[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Forsetatíð Kristjáns Eldjárns einkenndist af miklum umbrotum í íslenzkum stjórnmálum.

Forsetatíð Kristjáns Eldjárns einkenndist af miklum umbrotum í íslenzkum stjórnmálum. Fyrstu 15 ár lýðveldisins höfðu einkennzt af mikilli ólgu, sem markaðist af deilum um utanríkismál og miklum og hörðum átökum á vinnumarkaði, sem þá voru nánast órjúfanlegur partur af stjórnmálabaráttunni. Svo kom stöðugleiki í 12 ár með Viðreisnarstjórninni en aftur tími mikilla átaka og óeiningar, sem segja má að hafi staðið samfellt í 20 ár frá 1971 til 1991. Nú hefur ríkt pólitískur stöðugleiki í 14 ár og yfirgnæfandi líkur á að svo verði til loka þessa kjörtímabils. En hvað gerist svo? Segir sagan okkur, að í kjölfar stöðugleika koma óeining og sundrung?

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur hefur skrifað fróðlega bók um stjórnarmyndanir, stjórnarslit og stöðu forseta Íslands í forsetatíð Kristjáns Eldjárns og eru aðalheimildir hans einkagögn úr fórum forsetans. Þótt mikið hafi verið skrifað um þessi mál er engu að síður verðmætt að kynnast því, hvernig þau hafa horft við forseta Íslands á þeim tíma. Að sumu leyti má lesa út úr þessum gögnum, að Kristján Eldjárn hafi upplifað stöðu sína og hlutverk í stjórnmálaátökum þessara ára á þann veg, að hann hafi haft meiri áhrif á þróun mála við stjórnarmyndanir en við blasti utan frá séð. Er það raunsætt mat hjá Kristjáni heitnum Eldjárn? Tæplega. Þegar horft er yfir tímabilið frá lýðveldisstofnun er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu, að aðeins einu sinni á þessum árum hafi forseti Íslands haft úrslitaáhrif á þróun íslenzkra stjórnmála og að það hafi verið Ásgeir Ásgeirsson í desember 1958. Að öðru leyti hafi forsetar gegnt hlutverki milligöngumanna, sem stjórnmálamenn hlutu að tala við stöðu þeirra vegna í stjórnskipun landsins en ekki að þeir hafi verið raunverulegir gerendur nema í þetta eina skipti.

Með þessu er ekki sagt að skilja megi dagbókarskrif Kristjáns Eldjárns á þann veg, að hann geri beinlínis meira úr sínum hlut en efni standa til en hins vegar má halda því fram, að hann komist nálægt því.

Það er erfitt fyrir menn að meta sjálfa sig og eigin stöðu. Það á áreiðanlega við um flesta þá, sem koma nálægt stjórnmálum. Það er líka svo, að á þeim tíma, sem tiltekið samtal fer fram, finnst þeim, sem taka þátt í því það skipta miklu máli um tiltekna atburðarás. Þegar horft er til baka kemur oft í ljós, að það sem einhverjum fannst skipta miklu máli, þegar það gerðist reynist hjóm eitt, þegar horft er til þess nokkrum áratugum síðar.

Og vel má vera, að hefði Kristján Eldjárn sjálfur setið yfir dagbókum sínum og öðrum gögnum löngu síðar hefði hann metið þau með allt öðrum hætti en hann gerði í miðri atburðarásinni.

Athugasemd, sem núverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sendi Morgunblaðinu til birtingar fyrir nokkrum dögum vegna skrifa í Staksteinum bendir t.d. til þess, að forsetinn telji í raun og veru, að samskipti við dvergríkið Mónakó skipti okkur Íslendinga máli og að samskipti við Albert fursta í Mónakó hafi einhverja þýðingu fyrir okkur. Þetta er bersýnilega mat forsetans í hringiðu hans daglega lífs í embætti. En skyldi hann meta það svo eftir svo sem einn og hálfan áratug? Það skal dregið mjög í efa.

Það er hins vegar alltaf jafn fróðlegt að kynnast því, hvernig ungt fólk, sem ekki upplifði atburðina en er að fjalla um þá út frá skriflegum gögnum og öðrum heimildum sér og skilur þessa sögu. Hver er sannleikurinn? Er einhver "sannleikur" til í þessum efnum? Hver er t.d. "sannleikurinn" í hinni óskráðu sögu um samskipti Vigdísar Finnbogadóttur, þáverandi forseta, Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra og Jóns Baldvins Hannibalssonar, þáverandi utanríkisráðherra, vegna EES-samningsins? Þegar þar að kemur munu þau öll segja "satt" um þau samskipti en upplifa þau hvert með sínum hætti.

