Plastendur Berglind Kristgeirsdóttir, starfsmaður Body Shop, sýnir hugsanlega sigurvegara í andasundinu.
Plastendur Berglind Kristgeirsdóttir, starfsmaður Body Shop, sýnir hugsanlega sigurvegara í andasundinu. — Morgunblaðið/ÞÖK
Reykjavík | Litlar gular endur munu heyja kappsund í Elliðaánum á laugardaginn, en þá efnir Blátt áfram, forvarnarverkefni UMFÍ gegn kynferðisofbeldi á börnum, til Andafjörs í Elliðaárdal.

Reykjavík | Litlar gular endur munu heyja kappsund í Elliðaánum á laugardaginn, en þá efnir Blátt áfram, forvarnarverkefni UMFÍ gegn kynferðisofbeldi á börnum, til Andafjörs í Elliðaárdal. Hér er um að ræða fjölskyldudag þar sem öll fjölskyldan getur komið saman, gert sér glaðan dag og fylgst með æsispennandi "Andakeppni".

Andafjör var haldið í fyrsta skipti í fyrra og heppnaðist vel í alla staði, að sögn Svövu Björnsdóttur, verkefnisstjóra verkefnisins. Stefnt er því að gera það að árvissum atburði hjá Blátt áfram.

Annað hlutverk Andafjörsins er að minna á mikilvægi þess að ræða kynferðisofbeldi við börnin okkar og í samfélaginu. Við viljum minna á okkur á fjölskylduvænan hátt og leyfa fólki að taka þátt í að breyta hvernig samfélagið hugsar um þessi mál, segir Svava.

Nú er hafin sala á litlum gulum plastöndum sem hver hefur sitt númer. Kaupandinn fær happdrættismiða með sama númeri. Á sjálfu Andafjörinu eru svo allar endurnar settar í árnar klukkan 13. Endurnar sem koma fyrstar í mark tryggja eigendum sínum verðlaun og er fyrsti vinningur ferð með Heimsferðum.

Ýmsar uppákomur

Andafjörið hefst kl. 12 á laugardaginn með því að endur verða seldar á staðnum, en sundið byrjar kl. 13. Verður öndunum hleypt af stað í vestari kvísl Elliðaáa við brúna fyrir neðan Kermóafoss eins og í fyrra. Markið verður í vaðinu yfir ána við Pizza Hut á Sprengisandi. Hægt verður að leggja bílum við Orkuveituhúsið og ganga yfir dalinn. Skilti verða sett upp á svæðinu og er fólk hvatt til að mæta tímanlega.

Endur og miðar í keppnina verða seldir í Body Shop-búðunum, Pizza Hut, Olís og hjá UMFÍ. Endurnar eru í tveimur stærðum og kosta 1.000 kr. Ýmsar uppákomur verða við Pizza Hut á Sprengisandi fyrir alla fjölskylduna. Villikettirnir, þeir Davíð Þór Jónsson og Freyr Eyjólfsson syngja, Geir Ólafsson tekur lagið og svo koma líka stelpurnar úr NYLON og skemmta. Þá verða hoppukastalar, frítt gos og fleira gaman. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu verkefnisins, www.blattafram.is.