Alan Greenspan
Alan Greenspan — Reuters
Alan Greenspan hefur verið formaður stjórnar bandaríska seðlabankans, Federal Reserve frá árinu 1987 en nú er komið að því að hann láti af störfum.

Alan Greenspan hefur verið formaður stjórnar bandaríska seðlabankans, Federal Reserve frá árinu 1987 en nú er komið að því að hann láti af störfum. Samkvæmt nýjustu fréttum hefur hann í hyggju að stofna ráðgjafafyrirtæki þannig að hann hyggst ekki setjast í helgan stein alveg strax þrátt fyrir háan aldur.

Greenspan hefur haft mikla þýðingu fyrir bandaríska hagkerfið og þá sér í lagi atvinnumarkaðinn en hann hefur ávallt haldið í heiðri mikilvægi þess að atvinnustig sé hátt. Eftirmaður hans er frekar fylgjandi verðbólgumarkmiði sem oft vill verða til þess að stöðugleika á atvinnumarkaði sé varpað fyrir róða.

Fjallað er um arfleifð Greenspan í Vegvísi Landsbankans þar sem hann er m.a. sagður vera máttarstólpi í efnahagslífinu. Þar segir meðal annars:

"Greenspan hefur nú starfað sem seðlabankastjóri í rúmlega 18 ár og á þeim tíma hefur bandaríska hagkerfið aðeins lent í tveimur niðursveiflum. Ýmsar hindranir hafa þó legið á leið Greenspan og hefur peningastefnan þurft að takast á við marga skelli s.s. kostnaðarsaman stríðsrekstur, miklar sveiflur á verðbréfamörkuðum, afleiðingar hryðjuverkanna 11. september 2001 og viðvarandi olíukreppu. Engu að síður hefur hagvöxtur verið með besta móti síðastliðinn áratug og verðbólga bæði stöðug og lág.

Óvissa um framhaldið

Þrátt fyrir gott árferði mun þróun næstu ára hafa mikið að segja um hver endanleg skoðun á stjórnarferli Greenspan verður. Samfara vaxandi viðskiptahalla hefur skuldsetning þjóðarinnar aukist gríðarlega en jafnframt hefur eignaverð risið á miklum hraða. Hlekkinn á milli þessara stærða telur Greenspan vera auðsáhrif eignamyndunar. Með auknum eignahlut í fasteignum gefst neytendum svigrúm til frekari skuldlagningar, og hefur það aukið á einkaneysluna. Lántaka hefur að mestu verið fjármögnuð erlendis og viðskiptahalli því aukist. Hvort þetta ójafnvægi réttist af þýðlega eða steypir hagkerfinu í niðursveiflu hefur mikið að segja fyrir orðspor efnahagsstefnu seðlabankastjórans.

Virtur af báðum fylkingum

Þrátt fyrir að vera yfirlýstur repúblikani hefur Greenspan einnig notið hylli demókrata. Árið 2000 endurskipaði Bill Clinton, þáverandi forseti Bandaríkjanna, Greenspan í embætti og hrósaði honum fyrir að leyfa hagkerfinu að líða áfram en á sama tíma lágmarka líkur á skakkaföllum. Það er ljóst að erfitt verkefni er fyrir höndum hjá arftaka hans, Ben Bernanke, en hann þarf að glíma við neikvæðar afleiðingar núverandi efnahagsstefnu bandaríska seðlabankans. Það er þó ljóst, hvernig sem fer, að Greenspan verður minnst sem eins helsta áhrifavalds efnahagslífs síðustu aldar."