Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir fjallar um móðurmál og tungumálakennslu: "Vel er hægt að hugsa sér að til staðar verði móðurmálstenglar í borginni sem starfa í tengslum við þjónustumiðstöðvarnar."

BRÁTT mun koma að því að Reykjavíkurborg axli ábyrgð á því að efla og styrkja móðurmálsumhverfi barna af erlendum uppruna. Það er staðreynd að í borginni eru töluð hátt í eitt hundrað móðurmál og er staða þeirra afar mismunandi. Sum hafa sterka stöðu í samfélagi þjóðanna eins og enska og spænska en önnur eru fjölmenn hér á landi eins og pólska og taílenska. Möguleikar samfélagsins til að efla og styðja móðurmálin eru afar mismunandi en að því skal stefnt að styrkja umhverfi allra móðurmála í samfélaginu.

Móðurmál sérhvers einstaklings er svo nátengt sjálfsmynd hans að ekki verður hjá því vikist að upplýst þjóð eins og Íslendingar átti sig á mikilvægi þess að bera mikla virðingu fyrir mismunandi móðurmálum. Móðurmálið er jafnan líka lykill að hugtakaforða, heimsmynd, félagsþroska og menningarlegri sjálfsmynd hvers og eins. Þótt íslenskumenntun sé afar mikilvæg fyrir alla sem hafa annað móðurmál verður að horfast í augu við mikilvægi stuðnings við fjölbreytta móðurmálsflóru til að styðja við öflugt og fjölmenningarlegt samfélag í borginni.

Unnt er að styðja við móðurmál á marga vegu og þá fleiri vegu en með beinni kennslu. Til að mynda má auka umtalsvert fræðslu um mikilvægi móðurmáls, hvetja fólk af erlendum uppruna til að nota sitt móðurmál á heimilinu og í samskiptum við börn sín. Þannig er unnt að nýta enn betur máltökuskeið barna, þ.e. þann tíma sem þau eru móttækileg fyrir því að læra mál á náttúrlegan hátt. Þannig er innra tengslanet fjölskyldunnar eflt sömuleiðis og þar með tilfinningalegt og félagslegt nærumhverfi barnsins.

Sérstaklega þarf að huga að því að efla faglega og öfluga túlkaþjónustu á sem flestum tungumálum og efla þannig málin sem sterk tæki til samskipta um flókin málefni og viðkvæm. Starfandi talmálstúlkar þurfa hér að njóta tækifæra til starfsþróunar og endurmenntunar og efla þar með þjónustu sína og gera hana faglegri og metnaðarfyllri.

Móðurmálstengill ný hugmynd

Vel er hægt að hugsa sér að til staðar verði móðurmálstenglar í borginni sem starfa í tengslum við þjónustumiðstöðvarnar og geta komið börnum til aðstoðar að því er námsefni og heimanám varðar. Þar sem um er að ræða fámenn tungumál væru fáir í slíku hlutverki en hugsanlegt er að í sumum tungumálum væru slíkir móðurmálstenglar ráðnir til starfa við einstaka skóla. Vert er að koma í kring námskeiðum fyrir móðurmálstengla á vegum borgarinnar í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands.

Loks er ótalin sú leið sem við blasir en það er sú að bjóða upp á beina móðurmálsmenntun og þá með frambærilegu námsefni og menntuðum kennurum í hverju tungumáli fyrir sig.

Móta þarf stefnu um tvítyngismenntun og móðurmálsstuðning í borginni. Hún er hluti af þeirri stefnu sem við tökum í því að taka á móti fólki af fjölbreyttu þjóðerni, sem lita, efla og styrkja borgarlífið. Þannig aukum við aðgengi nýrra borgarbúa að borginni og aukum möguleika þeirra til að hafa áhrif í borginni og taka þátt í því að móta áherslur framtíðarborgarinnar.

Höfundur skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík.