9. september 2005 | Menningarlíf | 434 orð | 2 myndir

Ljóðskáldið er laust við sönnunarbyrði

Ásgeir Ingvarsson

Skáldið Halldóra Kristín Thoroddsen.
Skáldið Halldóra Kristín Thoroddsen. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á dögunum kom út ljóðabókin Gangandi vegfarandi eftir Halldóru Kristínu Thoroddsen. Að þessari nýju bók meðtalinni hefur Halldóra gefið út þrjár ljóðabækur og eina skáldsögu á 15 árum. "Ætli það sé nema ein saga sem höfundar geta skrifað.
Á dögunum kom út ljóðabókin Gangandi vegfarandi eftir Halldóru Kristínu Thoroddsen. Að þessari nýju bók meðtalinni hefur Halldóra gefið út þrjár ljóðabækur og eina skáldsögu á 15 árum.

"Ætli það sé nema ein saga sem höfundar geta skrifað. Það skiptir þá ekki máli hvort út komi einni bókinni fleira eða færra eftir mig," segir Halldóra glettin þegar ég spyr hana út í langa bilið milli bókanna.

Halldóra var fertug þegar hún gaf út sína fyrstu bók og orðar hún það sjálf þannig að hún hafi ekki fundið sig knúna til að gefa út bók fyrr en þá. Hún hafi fyrrum tjáð sig í öðru formi.

Halldóra flutti á sínum tíma útvarpspistla og fékkst við kennslu en starfar nú við ummönnun veikra barna. "Það má orða það svo að ég selji blíðu mína," segir Halldóra. "Það er ekki hægt að skrifa með kennslustörfum því maður er allan sólarhringinn í vinnunni, þannig séð - að spekúlera hvað maður á að láta Ellu eða Sigga gera í náminu."

Titill bókarinnar er tilvísun í eitt ljóðanna, segir Halldóra mér. "Þessi bók er um okkur frá sjónarhóli þessa vegfaranda sem er um leið einn af okkur hinum, flæktur í viðfangsefnið, svo þetta verður svolítið snúið. Hann er staddur í spurningamerkinu miðju," skeytir hún glettin aftan við. "Það eru í bókinni tilvistarspurningar. Ég veit ekki af hverju þær verða knýjandi undir sextugu," segir Halldóra Kristín og bætir við: "Ætli það sé ekki af því af maður er farinn að sjá fyrir horn."

En hvers vegna byrjaði Halldóra að skrifa ljóð á annað borð? "Hvað kemur til að maður yrkir? Það er náttúrulega tjáningarþörfin. Hún er okkur ásköpuð. Allir verða að tjá sig, og að tjá sig í ljóði er ósköp svipað annarri tjáningu, nema formið er samþjappaðra og svo þurfa rökin ekki að ganga upp nema lýrískt séð. Það má segja að maður sé frjáls undan sönnunarbyrðinni. Það er ákaflega þægilegt. Ef ég væri vísindamaður myndi ég þurfa að sanna alla tjáningu mína."

Halldóra gaf sjálf út fyrstu tvær bækur sínar. Þær voru fyrir hina lánsömu fáu, eins og hún orðar það. Mál og menning hefur síðan gefið út þær tvær síðustu. Smásagnasafninu 90 sýni úr minni mínu, sem kom út árið 2002, segir Halldóra að hafi verið vel tekið en ljóðabækur seljist á hinn bóginn ekki vel. "Ég held þó að ljóð hafi áhrif," segir Halldóra. "Jafnvel þó að bara örfáir lesi þau, þá er eins og ljóð smjúgi inn í menninguna. Svo ég held að ljóðagerð sé ekkert hallærislegri iðja en hver önnur. Það geta ekki allir verið í verslun og viðskiptum. Einhver verður að sinna framleiðsluþættinum."

asgeiri@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.