Þorgerður K. Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir menntamálaráðherra. — Morgunblaðið/Árni Torfason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Örnu Schram arna@mbl.is RÍKISÚTVARPIÐ verður hlutafélagavætt, samkvæmt nýju frumvarpi menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið sem þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu fyrir sitt leyti í gær. Kristinn H.
Eftir Örnu Schram arna@mbl.is
RÍKISÚTVARPIÐ verður hlutafélagavætt, samkvæmt nýju frumvarpi menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið sem þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu fyrir sitt leyti í gær. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, samþykkti þó frumvarpið með fyrirvara. Frumvarpið var einnig samþykkt í ríkisstjórn á föstudag.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir stefnir að því að mæla fyrir frumvarpinu á Alþingi fyrir jól, svo það komist til nefndar. Hún segir að tilgangurinn með hlutafélagavæðingunni sé sá að auka rekstrarhagræði, skilvirkni og snerpu Ríkisútvarpsins. Hún segir sömuleiðis aðspurð að það sé algjörlega skýrt af hálfu beggja stjórnarflokkanna að ekki eigi að selja Ríkisútvarpið.

Í frumvarpinu er áfram gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið verði fjármagnað með nefskatti í stað afnotagjalda, eins og í fyrra frumvarpi ráðherra um Ríkisútvarpið. Gert er ráð fyrir því að sá skattur verði innheimtur frá og með 1. janúar 2008. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að útvarpsráð verði lagt niður í núverandi mynd, og að í stað þess komi stjórn Ríkisútvarpsins, sem kjörin verður á Alþingi. Stjórnin mun m.a. ráða útvarpsstjóra, en aðrar mannaráðningar verða í höndum útvarpsstjóra. Hann verður einnig, skv. frumvarpinu, æðsti yfirmaður dagskrárgerðar.

Ráðherra miðar við að frumvarpið verði afgreitt á vorþingi og að ákvæði þessi öðlist strax gildi, nema þau sem snúa að nefskattinum og innheimtumálum.

Uppfylli allar kröfur

Þegar Þorgerður er nánar spurð hvers vegna hlutafélagavæða eigi Ríkisútvarpið segir hún: "Með því erum við fyrst og fremst að auka rekstrarhagræði, skilvirkni og snerpu innan stofnunarinnar, þannig að Ríkisútvarpið hafi tækifæri til þess að fóta sig á þessum nýja ljósvakamarkaði, sem í raun og veru hefur verið að myndast á síðustu árum." Hún segir að Ríkisútvarpið eigi um leið að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þess, þ.e. það eigi að sinna fréttaþjónustu, öryggisþjónustu og menningarhlutverki. "Ef það sinnir ekki þessum kröfum er fyrst hægt að tala um að stofnunin eigi ekki sinn grundvöll," segir hún.

Þorgerður segir aðspurð að með hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins sé ekki verið að auðvelda sölu þess. "Það er algjörlega skýrt af hálfu beggja stjórnarflokka að við munum ekki selja Ríkisútvarpið," segir hún og ítrekar að með nýju frumvarpi verði ekki auðveldara að selja eða leggja niður Ríkisútvarpið. Meirihluta Alþingis þurfi til þess, hér eftir sem hingað til. Þá bendir hún á að samhliða umræddu frumvarpi verði lagt fram á Alþingi frumvarp viðskiptaráðherra um hlutafélög í opinberri eigu. Í því er lagt til að tekin verði upp í lög um hlutafélög sérákvæði um öll hlutafélög sem eru að fullu í eigu hins opinbera.

Í frumvarpi ráðherra um Ríkisútvarpið sem lagt var fram á Alþingi sl. vor, var eins og kunnugt er, gert ráð fyrir því að stofnuninni yrði breytt í sameignarfélag. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerði hins vegar umtalsverðar athugasemdir við það fyrirkomulag. Þær áttu því þátt í því að gerðar eru tillögur um hlutafélagaform í nýju frumvarpi.

Áfram tekjur af auglýsingum

Innt eftir því hvað annað sé frábrugðið þessu frumvarpi og því frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi sl. vor, segir Þorgerður að þrengt sé mjög á því ákvæði sem snertir rétt Ríkisútvarpsins til að taka þátt í nýrri starfsemi. Auk þess segir Þorgerður aðspurð að í nýja frumvarpinu, eins og í því gamla, sé ekki gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði. Sá möguleiki hafi sérstaklega verið ræddur í ríkisstjórn en niðurstaðan hafi verið sú að ekki væri vilji til þess. "Það er ekki vilji til þess, eins og stendur, að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði." Áfram er því gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið afli sér tekna á auglýsingamarkaði. Hún segir mörg rök hníga að þeirri niðurstöðu. Til að mynda hafi auglýsendur margítrekað að þeir vilji ekki að Ríkisútvarpið verði tekið af auglýsingamarkaði.