HÆSTIRÉTTUR hefur með dómi sínum hækkað bætur sem héraðsdómur dæmdi fyrrverandi starfsmanni Varnarliðsins sem höfðaði mál gegn ríkinu vegna ákvörðunar sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli um að svipta hann aðgangsheimild að varnarsvæðunum til bráðabirgða...

HÆSTIRÉTTUR hefur með dómi sínum hækkað bætur sem héraðsdómur dæmdi fyrrverandi starfsmanni Varnarliðsins sem höfðaði mál gegn ríkinu vegna ákvörðunar sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli um að svipta hann aðgangsheimild að varnarsvæðunum til bráðabirgða í nóvember 2002 vegna tollalagabrota. Fólust þau í því að hann keypti heimildarlaust dekk og pantaði varahluti fyrir bíl sinn inni á varnarsvæðunum.

Starfsmaðurinn vann málið í héraði og fékk eina milljón króna í bætur vegna vinnumissis en Hæstiréttur dæmdi honum 2,5 milljónir króna. Taldi dómurinn að sýslumaður hefði réttilega mátt svipta starfsmanninn aðgangsheimildinni. En með vísan til þeirra brýnu hagsmuna mannsins sem tengdust aðgangsheimildinni á svæðinu, en hann komst ekki til vinnu sinnar án hennar, var sá dráttur sem varð á að fella bráðabirgðasviptinguna úr gildi talinn ólögmætur að mati Hæstaréttar. Var ekki sýnt fram á að efnisleg skilyrði hefðu verið til að svipta hefði mátt manninn varanlega heimild sinni eins og loks var gert 1. apríl 2003. Taldi Hæstiréttur að ríkið bæri ábyrgð á því tjóni sem af þessu leiddi. Manninum voru dæmdar bætur vegna launamissis fram til loka aprílmánaðar 2003 er ráðningarsamningur hans rann út, en ekki vegna ætlaðs fjártjóns hans eftir 1. maí sem hann reisti á því að hafa ekki fengið vinnu annars staðar. Kröfu hans um miskabætur var þá hafnað.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Björn Ólafur Hallgrímsson hrl. flutti málið fyrir stefnanda og Einar Karl Hallvarðsson fyrir stefnda, ríkið.