Að þessu vandamáli sagnfræðinga víkur Guðni Th. Jóhannesson í inngangi bókar sinnar, þegar hann segir:

"Endanlegan sannleika er alls ekki að finna á þessum síðum. Þær eru uppfullar af ýmsum óumdeilanlegum staðreyndum en frá öðrum staðreyndum er ekki sagt af því, að þessum eina höfundi fundust heimildir um þær ekki jafn merkilegar."

Höfundur hefur greinilega velt því mjög fyrir sér, hvort það sé í lagi að nota gögn Kristjáns Eldjárns og birta úr þeim opinberlega. Þar sé sagt frá einkasamtölum, sem menn ætluðust til að yrðu einkasamtöl en ekki til frásagnar löngu síðar. Hann segir:

"Sú spurning gæti hugsanlega vaknað hvort eðlilegt sé að þessar heimildir komi nú fyrir almennings sjónir. Haft hefur verið á orði við mig, að birting frásagna af samtölum um stjórnarmyndanir á Bessastöðum og skrifstofu forseta kunni að "gjörbreyta samskiptum forseta og stjórnmálamanna við þessar viðkvæmu aðstæður".

Auðvitað er þetta rétt að vissu marki. En allt er þetta spurning um hvernig með er farið. Eitt er að upplýsa um eitthvað, sem skiptir máli í sögulegu samhengi. Annað að hafa eftir ummæli um menn og málefni, sem engu skipta í hinni stóru mynd.

Stjórnarmyndunin 1971

Í bók Guðna Th. Jóhannessonar er mikinn fróðleik að finna um stjórnarmyndunina 1971 en í sjálfu sér engin ný tíðindi.

Grundvallaratriði í þeirri stjórnarmyndun var auðvitað, að eftir samfellt 12 ára stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks hafði myndast möguleiki til myndunar vinstri stjórnar eftir þingkosningarnar 1971. Líkurnar á því, að andstöðuflokkar viðreisnarinnar mundu gera nánast allt, sem þyrfti að gera til þess að mynda ríkisstjórn sín í milli voru yfirgnæfandi. Enda varð það niðurstaðan. Ólafur Jóhannesson var tilbúinn til þess að skrifa undir yfirlýsingu um að varnarliðið færi til þess að ná stjórninni saman. Stærsta vandamálið við myndun þeirrar ríkisstjórnar voru Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson. Þeir vildu ekki fara inn í vinstri stjórn. Þeir höfðu unnið kosningasigur. En þótt þeir vildu ekki fara inn í slíka stjórn var það bakland þeirra í nýjum flokki, sem neyddi þá til þess.

Þeir leituðu leiða til þess að komast út úr stjórninni. Guðni Th. Jóhannesson segir:

"Snemma í desember þetta ár hringdi Jóhannes Elíasson í Kristján Eldjárn og kvaðst "hræddur um líf stjórnarinnar". Sá ótti var á rökum reistur. Um þetta leyti mun Hannibal hafa komizt að leynilegu samkomulagi við Gylfa Þ. Gíslason og Jóhann Hafstein um að hann mundi krefjast svo mikillar gengisfellingar, að Alþýðubandalaginu yrði ómögulegt að fallast á hana. Stjórnin mundi springa og minnihlutastjórn Samtakanna og Framsóknar sitja fram að kosningum sumarið 1973."

Þessi litla frásögn er dæmi um það, að mál geta horft við með mismunandi hætti eftir því hver segir frá. Í desembermánuði 1972 var haldinn fundur á heimili Geirs heitins Hallgrímssonar við Dyngjuveg. Þar voru m.a. saman komnir auk húsráðanda, þeir Jóhann Hafstein, Ingólfur Jónsson og Magnús Jónsson frá Mel. Þeim var skýrt frá ráðagerðum Hannibals um að leggja til í ríkisstjórn að gengið yrði fellt og að hann gengi út frá því sem vísu, að Alþýðubandalagið mundi aldrei fallast á þá tillögu og þar með mundi ríkisstjórnin springa. Forystumenn Sjálfstæðisflokks voru spurðir, hvort þeir í slíku tilviki mundu styðja minnihlutastjórn undir forsæti Hannibals. Þeir tóku þessum hugmyndum með varúð en féllust á að þau boð mættu ganga til baka að Sjálfstæðisflokkurinn mundi styðja slíka stjórn. Aldrei var talað um að Framsóknarflokkurinn ætti aðild að henni. Fremur litið svo á, að það yrði Alþýðuflokkur.

