Margföldunaráhrif Helga Kristjánsdóttir segir að fjárfesting í orkufrekum iðnaði verði fyrir jákvæðum áhrifum af magni fjárfestingar í öðrum greinum.
Margföldunaráhrif Helga Kristjánsdóttir segir að fjárfesting í orkufrekum iðnaði verði fyrir jákvæðum áhrifum af magni fjárfestingar í öðrum greinum. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Dr. Helga Kristjánsdóttir

Dr. Helga Kristjánsdóttir hélt nýverið málstofu um nýja rannsókn sem hún vinnur að og miðar að því að greina beina erlenda fjárfestingu á Íslandi, til að varpa ljósi á fastan kostnað sem fjölþjóðafyrirtæki standa frammi fyrir, og áhrif hans á heildarflæði fjárfestingar. Grétar Júníus Guðmundsson ræddi við Helgu um rannsókn hennar og margt fleira.

Innan alþjóðahagfræðinnar hefur verið áhugi á milliríkjaviðskiptum og beinni erlendri fjárfestingu á undanförnum árum, að sögn Helgu Kristjánsdóttur. Hún segir að hagfræðingar hafi í auknum mæli viljað rannsaka hvernig þessir tveir þættir spili, þ.e. hvenær sé hagkvæmt að ráðast í beina erlenda fjárfestingu, og hvenær sé hagkvæmara að stunda milliríkjaviðskipti.

"Dæmi um samspil beinnar erlendrar fjárfestingar og milliríkjaviðskipta varð til dæmis áberandi á þeim tíma sem japönsk bílafyrirtæki fóru að sækja í sig veðrið í Bandaríkjunum," segir Helga. "Þá stóðu þessi fyrirtæki frammi fyrir því að þurfa að gera upp við sig hvort hagkvæmara væri að standa straum af kostnaði við að flytja bíla frá Japan til Bandaríkjanna, greiða innflutningstolla í Bandaríkjunum o.s.frv. eða að ráðast í beina erlenda fjárfestingu í Bandaríkjunum með því að reisa staðbundnar bílaverksmiðjur og komast þar með hjá háum flutningskostnaði og tollamúrum, en þurfa þá í staðinn að laga sig að öðrum þáttum, s.s. hærri launakostnaði.

NAFTA og Evrópusambandið (EES) eru þær viðskiptablokkir sem okkur er líklega helst tamt að tala um í þessu sambandi. Það hefur verið lagt mikið í rannsóknir af þessu tagi innan NAFTA og Evrópusambandsins á undanförnum árum, enda full ástæða til. Hugsum okkur fjölþjóðafyrirtæki sem vill komast á markað í Evrópu með vörur sínar. Hvort er þá hagkvæmara fyrir þetta fyrirtæki að flytja vöruna frá upprunalandi á Evrópumarkað, eða opna verksmiðju í Evrópu og framleiða vöruna þar? Þetta veltur á ýmsu, t.d. vinnuaflskostnaði og hve mikið sparast í flutningskostnaði og tollum.

Bein erlend fjárfesting kemur til þegar um ráðandi eignarhlut er að ræða og er almennt miðað við 10% hlut í því sambandi. Í tilviki Íslands hefur helst borið á beinni erlendri fjárfestingu í orkufrekum iðnaði, í formi svokallaðrar "Greenfield investment", þar sem erlend fyrirtæki hafa ráðist í fjárfestingu frá grunni. Til mótvægis við "Greenfield investment" er svo aftur talað um "Brownfield investment", og er þá átt við kaup á hlut í fyrirtæki þar sem rekstur er þegar hafinn. Þetta seinna tilvik á því betur við um beina erlenda fjárfestingu íslenskra fyrirtækja erlendis, s.s. fjárfestingar Baugs og viðskiptabankanna. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur mælt með öðrum aðferðum við mælingu "Brownfield investment", þar sem ekki er talið henta að nota bein gögn yfir fjárfestingu."

