan samskipti ráðuneytisins og embættisins en við höfum sett okkur sameiginleg markmið og ákveðið hvernig á að útfæra þau en embættið mun færa þau út enn nánar."

Björn segist hafa góða reynslu af samningum sem þessum en hann hafi gert fjölda slíkra samninga við skóla þegar hann var menntamálaráðherra og eins hafi nú verið gerðir samningar við sýslumannsembætti landsins. "Þessi aðferð við stjórnun opinberra stofnana er mjög mikilvæg og skilar árangri en það tekur tíma. Ríkisendurskoðun hefur gert úttekt á þessu og ýmsir þættir eru sterkir og aðrir veikir eins og gengur. Allir eru hins vegar sammála því að það sé gott að ganga í gegnum þetta ferli."