Þetta var ekki "samkomulag". Þetta voru orð, sem fóru á milli manna og var treyst á báða bóga.

Tillagan um gengisfellingu kom fram en viðbrögð Alþýðubandalagsmanna urðu önnur en Hannibal átti von á. Í stað þess að hafna þessari hugmynd samþykktu Alþýðubandalagsmenn hana. Lúðvík Jósepsson notaði aðferð, sem áður hafði verið notuð vorið 1958, þegar vinstri stjórn Hermanns Jónassonar var talin fallin vegna ágreinings um útfærslu landhelginnar þá um haustið. Þá sögðu þeir Hannibal og Lúðvík, sem sátu saman í þeirri ríkisstjórn við Alþýðuflokkinn: Við föllumst á öll ykkar skilyrði og alla ykkar fyrirvara, svo fremi, að landhelgin verði færð út 1. september 1958 í 12 sjómílur.

Þá gátu Alþýðuflokksmenn ekki þæft málið lengur og ríkisstjórn Hermanns reis upp frá dauðum í bókstaflegri merkingu.

Í desember 1972 kom Lúðvík Hannibal og félögum hans í opna skjöldu og samþykkti gengisfellinguna, sem átti að sprengja stjórnina.

Söguleg uppljóstrun

Í bók Guðna Th. Jóhannessonar er ítarleg umfjöllun um stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens í ársbyrjun 1980. Tæpast er hægt að segja að þar komi margt nýtt fram utan eitt atriði, sem verður að flokkast undir sögulega uppljóstrun.

Menn hafa lengi velt því fyrir sér, hvenær Gunnar Thoroddsen hafi farið að undirbúa þá stjórnarmyndun. Fyrir nokkrum árum var um það fjallað hér á þessum vettvangi og rök leidd að því, að þennan möguleika hafi Gunnar rætt við trúnaðarvini sína fyrir kosningarnar í byrjun desember 1979, þ.e. í nóvember það ár. Stjórnarmyndun Gunnars lítur auðvitað allt öðru vísi út í því ljósi. Þá var um að ræða markvissa tilraun hans til þess að koma í veg fyrir, að formaður Sjálfstæðisflokksins hefðu nokkra möguleika á að mynda ríkisstjórn. Hafi andstæðingar Sjálfstæðisflokksins haft hugmyndir um að hægt væri að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn blasir auðvitað við að þeir hefðu gert allt, sem þeir gátu til þess að svo gæti orðið.

Guðni Th. Jóhannesson birtir hins vegar frásögn af samtali sem þáverandi forseti átti við Jóhannes Elíasson, bankastjóra Útvegsbankans, í júlí 1974 í aðdraganda stjórnarmyndunar þá. Þar segir:

"(Jóhannes) sagði mér...frá hreinskilnu samtali sínu við Gunnar Thor. þar sem (Gunnar) sagði að það væru ekki nema tveir möguleikar til að mynda stjórn með (Sjálfstæðisflokki) og (Framsóknarflokki) og það væri að hún yrði annaðhvort undir forsæti (Ólafs Jóhannessonar) eða sín. Vegna þess að Geir hefði ekki traust í flokknum, einkum eftir tilraun hans til stjórnarmyndunar, sem ekki hefði verið vel rekin, að því mönnum fyndist."

Hér er það upplýst, að hugmyndir Gunnars heitins Thoroddsens, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um að mynda ríkisstjórn undir sínu forsæti fram hjá formanni Sjálfstæðisflokksins hafi ekki orðið til í byrjun árs 1980 og heldur ekki í í nóvember 1979 eins og Morgunblaðið hefur talið hin síðari ár heldur sumarið 1974!

Sú skýring, að Geir Hallgrímsson hafi ekki notið trausts innan Sjálfstæðisflokksins til stjórnarmyndunar á þessum tíma er fjarstæðukennd. Geir var nýkominn út úr kosningabaráttu á þessum tíma, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði unnið einn mesta sigur sögu sinnar. Framsóknarflokkurinn var í sárum og þungt í Ólafi Jóhannessyni, formanni hans, sem lagði áherzlu á að gera Geir eins erfitt fyrir um stjórnarmyndun og hann mögulega gat. Það var einfaldlega óhugsandi að Geir gæti myndað ríkisstjórn í fyrstu umferð vegna þess, að Framsóknarmenn vildu ná Sjálfstæðisflokknum niður úr sigurvímunni áður en til þess kæmi. Það lá illa á Ólafi Jóhannessyni á þessum tíma og raunar var þungt í honum þau ár, sem hann sat í ríkisstjórn Geirs og hann reyndi hvað eftir annað að gera þáverandi forsætisráðherra eins erfitt fyrir og nokkur kostur var, sem kom mjög skýrt fram í landhelgisdeilunni 1976.

