Jon Anderson er þekktur fyrir að hafa léð framsæknu rokksveitinni Yes rödd sína.
Jon Anderson er þekktur fyrir að hafa léð framsæknu rokksveitinni Yes rödd sína.
JON Anderson, söngvari Yes, heldur tónleika í Háskólabíói sunnudaginn 16. október. Anderson flytur lög af sólóferli sínum, mörg af sígildum lögum Yes auk laga sem hann söng með Grikkjanum Vangelis.

JON Anderson, söngvari Yes, heldur tónleika í Háskólabíói sunnudaginn 16. október. Anderson flytur lög af sólóferli sínum, mörg af sígildum lögum Yes auk laga sem hann söng með Grikkjanum Vangelis. Þarna má nefna lögin "Owner Of A Lonely Heart", "Heart Of The Sunrise", "I'll Find My Way Home", "State Of Independence", "And You And I" og "Starship Trooper".

Ísland er síðasti viðkomustaðurinn sem búið er að tilkynna um á tónleikaferðalagi Anderson um Evrópu og Ísrael sem hefst í byrjun september. Tónleikaferðalagið er undir nafninu Jon Anderson SOLO, Work In Progress - Tour Of The Universe. Anderson ætlar að fylgja svipuðu sniði og hann gerði á tónleikaferð um Bandaríkin á síðasta ári. Þá sagði hann líka sögur og svaraði jafnvel nokkrum spurningum áhorfenda.

Jon Anderson (John Roy Anderson) fæddist í október 1944 í Lancashire á Englandi. Anderson hefur eina þekktustu röddina í rokkinu en hann byrjaði tónlistarferilinn á því að ganga í Warriors, sveit Tony bróður síns. Hann hætti í sveitinni árið 1967 eftir að hafa verið í henni um fimm ára skeið og starfað m.a. í Þýskalandi.

Það má segja að Yes sé langlífasta framsækna rokksveitin sem spratt upp úr frjóum jarðvegi áttunda áratugarins og jafnframt sú sem hefur notið hvað mestrar velgengni. Hljómsveitin var stofnuð árið 1968 hefur bæði lifað af mannabreytingar og kynslóðaskipti og staðist Emerson, Lake & Palmer, Genesis og King Crimson snúning.