Baldur Nielsen
Baldur Nielsen
Baldvin Nielsen fjallar um nýfallið dómsmál: "Nú hefur unnist hálfur sigur fyrir íslensku þjóðina og væntanlega verður það hlutverk Hæstaréttar að skera úr um hvort dómurinn haldi."

,,ÚTHLUTUN veiðiheimilda myndar ekki eignarrétt," sagði í frétt Morgunblaðsins á www.mbl.is, hinn 7. febrúar sl. og var svohljóðandi:

,,Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu smábátaútgerðarmanns, sem taldi að breytingar sem gerðar voru á lögum um stjórn fiskveiða árið 2004 hefðu valdið honum tjóni og brotið gegn eignarréttarákvæði og jafnræðisreglu stjórnarskrár.

Útgerðarmaðurinn vildi að bótaréttur hans yrði viðurkenndur. Héraðsdómur vísar hins vegar til þess, að í lögum um stjórn fiskveiða, sem sett voru upphaflega 1990, segi að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Af þessu leiði að veiðiheimildir samkvæmt lögunum séu ekki varðar af ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Útgerðarmaðurinn taldi einnig að reikniregla, sem lögfest var með lagabreytingunni árið 2004, hefði brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár. Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að lagaákvæðin væru hvorki ómálefnaleg né andstæð jafnræðisreglunni."

Þessi dómur hlýtur að vera mikið áfall fyrir þá sem trúa, trúðu, eða trúa enn á kvótabraskkerfið.

Í Fréttablaðinu 12. ágúst 2005 var frétt um sjávarútvegsmál sem bar yfirskriftina ,,Látið reyna á hvort byggðakvóti stenst lög". Þar segir m.a. Magnús Kristinsson, útvegsmaður í Vestmannaeyjum: ,,Við getum ekki lengur sætt okkur við eignaupptöku sem sjávarútvegsráðherra stendur fyrir." Og síðar í sama viðtali: ,,Það er alveg ljóst að nú látum við sverfa til stáls. Það er ekkert annað en hrein og klár eignaupptaka þegar eignir manna eru teknar og þeim deilt út til annarra." Undir þetta tók að sjálfsögðu Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ).

Hér virðist gæta misskilnings hjá þeim félögum í LÍÚ því staðreyndin er að veiðiheimildum er úthlutað af breytilegum forsendum frá ári til árs til útgerða. Úthlutun veiðiheimilda hefur alltaf verið í höndum sjávarútvegsráðherra og hefur aldrei leikið vafi á um rétt hans og vald til þeirra aðgerða. Umræða um eignarhald er því út úr kortinu því stöðug afskipti samfélagsins af þessum verðmætum sínum eru til staðar. Því getur hefðarréttur aldrei myndast um veiðiheimildir."

Aðili sem hefur fengið úthlutað þeirri sérstöðu að afla 10 tonna fyrir samfélagið og fær úthlutað eitt árið 9 tonnum hefur ekki orðið fyrir skerðingu á verðmætum heldur tekist á við þann áhættuhluta sem alltaf hefur fylgt sjávarútvegi t.d. minnkandi fiskgengd við landið og/eða vegna sértækra byggðarsjónarmiða. Þetta er jafn innbyggt í sjávarútveginn og andrúmsloftið er umhverfi okkar því við erum veiðisamfélag.

Sá sami hefur ekki heldur hlotnast happdrættisvinningur þegar árið þar á eftir færir honum til verks að afla 11 tonna fyrir samfélagið. Tilkall til þessa viðauka er ekkert frekar hans en samfélagsins því yfirráðin yfir auðlindinni kemur frá þeim sem úthlutar í nafni þjóðarinnar og er kosinn til þess af almenningi.

Þetta á líka við um nýtingarrétt, að sá sem fær úthlutað í ár heimild til veiða getur ekki gengið að því vísu að svo verði áfram óbreytt næstu árin.

Þetta er í höndum ríkisvaldsins eins og áður segir.

Í lögum þeim frá 1990, sem dómurinn vísar í hér að ofan, segir meðal annars:

Lög nr. 38. 1990. 1. gr.: "Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum."

Nú hefur unnist hálfur sigur fyrir íslensku þjóðina og væntanlega verður það hlutverk Hæstaréttar að skera úr um hvort dómurinn haldi. Og ef svo fer að dómurinn verði staðfestur eða dómnum ekki áfrýjað, munu allar forsendur brasksins í kvótakerfinu líða undir lok. Það er vel þótt fyrr hefði verið.

Höfundur er bifreiðastjóri og situr í miðstjórn Frjálslynda flokksins.