[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókmenntaheimurinn á Íslandi á 20.
Bókmenntaheimurinn á Íslandi á 20. öld hefur stundum verið markaður af flokkadráttum sem kenna má við stjórnmálastefnur, en oftast hefur hann verið það sem samfélagið bauð upp á, ekki tiltakanlega stór heimur en heimur út af fyrir sig þar sem menn hafa mikil eða lítil völd og sumir eru kóngar en aðrir þegnar og sumar stjörnur skína skærar en aðrar.

Eitt sem einkennir heima eins og þennan er að allir þekkja stjörnurnar sem skrifa bækurnar, mæta í viðtölin og skrifa greinar í blöðin. Bakvið tjöldin sitja aðrir sem eru stundum lítt kunnir almenningi en hafa ef til vill mikil völd og áhrif, geta búið til rithöfunda eða afskrifað þá, komið einum á framfæri meðan öðrum er ýtt út í kuldann. Stundum hafa menn vald í krafti stöðu sinnar sem útgáfustjórar eða útgefendur en stundum í krafti þekkingar sinnar og reynslu.

Á fyrri hluta tuttugustu aldar var stundum sagt að íslensk menning væri Sigurður Nordal. Hér mætti nefna nöfn nokkurra sporgöngumanna hans sem hafa ráðið lögum og lofum í lífi margra listamanna og haft mikil völd og áhrif án þess að þau væru beinlínis afmörkuð í skipuriti eða með konungsbréfi.

Silja Aðalsteinsdóttir hefur verið stórt nafn í íslensku menningarlífi áratugum saman, sérstaklega í bókmenntaheiminum. Hún ritstýrði Tímariti Máls og menningar í mörg ár, var menningarritstjóri gamla DV í mörg ár og tók aftur við sem ritstjóri TMM eftir gjaldþrot DV.

Silja hefur hitt fleiri vongóð skáld um dagana en tölu verður komið á. Sum fóru bónleið til búðar eins og gengur en sum fengu hjá Silju fyrsta tækifærið til þess að láta ljós sitt skína fyrir þjóðina, hvort sem það var í formi skáldsögu, smásögu í TMM eða kannski var framlag þeirra eitt ljóð sem hlaut náð fyrir augum hins kröfuharða ritstjóra.

Þegar flett er í gegnum nokkra árganga af Tímariti Máls og menningar meðan það var undir stjórn Silju á níunda áratugnum þá sjást þar frumraunir nokkurra listamanna sem áttu eftir að láta til sín heyra svo eftir væri tekið.

Linda Vilhjálmsdóttir skáld og rithöfundur

Ragna Sigurðardóttir skáld og rithöfundur

Gyrðir Elíasson skáld og rithöfundur

Þorvaldur Þorsteinsson fjöllistamaður

Sindri Freysson skáld og rithöfundur

Guðni Már Henningsson dagskrárgerðarmaður

Eva María Jónsdóttir dagskrárgerðarkona

Ágúst Borgþór Sverrisson rithöfundur

Bragi Ólafsson rithöfundur og skáld

Þorri Hringsson skáld og fjöllistamaður

Bubbi Morthens tónskáld og textahöfundur

Hvað á þetta fólk sameiginlegt?

Þau stigu fyrstu sporin í átt til þess að verða fullburða listamenn undir handarjaðri Silju Aðalsteinsdóttur.

Silja kom að Tímariti Máls og menningar árið 1981, varð ritstjóri 1982 og gegndi því starfi til ársloka 1987. Hún tók aftur við TMM í upphafi árs 2004 og hefur hleypt nýju lífi í það. En hvernig bar það til að hún tók við þessu starfi árið 1982?

"Ætli það hafi ekki verið klíkuskapur? Það gerist yfirleitt þannig á Íslandi. Ég var vinkona Þorleifs Haukssonar sem var útgáfustjóri Máls og menningar á þessum tíma og ritstjóri TMM en vildi út og var á höttunum eftir nýjum ritstjóra. Allt byrjaði þetta þó með áhuga mínum á barnabókum. Árið 1971 hafði ég tekið þátt í könnun á barnabókum og birt greinargerð með niðurstöðum hennar sem vakti talsverða athygli, síðan skrifaði ég kandídatsritgerð um barnabækur og á barnaári Sameinuðu þjóðanna 1979 gaf ég út eitt hefti af Tímariti Máls og menningar sem var svolítil sprengja, seldist upp og var prentað aftur sem er líklega einsdæmi um það tímarit.

Þorleifur sá í þessu verkefni að ég réði við þetta og það hefur væntanlega vegið þyngst þegar hann ákvað að gera mig að ritstjóra.

Þetta var skemmtilegur tími því útgáfan var í uppsveiflu og þrjú ár í röð fékk ég að gefa út fimm hefti á ári í stað fjögurra," rifjar Silja upp. Á þessum tíma var staða TMM allt önnur í íslenskri menningarumræðu en hún er í dag.

"Þegar ég tók við Tímaritinu voru áskrifendur í kringum 5.000 en stór partur af þeim var fólk sem fékk heftið sent án þess að borga fyrir. Ég hætti að senda ritið úr ókeypis og áskrifendur voru um 3.500 þegar ég hætti. Í dag ná áskrifendur TMM ekki heilu þúsundi og eflaust er mörgu þar um að kenna.

Menningarumræðan er breytt og hinir gömlu félagsmenn Máls og menningar hafa týnt tölunni. Tímaritið stóð allt öðru vísi þegar það hafði útgáfuna sem bakhjarl, hún var því fjárhagslegur styrkur svo að til dæmis gat árgjaldið verið lægra."

