HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur dæmt Sigurð Frey Kristmundsson, 23 ára, í 14 1/2 árs fangelsi fyrir að hafa ráðið Braga Halldórssyni bana, auk annarra afbrota. Atvikið átti sér stað að morgni laugardagsins 20. ágúst 2005 á Hverfisgötu 58 í Reykjavík.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur dæmt Sigurð Frey Kristmundsson, 23 ára, í 14 1/2 árs fangelsi fyrir að hafa ráðið Braga Halldórssyni bana, auk annarra afbrota. Atvikið átti sér stað að morgni laugardagsins 20. ágúst 2005 á Hverfisgötu 58 í Reykjavík. Hann var einnig dæmdur til að greiða samtals tæpar 7 milljónir króna í skaðabætur og kostnað.

Sigurður stakk Braga í brjóstið með hníf, og gekk blaðið í gegnum bæði hjarta og lifur. Lögregla var kölluð til, en Bragi lést eftir aðgerð á Landspítala - háskólasjúkrahúsi skömmu eftir atlöguna. Sigurður játaði að hafa orðið Braga að bana, en neitaði því að um ásetningsverk hafi verið að ræða. Hann bar fyrir dómi að hann hafi verið "útúrdópaður og útúrruglaður og veruleikafirrtur".

Sigurður bar að hann hefði gripið hníf sem lá á eldhúsborðinu, en húsráðendur könnuðust ekki við að eiga hnífinn. Fram kemur í dómi héraðsdóms að ekki verði ráðið af gögnum málsins hvað Sigurði hafi gengið til, en ljóst að hann hafi talið sig eiga eitthvað sökótt við Braga.

Ætti sér engar málsbætur

Þá var Sigurður ákærður fyrir þjófnað og 5 brot á umferðarlögum, t.d. að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Hann játaði þau brot að fullu.

Sl. 5 ár hefur hann hlotið átta refsidóma fyrir margvísleg brot.

Dómurum þótti sýnt að Sigurður ætti sér engar málsbætur í málinu, og dæmdu hann því til 14 1/2 árs fangelsisvistar, en frá dregst sá tími sem hann hefur setið í varðhaldi frá því 20. ágúst sl. Auk þess var hann sviptur ökuréttindum í 12 mánuði.

Sigurður var einnig dæmdur til að greiða foreldrum Braga samtals tæpar 5,4 milljónir króna í skaðabætur, auk 124.500 króna í lögmannsþóknun. Við þetta bætast vextir og dráttarvextir. Að auki var hann dæmdur til að greiða 967.825 kr. í sakarkostnað og 493.020 kr. í málsvarnarlaun verjanda síns.

Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson dómsformaður, Helgi I. Jónsson dómstjóri og Ingveldur Einarsdóttir. Sigríður Elsa Kjartansdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara, flutti málið, en verjandi ákærða var Sveinn Andri Sveinsson hrl. Hagsmuna foreldra Braga gættu þær Þórdís Bjarnadóttir hdl. og Sjöfn Kristjánsdóttir hdl.