— Morgunblaðið/Kristinn Benediktsson
Eftir Kristin Benediktsson FRAMKVÆMDIR við byggingu stórhýsis Rúmfatalagersins á Smáratorgi hafa verið á miklu skriði eftir að bæjarstjórinn í Kópavogi, Gunnar I. Birgisson, tók fyrstu skóflustunguna seinnipartinn í febrúar.
Eftir Kristin Benediktsson

FRAMKVÆMDIR við byggingu stórhýsis Rúmfatalagersins á Smáratorgi hafa verið á miklu skriði eftir að bæjarstjórinn í Kópavogi, Gunnar I. Birgisson, tók fyrstu skóflustunguna seinnipartinn í febrúar.

Byggingin verður hæsta hús landsins, 77,6 metra hátt eða um fimm metrum hærra en Hallgrímskirkjuturn. Það verður 20 hæðir sem hver um sig verður um 780 fermetrar. Sérbyggð bílageymsla, að mestu neðanjarðar, verður 5.700 fermetrar. Gert er ráð fyrir að tengja bílastæðin við Smáralind við bílastæðin við Smáratorg með brú yfir Fífuhvammsveg.

Húsið verður allt mjög nútímalegt. Útveggir verða allir úr gleri og náttúruleg loftræsting um opnanlega glugga sem stýrast af veðurstöð á þaki hússins. Fjórar háhraðalyftur verða í húsinu og verður ein þeirra sérhönnuð fyrir slökkvilið. Á jarðhæð byggingarinnar verða verslanir, skrifstofur á 2. - 19. hæð og á efstu hæðinni verður veitingahús. Áætlaður byggingarkostnaður er um 3,1 milljarður króna. Gert er ráð fyrir að jarðvinnu ljúki í byrjun maí, þá hefjist uppsteypa hússins og stefnt er að því að húsið verði tilbúið til innréttingar haustið 2007.

Á myndinni má sjá hvar grafið er upp úr grunninum á þremur stöðum og byrjað að keyra ofaníburð annars staðar. Turninn mun standa í nágrenni íbúðaturna sem þegar hafa verið byggðir og sett vinalegan brag á dalinn.