Sú röksemd Gunnars Thoroddsens í samtalinu við Jóhannes Elíasson, sem Jóhannes segir Kristjáni Eldjárn svo frá, að Geir nyti ekki trausts innan Sjálfstæðisflokksins er hreinn tilbúningur. En þessi tilvitnun sýnir, að hugmyndir Gunnars um stjórnarmyndun undir sínu forsæti hafa orðið snemma til. Og þá er hægt að skoða alla atburðarásina í Sjálfstæðisflokknum næstu árin á eftir í allt öðru ljósi.

Þetta eru merkilegustu sögulegar upplýsingar, sem fram koma í bók Guðna Th. Jóhannessonar um stjórnarmyndanir í tíð Kristjáns Eldjárns en sagnfræðingurinn ungi virðist ekki átta sig á því, kannski vegna þess, að hann hafi ekki nægilega skýra mynd af því hvers konar mál stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens í ársbyrjun 1980 er í sögu Sjálfstæðisflokksins.

Í bók Guðna Th. Jóhannessonar endurspeglast áróður andstæðinga Geirs Hallgrímssonar á þessum árum bæði innan og utan Sjálfstæðisflokks þess efnis, að hann hafi verið óöruggur og hikandi í stjórnmálaathöfnum sínum. Formaður í Sjálfstæðisflokki hefur eitt meginhlutverk og eina höfuðskyldu, sem stundum gleymist en hún er sú, að halda Sjálfstæðisflokknum saman, sem er ekki alltaf auðvelt. Eftir stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens dundu á Geir Hallgrímssyni kröfur innan Sjálfstæðisflokksins um að Gunnar og félagar hans yrðu reknir úr þingflokki sjálfstæðismanna. Geir stóð fast gegn þeim kröfum. Það er einmitt til marks um styrk hans og staðfestu, sem formanns Sjálfstæðisflokks á þessum árum, að hann var óhagganlegur í þeirri afstöðu og skilaði Sjálfstæðisflokknum sameinuðum í hendur nýjum formanni haustið 1983 eftir allt það sem á undan var gengið. Heimsókn hans til Gunnars Thoroddsens á sjötugsafmæli Gunnars undir lok árs 1980 var ógleymanleg öllum þeim, sem fylgdust með þeim dramatíska atburði og má raunar segja að reisn þeirra beggja hafi verið mikil þann dag.

Eru svona upplýsingar óþægilegar?

Það má velta því fyrir sér, hvort upplýsingar af þessu tagi séu óþægilegar fyrir þá, sem við sögu koma. Vafalaust finnst afkomendum Gunnars Thoroddsens óþægilegt að umræður skjóti upp kollinum aftur og aftur um stjórnarmyndun hans 1980. Það er skiljanlegt. En á móti kemur, að Gunnar Thoroddsen átti sér glæsilegan stjórnmálaferil, þótt umdeildur hafi verið. Þótt deilt sé um einstaka atburði sem þessa breytir það engu um stöðu Gunnars, sem eins helztu áhrifavalda í íslenzkum stjórnmálum á síðari hluta 20. aldarinnar. Stuðningur Gunnars við tengdaföður sinn í forsetakosningunum 1952 var líka umdeildur innan Sjálfstæðisflokksins en sjö árum síðar leiddi Ólafur Thors hann inn í ríkisstjórn, þegar Viðreisnin var mynduð.

Upplýsingar eins og þær sem fram koma í bók Guðna Th. Jóhannessonar eru kannski erfiðar fyrir menn, sem enn eru þátttakendur í stjórnmálum en þeir eru ekki margir af þeim, sem helzt koma við sögu í bókinni.

Þegar á heildina er litið hlýtur það að vera verðmætt að fá fram upplýsingar um það hvernig atburðarásin í þjóðfélagsmálum kom forseta Íslands á þessum tíma fyrir sjónir. En það þýðir ekki að í þeim gögnum sé að finna einhvern stóra sannleik í öllum málum heldur fyrst og fremst athyglisvert sjónarhorn manns, sem hafði tækifæri til þess að fylgjast með gangi mála í mikilli nálægð við atburðarásina.