Ingileif Ástvaldsdóttir
Ingileif Ástvaldsdóttir
Ingileif Ástvaldsdóttir fjallar um stóru upplestrarhátíðina: "Af þeim ástæðum vil ég með þessu greinarkorni vekja athygli lesenda á þessum merku menningarhátíðum og hvetja þá til að vera áheyrendur á stóru upplestrarhátíðinni."

Í NÆSTU viku hefjast upplestrarkeppnir 7. bekkinga víða um land. Reynslan sýnir að þessar keppnir eru svo sannarlega miklar menningarhátíðir í heimabyggð. Þar er upplestur í hávegum hafður og einnig er oft á tíðum boðið upp á tónlistarflutning sem í flestum tilfellum er í höndum barna og ungmenna.

Stóra upplestrarkeppnin er nú á sínu tíunda starfsári og fer á þessu ári fram á 34 stöðum á landinu. Það þarf margar hendur til þess að undirbúa og styrkja starfsemi af þessu tagi. Fjóra hópa ber að nefna í því sambandi. Í fyrsta lagi eru það allir sjöundu bekkingar sem hafa æft sig í vönduðum upplestri síðan á Degi íslenskrar tungu í nóvember sl., en þá á undirbúningur formlega að hefjast. Í öðru lagi eru það kennararnir sem hafa sagt nemendum til í þessum efnum. Í þriðja lagi eru það þeir starfsmenn skóla eða skólaskrifstofa sem halda utan um starfið í heimabyggð. Að lokum ber að nefna samtökin Raddir. En þau eru samtök um vandaðan upplestur og framsögn og halda þau utan um starfið á landsvísu. Markmið samtakanna eru eftirfarandi:

Að vekja athygli og áhuga á vönduðum flutningi og framburði íslensks máls.

Að allt ungt fólk læri að njóta þess að flytja móðurmál sitt, sjálfu sér og öðrum til ánægju.

Að efla virðingu ungs fólks fyrir móðurmálinu, sjálfu sér og öðrum.

Ég hef á undanförnum sex árum verið svo heppin að fá tækifæri til þess, með nemendum mínum, að taka þátt í undirbúningi keppninnar í minni heimabyggð. Sú vinna hefur í öll skiptin verið ánægjuleg og gefandi, bæði fyrir mig og nemendur. Við undirbúning er skemmtilegast að upplifa hve nemendur taka verkefnið alvarlega og einnig að sjá hvernig sjálfsöryggi þeirra vex og hvernig nemendum tekst með æfingunni að ná góðum tökum á vönduðum flutningi texta, hvort sem hann er í bundnu eða óbundnu máli. Ánægjulegast af öllu er þó að verða vitni að því að við æfingar á upplestri minnkar bilið milli þeirra sem eiga auðvelt með lestur og þeirra sem gengur það síður.

Í samfélagi nútímans er að mínu mati nauðsynlegt að leggja rækt við færni og kunnáttu sem nemendur fá þegar þeir taka þátt í Stóru upplestrarhátíðinni. Það er einmitt að svo mörgu að hyggja þegar flytja þarf texta sjálfum sér og öðrum til ánægju. Fyrst og fremst þarf að kynnast textanum vel; það þarf að kynnast hverju orði, hverju hljóði og hverjum staf. Það þarf jafnvel að velta fyrir sér úr hvaða umhverfi textinn er sprottinn. Það þarf líka að huga að líkamsstöðunni á meðan á flutningi stendur, það þarf að muna að sýna áheyrendum sínum virðingu og líka að reyna að ná stjórn á stressinu sem gjarnan gerir vart við sig fyrir framan fullan sal af fólki. Á þessari upptalningu sést að nemendur leggja á sig ómælda vinnu til þess að Stóra upplestrarkeppnin megi verða hátíðleg og vönduð. Af þeim ástæðum vil ég með þessu greinarkorni vekja athygli lesenda á þessum merku menningarhátíðum og hvetja þá til að vera áheyrendur á Stóru upplestrarhátíðinni. Þannig geta þeir sýnt framlagi ungmenna til menningarlífs heimabyggðarinnar athygli og virðingu.

Höfundur er fyrrverandi skólastjóri en stundar um þessar mundir framhaldsnám við KHÍ.