VOVKA Stefán Ashkenazy og Vassilis Tsabropoulos leika rússneska tónlist fyrir tvö píanó í Tíbrárröð Salarins í dag kl. 16. Salurinn í Kópavogi státar af því að eiga tvo konsertflygla af bestu gerð og munu þessir tveir píanistar taka þá til kostanna.
Vovka Stefán lék fyrst á Tíbrártónleikum 1. nóvember 2002 og kemur nú öðru sinni og með honum margverðlaunaður grískur píanóleikari, Vassilis Tsabropoulos. Á efnisskránni eru fjögur verk rússneskra öndvegistónskálda. Fantasía Scriabins er hugljúf tónsmíð, samin snemma á ferli hans. Svíta Rachmaninoffs op. 17 er líka verk ungs manns, en dansarnir op. 45 hans síðasta stórvirki. Vorblót Stravinskys olli uppþotum og ókyrrð þegar það var frumflutt í París 1913. Sinfónísku dansarnir og Vorblótið eru hvorutveggja stór hljómsveitarverk, en njóta sín líka í þeim búningi sem höfundar þeirra gerðu fyrir tvö píanó.