Helga segir að helstu niðurstöður rannsóknar hennar lúti að því að greina hvað knýr erlenda fjárfesta til að leggja í beina erlenda fjárfestingu í orkufrekum iðnaði á Íslandi, þegar tillit er tekið til viðskiptakostnaðar, orkuverðs, vinnuafls og fleiri þátta. Jafnframt sé leitast við að skýra muninn á föstum kostnaði og breytilegum. "Þá mælum við að fjárfesting í orkufrekum iðnaði verði fyrir jákvæðum áhrifum af magni fjárfestingar í öðrum greinum, þ.e. við greinum ákveðin margföldunaráhrif í því sambandi."

Óvenjugóð gögn

Lega Íslands sem eyríkis á milli Evrópu og Bandaríkjanna og smæð hagkerfisins gerir hagfræðingum kleift að skoða sértilvik af ýmsum kenningum sem viðteknar eru á sviði milliríkjaviðskipta og beinnar erlendrar fjárfestingar, að sögn Helgu. Hún segir að Ísland búi yfir óvenjugóðum gögnum á þessu sviði, og því hafi legið beinast við að greina Ísland í doktorsritgerð hennar í hagfræði, sem hún varði í júní 2004.

Doktorsritgerð Helgu er að meginhluta tvíþætt. Fyrri hlutinn lýtur að greiningu milliríkjaviðskipta og sá seinni að greiningu beinnar erlendrar fjárfestingar. Ritgerðin samanstendur af fjórum sjálfstæðum rannsóknum á þessu sviði. Helga kennir nú tölfræði og hagfræði við Háskóla Íslands, en er samhliða því að vinna að framhaldsrannsókn með fyrrverandi leiðbeinanda sínum, Ronald Davies, við Oregon-háskóla.

Þekkingin skiptir miklu máli

Helga gerði grein fyrir rannsóknum sínum á beinum erlendum fjárfestingum og föstum kostnaði í málstofu á vegum viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands fyrir nokkru.

"Grunnur þess erindis sem ég kynnti á málstofunni byggist á verkefninu með Ronald Davies," segir Helga. "Þar erum við meðal annars að skoða hvernig skýra megi hlut fasts kostnaðar í beinni erlendri fjárfestingu í orkufrekum iðnaði, en ljóst er að slíkur kostnaður skiptir miklu máli í tilviki orkufreks iðnaðar, sem ég hef verið að greina sérstaklega.

Við tvinnum saman svokallað þyngdaraflslíkan og þekkingarlíkan, þar sem m.a. er tekið tillit til stærðar upprunalanda fjárfestingar, þekkingarstigs vinnuafls, raforkuverðs, olíuverðs, fjarlægðar, mengunar og fleiri þátta. Við erum enn að vinna að rannsókninni."

Helga segir að þekking á þeim þáttum sem áhrif hafa í utanríkisverslun skipti miklu máli fyrir Ísland. "Við verðum að þekkja bæði styrkleika okkar og veikleika, og þekkja hugarheim annarra þjóða til að geta haft markvissa stefnumörkun á sviði milliríkjaviðskipta og fjárfestingar," segir hún.

Lífssýn, reynsla og nám

Í doktorsritgerð sinni fékkst Helga við alþjóðahagfræði. Hún var spurð hvernig þetta hafi allt komið til. "Ég hef alltaf haft áhuga á alþjóðamálum og meðal annars átt sæti í stjórn Varðbergs, félags áhugamanna um vestræna samvinnu," segir hún.

"Eftir BS-próf árið 1992 fór ég í MBA-nám til Boston í Bandaríkjunum 1993 og lauk því 1995. Það var mjög gagnlegt, m.a. að skipta alveg um umhverfi og takast á við námið á ensku, þá var einnig mjög gagnlegt að læra þætti eins og stjórnun og prógrammið hafði sérstaka áherslu á samskipti, sem Bandaríkjamenn eru sérfræðingar í.

