[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Örn Jónsson fjallar um áhrif flats skatts: "Flatur skattur mun enn auka á launamun."
EITT AF því áhugaverðasta sem kom út úr seinasta landsfundi sjálfstæðismanna var jákvætt viðhorf flokksins til flats tekjuskatts, en flokkurinn vill þegar í stað hefja starf sem miðar að því að slíkur skattur geti verið tekinn upp.

Fróðlegt er að skoða áhrif slíks skatts á launamun því flatur skattur hefur engin tekjujöfnunaráhrif eins og núverandi skattur. Launamunur hefur nefnilega vaxið gífurlega hérlendis á seinustu 10 árum og hafa t.d. ráðstöfunartekjur launahærri helmings hjóna hækkað u.þ.b. helmingi meira en hjá launalægri helmingnum. Ísland hefur þannig farið frá því að vera með einn minnsta launamun í heimi í að vera með töluvert meiri launamun en öll hin Norðurlöndin.

Flatur skattur mun enn auka á launamun. Ef fram heldur sem horfir og skatturinn verður tekinn upp þá verður launamunur á næsta ári aðeins hærri í Bandaríkjunum meðal velmegandi þjóða. Þá verður Gini-stuðull fyrir ráðstöfunartekjur hjóna (mælikvarði launamunar) kominn í 36 og aðeins Bandaríkin með hærra gildi af þeim 20 þjóðum sem búa við bestu lífskjör í heiminum samkvæmt nýlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna.

Því hefur nefnilega ekki verið haldið nægjanlega vel til haga að launamunur er minnstur meðal velmegandi þjóða. Á því er þó ein undantekning sem eru vaxtarþjóðir Asíu, en þar er launamunurinn enn minni. Það eru því sterkar líkur á því að minni launamunur bæti lífskjör en aukinn launamunur skerði lífskjör. Aukinn launamunur hérlendis ætti því að vera áhyggjuefni fyrir þá sem vilja bæta lífskjör þjóðarinnar.

Áhrifin af hinum aukna launamun virðast einnig vera að koma fram í dagsljósið núna, t.d. í stefnu sjálfstæðismanna til menntamála. Þeir sem hafa meira milli handanna sætta sig ekki lengur við almenna skóla og eru því einka-grunnskólar eitt aðal baráttumál sjálfstæðismanna í borginni (sem eflaust munu innheimta skólagjöld). Einnig vill flokkurinn taka upp skólagjöld í háskólum. Þetta mun að öðru jöfnu færa okkur bandarískt ástand í menntamálum, þar sem börn auðugri foreldra eru 6 sinnum líklegri en börn þeirra fátækari til að ljúka háskólanámi. Þannig verða línurnar milli sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna varla skýrari, en við viljum að aðgangur að menntun sé algerlega óháður fjárhag foreldra. Enda felst hrein sóun á mannauði og lífskjaraskerðing í því að veita fátækum börnum minni tækifæri til menntunar en þeim ríkari.

Eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður varð það hlutverk Hagstofunnar að upplýsa landsmenn um þróun launamunar. Það gera allar aðrar hagstofur í löndunum í kringum okkur en hérlendis hafa menn ekki séð neina ástæðu til þess. Það er óskiljanlegt af hverju menn þar á bæ vilja halda leyndri þeirri byltingu sem er að eiga sér stað í tekjudreifingu landsmanna. Það hefur leitt til þess að enn er til fólk sem trúir því ekki að gífurleg aukning á launamun hafi átt sér stað og enn eru til stjórnmálamenn sem halda fram hinu gagnstæða.

Höfundur er verkfræðingur.

Leiðrétting 8. desember - Útskýringartexta vantaði

Guðmundur Örn Jónsson skrifaði grein í Morgunblaðið sl. mánudag sem heitir "Flatir skattar og launamunur". Línurit með greininni birtist aftur með útskýringartexta.

Morgunblaðið biðst velvirðingar á mistökunum.

Útskýringartexti:
Launamunur á Íslandi, Noregi og USA og framreikningur með flötum tekjuskatti (Gini-stuðull fyrir ráðstöfunartekjur hjona).