STÖÐUG aukning hefur verið í jólaverslun undanfarin ár og Rannsóknarsetur verslunarinnar spáir því að jólaverslun hér á landi muni í ár aukast um 10,8% frá því í fyrra. Samkvæmt spánni mun hver Íslendingur að jafnaði eyða tæpum 20.
STÖÐUG aukning hefur verið í jólaverslun undanfarin ár og Rannsóknarsetur verslunarinnar spáir því að jólaverslun hér á landi muni í ár aukast um 10,8% frá því í fyrra. Samkvæmt spánni mun hver Íslendingur að jafnaði eyða tæpum 20.000 krónum aukalega vegna jólanna í ár og virðist sem horfur í sölu raftækja, fatnaðar, húsgagna og gjafavöru séu bestar.

Í Skandinavíu er gert ráð fyrir minni aukningu og gert er ráð fyrir að jólaverslun muni að meðaltali dragast saman í Evrópu. 58% breskra verslana búast til dæmis við minni sölu fyrir þessi jól en í fyrra vegna lækkaðs kaupmáttar og aukins atvinnuleysis. Útlit er fyrir að einnig verði slegið met í netverslun fyrir þessi jól en aðallega er um að ræða erlenda netverslun sem er sérstaklega hagstæð vegna stöðu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Áætlað er að um fjórðungur hefðbundinna jólainnkaupa í Evrópu fari fram með netverslun í ár. Íslendingar fara líka mikið til útlanda fyrir jólin, ekki síst til Bandaríkjanna, en þessi beinu viðskipti einstaklinga við erlendar verslanir koma ekki í ljós hér nema í gegnum greiðslukortafyrirtækin. Aukning í veltu greiðslukorta á jólum milli áranna 2003 og 2004 var 17,5%.