3. ágúst 2005 | Aðsent efni | 429 orð | 1 mynd

Sala ríkisbankanna tókst vel

Gunnar Sveinsson
Gunnar Sveinsson
Gunnar Sveinsson fjallar um sölu bankanna: "...íslenska þjóðin græddi þó mest á sölunni eins og rekstur og útrás bankanna sannar í dag."
MIKIÐ hefur verið rætt um sölu ríkisbankanna að undanförnu, síðast af Margréti Sverrisdóttur sem talaði um bankarán og bankaræningja í því sambandi. Mér varð að orði er ég sá þessa grein, mættum við Íslendingar eiga fleiri slíka bankaræningja. Búnaðarbankinn var seldur á hæsta tilboðsverði og Landsbankinn á því verði sem talið var hagstæðast en báðar þessar sölur verða að miðast við þann tíma sem salan fór fram.

Athugum málið nokkuð nánar.

Með sölu Búnaðarbankans hefur með sameiningu hans við Kaupþing myndast einn af sterkustu bönkum Norðurlanda og er hann í örum vexti. Hann hefur skilað íslensku þjóðarbúi ómældum tekjum nú þegar og svo verður vonandi áfram, því eitt af því sem tókst við sölu bankanna er að þeir eru ennþá íslensk fyrirtæki.

Með sölu Landsbankans má segja það sama. Hann er í íslenskum höndum og er enn í mikilli útrás og stækkun og hefur þegar skilað íslensku þjóðarbúi miklum tekjum umfram það sem áður var. Og svo mun vonandi einnig verða áfram.

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt söluna og talið að ekki hafi verið staðið rétt að málum. Þeir segja að Halldór Ásgrímsson hafi verið vanhæfur vegna skyldleika og vináttu við bjóðendur til að sitja í ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar og þannig hafi hann getað haft áhrif á söluna þeim í vil.

Ríkisendurskoðun hefur rannsakað málið og telur að rétt hafi verið að málum staðið. Einnig telur ríkisendurskoðandi að Halldór hafi alls ekki verið vanhæfur til setu í nefndinni. Fjárlaganefnd Alþingis hefur tekið málið fyrir tvisvar og þar hafa andsæðingar sölunnar fengið allar þær upplýsingar sem þeir báðu um. En þetta er ekki nóg að þeirra mati.

Maður gæti haldið að Helgi Hjörvar og Lúðvík Bergsveinsson hafi fengið högg á höfuðið þegar maður les skrif þeirra og hlustar á umræður þeirra um málið. En þeir hafa reynt að klína óheiðarleikastimpli á okkur framsóknarmenn og flokkinn og það virðist vera stefna stjórnarandstöðunnar. Ingibjörg Sólrún hefur fallið í áliti vegna afskipta af málinu. Hún veit að Halldór Ásgrímsson er einn heiðarlegasti stjórnmálamaður landsins og hún veit einnig að hvorki Halldór né hún sjálf myndu hygla vinum og ættingjum viljandi á kostnað almennings.

Bankarnir voru seldir til íslenskra aðila og eru ennþá íslensk fyrirtæki. Þeir voru seldir á hæsta verði er bauðst á þeim tíma sem þeir voru seldir. Allir aðilar græddu á sölu bankanna miðað við verðlag í dag.

Hvor aðili, S-hópurinn eða Samson, græddi meira veit ég ekki en íslenska þjóðin græddi þó mest á sölunni eins og rekstur og útrás bankanna sannar í dag.

Bankamálaráðherra Valgerður Sverrisdóttir bar ábyrgð á sölunni og á hún þakkir skildar fyrir sitt framlag.

Höfundur er fv. kaupfélagsstjóri.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.