Lögreglan er langt komin í undirbúningi erfðaefnisskrár til rannsóknar sakamála. Slík skrá var samþykkt á Alþingi fyrir rúmum fjórum árum og hefur svipuðum aðferðum verið beitt víða í nágrannalöndunum. Skránni verður skipt í tvennt.

Lögreglan er langt komin í undirbúningi erfðaefnisskrár til rannsóknar sakamála. Slík skrá var samþykkt á Alþingi fyrir rúmum fjórum árum og hefur svipuðum aðferðum verið beitt víða í nágrannalöndunum. Skránni verður skipt í tvennt. Þar verður annars vegar að finna svokallaða kennslaskrá, sem mun hafa að geyma upplýsingar um einstaklinga, sem dæmdir hafa verið fyrir ýmis brot, allt frá landráðum til nauðgana og morða eða sýknaðir af slíkum brotum vegna skorts á sakhæfi. Hins vegar er um að ræða sporaskrá með upplýsingum um erfðaefni, sem fundist hafa á vettvangi glæpa eða á mönnum eða hlutum, sem ætla má að tengist broti. Samkeyrsla þessara skráa getur síðan ýmist nýst til að upplýsa glæpi eða til að hreinsa tiltekna einstaklinga af grun.

Eins og fram kemur í fréttaskýringu Ragnhildar Sverrisdóttur í Morgunblaðinu í gær er meginástæðan fyrir því hversu langan tíma hefur tekið að setja upp gagnagrunninn að samningaviðræður við bandarísku alríkislögregluna, FBI, um afnot af hugbúnaði hennar hafa dregist á langinn, en nú hillir undir að hann verði að veruleika.

Öll skráning upplýsinga um einstaklinga er viðkvæmt mál og á það ekki síst við um þær upplýsingar, sem hér um ræðir. Í lögunum um erfðaefnisskrána er að mestu tekið skynsamlega á þeim atriðum, sem helst gætu orkað tvímælis. Í upprunalegu frumvarpi var til dæmis kveðið á um að lífsýnasafni mætti fela varðveislu sýnis, en breytingartillaga allsherjarnefndar um að sýnum skyldi eytt var síðan tekin inn í frumvarpið. Þar með var tekið fyrir þann möguleika að lífsýni yrðu notuð síðar í öðrum tilgangi en þau voru tekin.

Þá segir í frumvarpinu að þegar upplýsingar um einstakling hafi verið skráðar beri að tilkynna honum um skráninguna og tilgang hennar og á hann þess þá kost að andmæla.

Ákvæði um fyrningu upplýsinga í grunninum eru einnig eðlileg þótt velta megi fyrir sér hvers vegna líða megi allt að tvö ár frá andláti áður en fjarlægja þarf skráningu.

Í lögunum segir að Persónuvernd hafi heimild til að gera athugasemdir við starfrækslu skrárinnar og gera tillögur um úrbætur. Persónuvernd gerði athugasemdir við þetta atriði og vísaði til þess að í lögum um stofnunina hefði hún heimild til að knýja fram úrbætur, en ekki aðeins að koma tillögum á framfæri. Ekki var farið eftir því og er full ástæða til að spyrja hvers vegna.

Erfðaefnisskráin er í takt við þá þróun, sem orðið hefur í kringum okkur, og snýst einfaldlega um það að nýta sér þá möguleika, sem vísindin bjóða upp á við rannsókn glæpa. Þeir möguleikar aukast stöðugt og löggjafinn verður að fylgja þeim eftir vegna þess að annars á lögreglan á hættu að dragast aftur úr. Hins vegar vekur furðu að ekki skuli hafa orðið meiri umræður um þessi mál en raun ber vitni. Oft er haft á orði að siðfræðin hafi setið eftir í hinni hröðu framþróun erfðavísindanna og því er full þörf á að ræða kosti og galla hvers kyns skrásetningar af hálfu yfirvalda í þaula.