Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar í tilefni af Alþjóðlegum geðheilbrigðisdegi: "Geðræktarkassinn ætti að minna okkur á að sjálf getum við gert ýmislegt án tilkostnaðar. Hann á að minna okkur á að tíminn sem við nýtum til samveru eflir tengsl manna á milli."

GEÐRÆKTARKASSINN ætti að vera til á hverju heimili rétt eins og sjúkrakassi. Innihald kassans er einstaklingsbundið. Í kassann á að leita þegar neikvæðar hugsanir skjóta upp kollinum. Geðræktarkassinn notast líkt og sjúkrakassinn, við minniháttar áföll, rifrildi eða skammir. Hann má líka nota ef við erum undir álagi, leiðist, erum einmana eða vantar stuðning. Til þess að gefa hugmynd að innihaldi slíks kassa má nefna góða bók, tónlistardisk sem hefur jákvæð áhrif, ástarbréf, myndbandsspólu sem fær okkur til að hlæja, símanúmer hjá vini eða ættingja sem gott er að tala við, ljóð, myndir sem vekja upp jákvæðar minningar eða blað og blýant til að skrifa okkur frá neikvæðum hugsunum.

Að ná tökum á eigin hugsun er eitt af markmiðum geðræktarinnar. Að þjálfa upp hugsun má líkja við líkamsrækt. Ef þú hreyfir þig lítið og notar ekki vöðvana þá rýrna þeir smám saman, úthald og þrek dvína og að endingu treystir þú þér varla að fara úr rúminu. Það sama á við hugsun. Við getum yfirfært hreyfingarleysi á neikvæðar hugsanir. Dæmi um atriði sem hafa áhrif á hugsun eru áföll, sorg, einelti og líkamleg eða andleg samskipti þar sem farið er yfir persónuleg mörk. Neikvæðar hugsanir í langan tíma brjóta niður sjálfstraustið sem síðan hefur áhrif á geðheilsuna. Því er upplagt að byrja á því að aðstoða ungviðið eða hvern þann sem okkur þykir vænt um við að útbúa sinn eigin geðræktarkassa. Ræða svo það sem hefur áhrif á hugsun, viðbrögð við neikvæðum hugsunum og hvernig við getum skipt þeim út fyrir jákvæðar. Hugmyndin að geðræktarkassanum kom upp í tengslum við forvarnaverkefnið Geðrækt sem Lýðheilsustöðin hýsir nú.

En hvernig fæðist slík hugmynd?

Í barnæsku var mér sagt frá fjölskyldu sem lenti í hremmingum. Þetta var um 1900, fjölskyldan bjó í litlu húsi við sjóinn og pabbinn dró að fisk í soðið. Börnin voru tíu. Langt fyrir aldur fram deyr pabbinn svo mamman stendur ein uppi með tíu börn. Hún gat engan veginn alið önn fyrir þessum stóra barnahópi svo hún varð að láta frá sér átta elstu börnin. Í þá daga voru engir sjóðir né sameiginlegar tryggingar til að leita í svo hún var upp á góðsemi nærsveitarmanna komin. Sorgin við föðurmissinn var sannarlega næg en börnin misstu líka móður sína og hvert annað. Þau tvístruðust milli bóndabæja. Móðirin þurfti því að finna ráð til að hjálpa börnunum að halda voninni og útbjó lítið skrín handa hverju þeirra. Í það setti hún hluti sem voru þeim kærir og efnisbút úr flík sem hún notaði mikið. Þegar hún kvaddi þau í túnfætinum sagði hún eitthvað á þessa leið: Í hvert skipti sem ykkur líður illa og saknið okkar skulið þið fara út undir fjósvegg eða eitthvert sem þið getið verið ein og ótrufluð. Þar takið þið hlutina upp úr skríninu til að minna ykkur á góðu stundirnar sem við höfum átt þegar við vorum öll saman. Skrínið á að einnig að minna ykkur á að ég mun koma aftur og sækja ykkur. Það liðu mörg ár áður en fjölskyldan sameinaðist á ný, en það tókst.

Ég tengdist þessari fjölskyldu í gegnum pabba minn. Fjölskyldan tók hann að sér vegna þess að amma mín varð að láta hann frá sér. Ég fékk að heyra mismunandi sögur um gildi kassans og hvernig hann hjálpaði þeim að halda voninni um betri tíð. Öll systkinin urðu dugnaðarforkar, héldu góðum tengslum hvert við annað á fullorðinsárum, lifðu við góða heilsu og urðu háöldruð.

Geðorðin tíu eru orð sem minna þig á hvað þú getur gert á hverjum degi til að efla geðheilsuna. Það hentar vel þeim sem eiga auðvelt með að sjá fyrir sér orð og tengja við lífið. Kassann getur þú aftur á móti handleikið, snert og í hann getur þú sett ýmsa hluti sem höfða til mismunandi skynfæra. Efnisklútur móðurinnar var t.d. mikilvægur því þau gátu séð hann, lyktað af honum og snert og náð þannig betri tengingu við minninguna um móður sína.

Íslendingar hafa komið sér upp sjóðum til að fyrirbyggja að fólk lendi í slíkum hremmingum. Við höfum sannarlega komist langt miðað við upphaf 20. aldar og megum aldrei gleyma hvað tryggingakerfi okkar er dýrmætt þótt það sé langt frá því að vera gallalaust. Samtrygging má þó aldrei verða þannig að við missum hugvitið og sjálfsbjargargetuna því það að vera skapandi og hafa áhrif, eflir getu okkar til að rækta geðheilsuna. Í tilviki móðurinnar sem útbjó skrínin fyrir börn sín hjálpaði það ferli henni jafnframt að sinna eigin geðheilsu.

Geðræktarkassinn ætti að minna okkur á að sjálf getum við gert ýmislegt án tilkostnaðar. Hann á að minna okkur á að tíminn sem við nýtum til samveru eflir tengsl manna á milli. Því vil ég benda á að gildi kassans verður miklu meira ef þið gefið ykkur tíma með þeim sem á að njóta hans. Getur nútímamanneskjan snúið til baka, gefið hluti sem kosta ekkert og varið meiri tíma með þeim sem eru henni kærir? Lýðheilsustöðin ætlar að markaðssetja geðræktarkassann sem jólagjöfina í ár, svo það er tímabært að hver og einn geri upp hug sinn um það hver fær geðræktarkassann frá þér næstu jól.

Höfundur er forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LSH og lektor við HA.