Eftir Andra Karl andri@mbl.is LÖGREGLUNNI á Akureyri barst í gær niðurstaða úr þvagprufu 12 ára drengs frá föður hans þar sem í ljós kom að drengurinn hafði neytt kannabisefna og bensodiazepin, sem er svefn- og taugalyf.
Eftir Andra Karl andri@mbl.is
LÖGREGLUNNI á Akureyri barst í gær niðurstaða úr þvagprufu 12 ára drengs frá föður hans þar sem í ljós kom að drengurinn hafði neytt kannabisefna og bensodiazepin, sem er svefn- og taugalyf. Daníel Snorrason lögreglufulltrúi segir föðurinn hafa grunað son sinn um eitthvað misjafnt, taldi hann vera í slæmum félagsskap og fékk hann því til að taka þvagprufu. Því miður staðfesti niðurstaða þvagprufunnar áhyggjur föðurins. Máli drengsins verður komið áfram til barnaverndarnefndar og skólayfirvalda.

Daníel segir þetta tvímælalaust vera þann yngsta sem hann hafi heyrt um að væri í fíkniefnum en svo virðist sem aldur neytenda sé að lækka. "Forvarnarfulltrúinn okkar, sem er í nánum tengslum við skóla og foreldra, hefur verið að heyra orðróm þess efnis að fíkniefnaneyslan sé að færast niður í þennan aldurshóp, fjórtán og jafnvel þrettán ára," segir Daníel en lögreglan á Akureyri lagði hald á 1,5 kíló af fíkniefnum um liðna helgi í tveimur aðskildum málum.

"Fyrir utan það fékk ég upplýsingar um að það væru sölumenn að bjóða þetta ungum börnum efni og jafnvel að bjóða það frítt til að byrja með," segir Daníel og lýsir yfir þungum áhyggjum sínum af þessari þróun. Hann segir þessar fréttir gefa tilefni til þess að höndum verði tekið saman og barist gegn þessari þróun. "Þetta er nokkuð sem ekki er hægt að sætta sig við. Foreldrar sérstaklega verða að vera á varðbergi og fylgjast með börnum sínum. Ef grunur vaknar er hægt að leita til lögreglunnar, skólayfirvalda eða barnaverndarnefndar," segir Daníel og bætir við að einnig sé hægt að kaupa þvagprufur í lyfjaverslunum.