Tony Blair, forsætisiráðherra Bretlands og Jacques Chirac Frakklandsforseti.
Tony Blair, forsætisiráðherra Bretlands og Jacques Chirac Frakklandsforseti.
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is Leiðtogar öflugustu ríkja Evrópusambandsins skiptust á hörðum ásökunum eftir að fundi þeirra í Brussel lauk á föstudagskvöld án þess að samkomulag næðist um fjárlög sambandsins fyrir tímabilið 2007-2013.
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is
Leiðtogar öflugustu ríkja Evrópusambandsins skiptust á hörðum ásökunum eftir að fundi þeirra í Brussel lauk á föstudagskvöld án þess að samkomulag næðist um fjárlög sambandsins fyrir tímabilið 2007-2013. Ekki tókst að finna málamiðlun í deilum um afslátt sem Bretar hafa í tvo áratugi notið af árlegum greiðslum í sameiginlega sjóði ESB en flestar aðildarþjóðirnar vilja að hann verði lagður niður. Er nú sagt fullum fetum að sambandið sé í einhverri mestu kreppu sem það hefur kynnst í nær 50 ára sögu sinni.

Bretar, sem njóta stuðnings Hollendinga og Svía, setja það skilyrði fyrir afnámi afsláttarins að gerð verði uppstokkun á fjárlögum sambandsins og dregið úr stuðningi við landbúnað sem tekur til sín um 40% af fjárlögum ESB. Sagði Tony Blair, forsætisráðherra Breta, eftir leiðtogafundinn að huga yrði að ástæðum þess að afslátturinn var veittur á sínum tíma. Bretar töldu þá óréttlátt að þeir styddu óhagkvæman landbúnað í ríkum löndum eins og Frakklandi.

Blair benti á að margfalt meira fé rynni nú úr sjóðum ESB til landbúnaðar en samanlagt til vísindarannsókna, tækniþróunar og menntamála. "Þetta er ekki skynsamleg forgangsröðun á útgjöldum Evrópu við upphaf 21. aldar," sagði Blair.

Jacques Chirac Frakklandsforseti og Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, gagnrýndu Breta hart og kenndu stífni þeirra og eigingirni um að ekki samdist. Schröder sagði að ábyrgð Breta og Hollendinga væri mikil og ESB væri nú í "einhverri verstu kreppu" í sögu sinni. Chirac fordæmdi þá stefnu Breta að reyna að halda með öllum ráðum í afsláttinn og neita að greiða "sanngjarnan" hluta af kostnaðinum sem fylgdi stækkun sambandsins til austurs.

Lúxemborg er forysturíki ESB þetta misserið. Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, sagði á föstudagskvöld að slagurinn stæði milli tveggja ólíkra framtíðarsýna í Evrópu. "Til eru þeir sem, að vísu án þess að segja það upphátt, vilja stórt markaðssvæði og ekkert annað en stórt markaðssvæði, háþróað fríverslunarsvæði, en aðrir vilja pólitíska sameiningu Evrópu."

Fréttamenn á blaðamannafundi Junckers voru margir frá sunnanverðri álfunni, Bretarnir voru á fundi Blairs sem var á sama tíma. "Er kannski best að biðja Bretland að yfirgefa sambandið?" spurði blaðamaður á ítalska blaðinu Corriera della Sera . "Verður Evrópa smám saman bandarísk hjálenda?" spurði annar blaðamaður en Juncker svaraði ekki beint þessum spurningum.

Frakkar fá í sinn hlut drjúgan hluta landbúnaðarstyrkjanna og frönsk blöð sögðu Chirac hafa farið halloka á leiðtogafundinum. Blaðið France Soir líkti deilunum við stríð milli Breta og Frakka. "Þjóðir okkar hafa staðið í átökum síðastliðin 1000 ár," sagði blaðið. Le Figaro varaði Chirac við og sagði hann ekki mega standa uppi eins og hann væri vörður gamla tímans í baráttu við þann nýja.