Björk Tryggvadóttir
Björk Tryggvadóttir
Björk Tryggvadóttir skrifar í tilefni brjóstagjafaviku 2005: "Kengúruaðferð er frábær tengslamyndun fyrir móður og barn í upphafi og á fyrstu ævidögum."

HÉR á landi er brjóstagjöf talin hafa farið vel af stað og hátt hlutfall mæðra er með barn á brjósti. Mikilvægt er að styðja og fræða mæðurnar alveg frá upphafi meðgöngunnar.

Áberandi er að mæður kvarti undan ömmum, vinkonum og öðrum aðstandendum sem skipta sér af brjóstagjöfinni. Algengt er að þessir aðilar reyni að koma sínum skoðunum á framfæri án þess að móðir sé sérstaklega að leita eftir upplýsingum. Upplýsingar sem geta verið rangar og ekki í takt við tímann. Getur það stuðlað að óöryggi hjá mæðrum. Brjóstagjafaráðgjafar eru sérfræðingar á sínu sviði og fylgjast stöðugt með framförum og niðurstöðum nýrra rannsókna. Ráðgjafarnir eru staðsettir víða um land og ætti að nýta þá eftir bestu getu, bæði almenningur og læknar.

Á fyrstu ævidögum barns þarfnast það tengslamyndunar móður og að fara oft á brjóst. Margir halda að það leiði til óþekktar og ofdekrunar. Vitaskuld er þessi fullyrðing röng þar sem ekki er hægt að ofdekra nýfætt barn. Þvert á móti er þessi tengslamyndun bráðnauðsynleg bæði móður og barni.

Barnalæknirinn Nils Bergmann hefur innleitt kengúruaðferð (húð við húð) fyrir fullburða barn og fyrirbura víða um heim. Skilgreinir hann að þetta sé líffræðileg og tiltæk aðferð er veitir umhyggju til allra nýfæddra barna og er einnig gagnleg fyrirburum í þrem þáttum:

1. Hún er húð við húð nærvera

2. Hún er eingöngu brjóstagjöf

3. Hún er stuðningur við móður og föður nýfædda barnsins.

Ráðleggur hann að aldrei eigi að aðskilja móður og barn sé þess kostur. Kengúruaðferð er frábær tengslamyndun fyrir móður og barn í upphafi og á fyrstu ævidögum. Við fæðingu barns þarfnast það hlýju, fæðu og verndar. Sé barn sett húð við húð móður strax eftir fæðingu heldur barn betur á sér hita, hefur stöðugri hjartslátt, er værara og nærist betur. Það nær að sjúga brjóst er það sýnir áhuga. Merkilegt er að ef barn kólnar þá hækkar hitastig móður til að hlýja barni sínu og einnig á hinn veginn ef barni er heitt.

Aðferðin hefur sýnt og sannað sig t.d. í Suður-Afríku og nú síðast í Uppsölum hefur kengúruaðferð verið beitt á fyrirbura með frábærum árangri. Þar eru börn sett húð við húð hjá mæðrum eða feðrum nánast allan sólarhringinn. Engir hitakassar eru notaðir og börn útskrifast fyrr þar sem þau nærast betur, þyngjast betur og eru stöðugri í lífsmörkum. Rannsóknir hafa sýnt að barn sem haft er húð við húð dafnar mun betur en börn sem voru í hitakassa. Þetta er andstæðan við það sem haldið var. Á ljosmodir.is má finna grein um kengúruaðferðina. Einnig er grein í tímaritinu Uppeldi, 3. tbl. 17. árg. 2004.

Brjóstagjafaráðgjafar eru starfandi víða um landið og ættu því verðandi og nýorðnar mæður að geta fengið upplýsingar um brjóstagjöf og leiðbeiningar ef upp koma vandamál tengd henni.

Þeir geta svarað flestöllum spurningum sem kunna að koma upp, frætt um bestu aðferðirnar og aðstoðað ef vandamál eru. Á ljosmodir.is er spurningum svarað af brjóstagjafaráðgjafa og þar er að finna töluvert af fræðsluefni um brjóstagjöf. Rétt fræðsla er ómetanleg bæði fyrir móður og barn.

Höfundur er ljósmóðir og formaður Félags brjóstagjafaráðgjafa á Íslandi.