Að þessu námi loknu vann ég í fjögur ár en ákvað svo að breyta til og fara til Evrópu. Að þessu sinni fór ég til Leuven í Belgíu, skammt frá Brussel. Það er hægt að læra margt á því að vera miðsvæðis í Evrópu eins og í Brussel, þar sem fólk safnast saman úr allri Evrópu. Í Leuven eru t.d. Sókrates- og Erasmus-prógrömmin upprunnin. Ég var í eins árs masterprógrammi sem byrjaði 1999 og lauk 2000."

Helga segir að eftir að hún lauk marstersnáminu hafi hún ákveðið að tengja lífssýn sína, reynslu og nám saman og hafi þá hafið doktorsnám.

"Í grunnnáminu var BS-ritgerðin mín um raforkumarkaðinn, eiginleika hans og hugsanlega uppskiptingu markaðarins í þrennt. Í MBA-náminu fjölluðum við mikið um það hvernig fjölþjóðafyrirtæki þurfa að bera sig að til að ná árangri í viðskiptum, en einn af kennurunum hafði flutt hluta starfseminnar frá Boston til Írlands og talaði mikið um hvernig hugsunin væri í því.

Þá gaf dvölin í Belgíu mér meðal annars kost á að skilja hugarheim Evrópubúa á meginlandinu betur, og þá sérstaklega muninn á hugarheimi Bandaríkjamanna og íbúa meginlands Evrópu, í samanburði við Ísland, okkar hugarheimur er þarna mitt í milli að mínu mati.

Síðan hlaut ég rannsóknarstyrk til að dvelja við Kaupmannahafnarháskóla í tvö og hálft ár í doktorsnámi mínu, sem var mér mikils virði, og þá komst ég eiginlega að þeirri niðurstöðu að auðvitað eigum við mest sameiginlegt með Norðurlöndunum og tel að við eigum að efla það samstarf."

Í mastersnámi sínu í Belgíu rannsakaði Helga utanríkisverslun og þá meðal annars hvort viðskipti hefðu þróast öðruvísi á Íslandi ef markaðsaðstæður hefðu þróast með svipuðum hætti hér og hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Í því studdist hún m.a. við sambærilega athugun og gerð hafði verið fyrir Eystrarsaltslöndin í samanburði við Norðurlöndin.

"Með þennan grunn langaði mig að tengja Ísland við Evrópu og Bandaríkin í doktorsritgerð minni, og hugsa jafnframt út frá viðskiptalegu samhengi þar sem meðal annars væri tekið tillit til aðildar viðskiptalandanna að ESB og fleiri þátta," segir Helga.

Með fjórar rannsóknir í gangi

HELGA Kristjánsdóttir segist hafa áætlanir uppi um að vinna að þremur sjálfstæðum rannsóknum með erlendum rannsóknaraðilum, til viðbótar við þá rannsókn sem hún vinnur nú þegar að, þar sem meginviðfangsefnið er áfram á sviði milliríkjaviðskipta og beinnar erlendrar fjárfestingar. Þessar fjórar fyrirliggjandi rannsóknir eru því eftirfarandi:

* Samstarfsverkefni með Ronald Davies við Oregon-háskóla, þar sem leitast er við að skýra betur en áður þátt fasts kostnaðar við tilkomu beinnar erlendrar fjárfestingar, með sérstakri áherslu á orkufrekan iðnað á Íslandi.

* Samstarfsverkefni með Deliu Ionascu við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, sem miðar að því varpa ljósi á áhrif ESB-aðildar á framleiðniáhrif beinnar erlendrar fjárfestingar.

* Samstarfsverkefni með Isabel Vansteenkiste við Evrópubankann, ECB, þar sem ætlunin er að leggja mat á að hvaða leyti bein erlend fjárfesting kemur í staðinn fyrir milliríkjaviðskipti.

* Samstarfsverkefni með Agnieszku Skuratowicz hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem miðar að því að greina viðskipti Evrópusambandsins við aðildarlönd ESB, sem og lönd sem standa utan sambandsins.

gretar@mbl.is