Íslandsmeistarar Stjörnunnar í blaki karla glaðir eftir að þeir endurheimtu Íslandsbikarinn að loknum öðrum sigri sínum á HK í jafnmörgum leikjum. HK vann titilinn af Stjörnunni í fyrra.
Íslandsmeistarar Stjörnunnar í blaki karla glaðir eftir að þeir endurheimtu Íslandsbikarinn að loknum öðrum sigri sínum á HK í jafnmörgum leikjum. HK vann titilinn af Stjörnunni í fyrra. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
FRAMAN af var ekki að sjá að Stjörnumenn hefðu fullan hug á að landa Íslandsmeistaratitlinum í blaki þegar þeir sóttu HK heim í Kópavoginum í gærkvöldi en Garðbæingar höfðu þegar unnið fyrsta úrslitaleik liðanna.

FRAMAN af var ekki að sjá að Stjörnumenn hefðu fullan hug á að landa Íslandsmeistaratitlinum í blaki þegar þeir sóttu HK heim í Kópavoginum í gærkvöldi en Garðbæingar höfðu þegar unnið fyrsta úrslitaleik liðanna. Eftir tvær tapaðar hrinur rjátlaði loks af þeim, vörnin lét á sér kræla og þegar smössin skiluðu sér líka var ekki að sökum að spyrja. Þrjár næstu hrinur vann Stjarnan, þar með leikinn 3:2 og endurheimti titilinn frá HK. Fyrir skömmu varði Stjarnan deildarmeistaratitil sinn og fær tækifæri á sunnudaginn til að verja einnig bikarmeistaratitilinn gegn KA.

Eftir Stefán Stefánsson ste@mbl.is
Stjarnan stóð í HK fyrstu mínúturnar í fyrstu hrinu og hafði 4:5 forskot en það hrundi og HK vann örugglega 25:14. Næsta hrina var meira spennandi og Stjarnan náði mest 10:15 forystu en hélt það ekki út, HK náði 19:10 forskoti og vann örugglega 25:20. Það var því að duga eða drepast fyrir Stjörnuna í þriðju hrinu en HK-menn skeyttu lítt um það og náðu 8:3 forystu. Garðbæingar linntu hinsvegar ekki látum fyrr en þeir jöfnuðu 11:11. Síðan var jafnt á öllum tölum þar til Stjarnan komst í 18:20 og vann 22:25. Fjórða hrina var mjög jöfn, liðin skiptust á nokkurra stiga forskoti og HK jafnaði 24:24 en Garðbæingar áttu næstu tvö stig og unnu 24:26. Jafnt var fram í miðja oddalotu, þá seig Stjarnan fram úr og vann 10:15.

"Við mættum varla til leiks fyrr en í þriðju hrinu, vorum algerlega úti á þekju," sagði Vignir Hlöðversson, þjálfari og fyrirliði Stjörnunnar, eftir leikinn. "Við vorum komnir með aðra höndina á bikarinn og það er oft erfitt að vera í slíkri stöðu en HK-menn spiluðu líka vel, léku sinn besta leik gegn okkur. Við höfðum kannski búist við að þeir myndu vera stressaðir en þess í stað byrjuðu þeir vel en sem betur fer náðum við að snúa þessu við. Ég er afar ánægður því þetta var mjög erfiður leikur en líka spennandi. Liðsheildin er sterk og þegar við komumst í gang leið okkur miklu betur. Við gerðum mikið af tæknilegum mistökum í byrjun en fórum loks að verjast í þriðju hrinu og vörn skiptir miklu máli. Þá skiluðu smössin sér og þegar þetta smellur allt saman þá eigum við að vinna," bætti Vignir við. Hann er alls ekki saddur og vill fleiri bikara. "Við erum ekki saddir. Við misstum Íslandsmeistaratitilinn til HK í fyrra og lögðum mesta áherslu á að ná honum. Við höfum spilað vel í vetur, ekki tapað nema einum leik og við ætlum að spila glimrandi í bikarúrslitunum."

HK vann annan leik liðanna í vetur en tapaði næstu þremur. Kópavogsbúar stóðu einnig í Stjörnunni í fyrri úrslitaleik liðanna en urðu einnig að játa sig sigraða þar, 3:2.

"Við fengum ekta leik eins og Stjörnumenn leika, þeir hætta aldrei," sagði Einar Sigurðsson, þjálfari og leikmaður HK, eftir leikinn og óskaði Stjörnumönnum til hamingju. "Við vissum það alveg og það getur verið að þetta hafi eitthvað með viljann að gera. Þeir höfðu hann algerlega en datt eitthvað niður hjá okkur, veit ekki hvort það hafi eitthvað með úthald að gera. Það varð eitthvað spennufall, við vinnum nokkuð öruggulega fyrstu tvær loturnar og héldum jafnvel að þetta kæmi af sjálfu sér en það gerist ekki. Við gátum alveg betur og eigum fullt inni en ég óska Stjörnunni til hamingju," sagði Einar að leik loknum.