Helen Sarakinos stýrir River Alliance samtökunum sem beita sér fyrir því að fjarlægja stíflur úr ám í Wisconsin í Bandaríkjunum.
Helen Sarakinos stýrir River Alliance samtökunum sem beita sér fyrir því að fjarlægja stíflur úr ám í Wisconsin í Bandaríkjunum. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Eftir Árna Helgason arnihelgason@mbl.is KOSTNAÐUR við að fjarlægja stíflur er oft ekki tekinn inn í myndina þegar þær eru byggðar, segir Helen Sarakinos, framkvæmdastjóri River Alliance -samtakanna í Wisconsin í Bandaríkjunum.
Eftir Árna Helgason arnihelgason@mbl.is

KOSTNAÐUR við að fjarlægja stíflur er oft ekki tekinn inn í myndina þegar þær eru byggðar, segir Helen Sarakinos, framkvæmdastjóri River Alliance -samtakanna í Wisconsin í Bandaríkjunum.

Samtökin beita sér fyrir því að fjarlægja gamlar stíflur úr ám í ríkinu og var Helen stödd hér á landi á dögunum.

"Samtökin voru stofnuð fyrir þrettán árum vegna þess að það vantaði rödd til að berjast fyrir því að ákvarðanir sem snúa að ám í ríkinu, sem eru í almannaeigu í Wisconsin, yrðu teknar með almannahagsmuni í huga," segir Helen. Þegar samtökin voru stofnuð var að hennar sögn einkum tvenns konar vandi sem sneri að ám í Wisconsin, annars vegar að mengun frá iðnaði, borgum eða landnotkun fór út í árnar og hins vegar sá fjöldi af stíflum sem er í ríkinu, en alls eru um 4.000 stíflur í Wisconsin. Helen tekur þó fram að talsverðar umbætur hafi orðið varðandi mengun í ám á undanförnum árum.

Á vel við á Íslandi

"Samtökin voru stofnuð með það í huga að fá fram umræðu um þessi mál. Við lítum ekki svo á að stíflur séu í öllum tilvikum slæmar, heldur viljum við spyrja hve nauðsynlegar þær eru og hvaða áhrif þær hafa. Margar þessara spurninga eiga vel við hér á Íslandi."

Við þessi ummæli komu virkjanaframkvæmdirnar við Kárahnjúka óneitanlega upp í hugann og þegar Helen er spurð um framkvæmdirnar þar segir hún að án efa verði mjög kostnaðarsamt að fjarlægja stífluna og hreinsa svæðið eftir að líftími virkjunarinnar er á enda.

Stærsta virkjunin sem River Alliance hafa komið að því að fjarlægja er um 25 metra há, en aðalstíflan við Kárahnjúka á hins vegar að vera 193 metra há. "Það er mikið talað um kostnað þess að byggja virkjanir en ekki mikið um kostnaðinn við að fjarlægja þær seinna meir," segir Helen.

Íbúar hafa efasemdir í fyrstu

Samtökin beita sér fyrir upplýsingagjöf og umræðu en Helen segir það einnig algengt að starfsmönnum samtakanna sé boðið í heimsókn í bæi og bæjarfélög og fá fram umræðu um hvort fjarlægja eigi stíflur sem verið hafa þar lengi, jafnvel frá 19. öld. Hún segir að alla jafna séu viðbrögð íbúa við hugmyndum um að fjarlægja stíflur heldur neikvæð til að byrja með en sums staðar skipti fólk þó um skoðun.

Þegar farið er út í að fjarlægja slíkar stíflur er mjög mikilvægt að hafa íbúana á svæðinu með í ráðum í ferlinu og segir Helen að það sé ekki síst þessu samráði að þakka að árangurinn af því að fjarlægja stíflur í Wisconsin hafi verið góður. Það sé hins vegar kostnaðarsamt verkefni enda ekki nóg að rífa stíflurnar heldur þurfi að hlúa vel að umhverfinu.

Helen segir að miklir peningar hafi hins vegar verið settir í þessi verkefni í Bandaríkjunum að undanförnu og því hafi verið hægt að fjarlægja talsvert af stíflum. "Þeir peningar nýtast vel og skila sér oft alveg til baka með aukinni nýtingu á ánni, t.d. fiskveiðum," segir Helen. Alls hafa um 130 stíflur verið fjarlægðar í Wisconsin frá því á sjöunda áratugnum og þar af um helmingur á tíunda áratug síðustu aldar.

Stíflur hafa alltaf áhrif

Spurð að lokum hvort hægt sé yfir höfuð að byggja stíflu þannig að hún hafi nánast engin áhrif á ána, segir Helen að einfalt svar við þeirri spurningu sé nei. "Því verðum við að spyrja okkur í hvert skipti hvort við þurfum virkilega á þessari orku að halda. Það er ekki hægt að byggja stíflu án þess að skaða ána sem stífluð er, en við getum auðvitað ekki leyft okkur þann lúxus að gera aldrei neitt sem skaðar umhverfið. Það er því mikilvægt að velja vel þær ár sem stíflaðar eru og reyna að lágmarka áhrifin eins og hægt er," segir Helen að lokum.

www.wisconsinrivers.org