Síðastliðinn föstudag afhjúpaði Alexander Rannikh, sendiherra Rússlands á Íslandi, minnisvarða á Ísafirði við hátíðlega athöfn að viðstöddum fulltrúa frá breska sendiráðinu og bandaríska sjóhernum, auk fulltrúa Ísafjarðarbæjar.
Síðastliðinn föstudag afhjúpaði Alexander Rannikh, sendiherra Rússlands á Íslandi, minnisvarða á Ísafirði við hátíðlega athöfn að viðstöddum fulltrúa frá breska sendiráðinu og bandaríska sjóhernum, auk fulltrúa Ísafjarðarbæjar. Minnisvarðinn er helgaður liðlega 200 sjómönnum sem fórust þegar skipalestin QP-13 lenti í tundurduflabelti undan Straumnesi þann 5. júlí árið 1942. Lestin var á leið frá Rússlandi og voru kaupskipin í henni bandarísk, bresk og rússnesk, en sigldu undir vernd breska flotans. Athöfnin á Ísafirði er ein fjölmargra sem haldnar hafa verið víða um heim undanfarið til að minnast þess að 60 ár eru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Skipalestirnar sem sigldu um Atlantshafið voru ákaflega mikilvægur hlekkur í stríðsrekstri bandamanna, en þeim mönnum sem sigldu var að sama skapi mikil hætta búin. Ekki biðu lestanna einungis kafbátar Þjóðverja heldur urðu þær einnig fyrir árásum flugvéla undan Noregi, auk þess sem náttúruöflin torvelduðu einnig för. Hættan og óttinn sem menn máttu búa við á þessum ferðum var þess eðlis, að erfitt er á friðartímum að gera sér í hugarlund hvað það var sem knúði menn áfram. Það er einna helst að mönnum hafi tekist það fyrir tilstilli skáldskaparins, eins og til að mynda breska rithöfundinum Graham Swift, sem í verki sínu Hestaskálinni lýsir m.a. líðan einnar sögupersónunnar um borð í herskipi í skipalest rétt við Ísland: "Hann hófst upp öskrandi og hvæsandi, hjúpaði framþilfarið eins og marsipan, kinnungarnir steyptust og hjuggu og svo virtist sem enn einn óvinur sem skýtur að manni fallbyssukúlum og tundurskeytum væri óþarfur, sjórinn dygði til. Eða þá að hann teygði úr sér breiður og stór og hljóður eins og tunglbjört nóttin fyrir ofan, skipalestin dreifð eins og endur á stöðuvatni, fljótandi líkkistur. Hvort var verra, sléttur eða úfinn sjór? Eða þá að maður sá hann ekki, fann bara fyrir honum, í vagginu og titringnum í stálinu. Maður gekk í flotann til að kynnast sjónum, en það eina sem maður sá var innvols skips sem vakti með manni svima og það sem maður fann í nösum sér var ekki salt sjávarloft heldur velgjuleg lykt úr iðrum skipsins, af olíu og messagumsi og síðustu afsökun kokksins og blautri ull og lambhúshettum og eter og rommi og sprengiefni og ælu, eins og maður væri þá þegar þar sem maður gæti lent á hverju augnabliki, að eilífu, í hinum miklu ólgandi innyflum sækonungsins."

Það er ekkert undarlegt að fulltrúar þessara þjóða, sem sendu fulltrúa sína til Ísafjarðar, skuli enn - 60 árum eftir að stríðinu lauk - sjá ástæðu til að koma saman og votta virðingu sína þeim sem fórnuðu lífinu í stríðinu í þágu þjóða sinna. Minnisvarðinn sýnir svo ekki verður um villst að minning alls þess fjölda sem lét lífið lifir enn, og að fórn þeirra var ekki til einskis.