Kalda stríðið hitnaði

Margir telja að kalda stríðinu hafi lokið þegar Berlínarmúrinn féll árið 1989 en það stríð hafði skipt heiminum í tvennt í marga áratugi og einnig íslenskum menningarheimi. Gætti þessa stríðs enn á níunda áratugnum?

"Sumir töldu að kalda stríðinu væri lokið þegar ég birti ljóð eftir Matthías Johannessen í Tímaritinu árið 1986. Það þóttu mörgum talsverð tíðindi. Þá hafði Matthías ort í nærri 30 ár en aldrei birt ljóð á þessum vettvangi."

Var línan milli hægri og vinstri skálda svona skýr?

"Já sennilega hefur hún verið það. Ég hef alltaf verið hálfgert viðrini í þessum efnum enda alin upp á framsóknarheimili þar sem Tíminn var keyptur en alls ekki Tímarit Máls og menningar. Ég sá aldrei Kristin E. Andrésson og kom ekki inn í þennan félagsskap sem pólitískur uppalningur heldur sem dugleg stelpa. Mörgum góðum og gegnum menningarpostulum fannst hart að kona sem átti þátt í að koma Bubba Morthens á framfæri og hafði skrifað lofgreinar um ljóð gúanóskálda skyldi vera orðin ritstjóri Tímaritsins.

Ég heyrði þetta svona utan að mér en mér var andskotans sama því þetta voru meira og minna raddir úr fortíðinni, hálfdautt fólk þótt sumir hefðu sterka stöðu sem menningarvitar og hefðu gert íslenskum bókmenntum og íslenskri menningu mikið gagn á sínum tíma. Hér gæti ég nefnt nöfn en ætla ekki að gera það."

Er ekki eitt og annað óuppgert í sögunni af því hvaða áhrif kalda stríðið hafði á íslenskt menningarlíf?

"Árni Bergmann skrifaði ansi merkilega grein um þetta mál í Tímarit Máls og menningar árið 2000. Þar gengur hann virkilega í skrokk á þeirri mýtu að róttæku skáldin hafi ofsótt þau hægrisinnuðu og bendir á hve hægri vængurinn hafði miklu betri stöðu í þessum efnum á allan hátt. Bæði víðari vettvang - Morgunblaðið hafði ansi miklu meiri útbreiðslu en Þjóðviljinn - meiri peninga, betri aðstöðu og betri aðgang að styrkjum. Það breytir ekki því að á vinstri vængnum voru harðir og marktækir gagnrýnendur sem menn vildu frekar fá hrós frá en einhverjum vinum sínum eða samherjum í pólitík.

Þetta á eftir að verða skemmtilegur akur að plægja á næstu árum og áratugum. Fjórða bindi íslensku bókmenntasögunnar er væntanlegt í ár; þar verður væntanlega fjallað um þessa tíma en ég spái að það verði frekar grunnur undir frekari umræður en að það verði hinn endanlegi dómur."

Hin þungu spor

Einn viðmælenda minna sagði að það væru erfið spor fyrir ungt skáld að ganga inn á ritstjórn Tímarits Máls og menningar með ljóð um sín innstu hjartans mál í þvældum plastpoka og leggja þau í dóm. Hvernig tókstu á móti þessu fólki?

"Ég vona að ég hafi sýnt ákveðna hlýju. Og ég reyndi eins og ég gat að láta sendingar ekki daga uppi í skúffum hjá mér því margir sendu mér handrit en komu ekki sjálfir. En það gat verið snúið fyrir daga Internetsins að finna skáld sem skrifaði kannski bara nafn en ekkert heimilisfang á handritið og var ekki í símaskránni.

Til þess að svona tímarit lifi verður maður að hafa samband við fólk og ástæða þess að svo varð á minni tíð sem ritstjóra var að ég kom beint úr kennslu í Háskólanum og Kennaraskólanum og þekkti margt ungt fólk sem langaði til að skrifa um bókmenntir eða jafnvel semja bókmenntir, svo það spurðist sennilega fljótt út að óhætt væri að sýna mér ný verk. Mér finnst í minningunni að vongóðum skáldum hafi heldur fjölgað á skrifstofunni eftir því sem á leið.

Auðvitað má ekki eingöngu birta skáldskap eftir byrjendur heldur þarf einnig að sinna þeim sem eru starfandi skáld og slík flaggskip senda manni ekki ljóðin sín nema sérstaklega sé beðið um þau. Þarna þarf að finna ákveðið jafnvægi."

Fannst þér erfitt að segja nei við fólk?

"Það er alltaf erfitt að segja við fólk að verk þess séu ekki nógu góð. Maður þarf að reyna að finna orð sem eru ekki særandi og helst að finna eitthvað í verkinu sem hægt er að rökstyðja höfnunina með. Flestir sendu handrit eða færðu mér og leyfðu mér svo að lesa í friði en á þessu er ein minnisstæð undantekning.

Þá gekk maður inn og lagði ljóðin sín á borðið, stillti sér svo upp hinum megin við litla skrifborðið og beið meðan ég las. Þetta var einn af nafntoguðustu sakamönnum landsins þá nýlega kominn úr fangelsi. Ég get ekki sagt að mér hafi liðið vel meðan á þessum lestri stóð. Kveðskapurinn var ekki alvondur en hann var heldur ekki góður og ég man að ég sagði honum að þetta væru frekar dægurlagatextar en ljóð og hann skyldi finna lagasmið og vinna með honum. Ég hef ekki frétt af frekari afrekum hans á þessu sviði en hann fór ekki ósáttur frá mér."

Gerðir þú þér far um að taka vel á móti ungskáldum?

"Já, ætli kennslan hafi ekki verið góður undirbúningur undir það. Allavega gekk mér yfirleitt betur að eiga við fólk sem var á líkum aldri og ég eða yngra en mörgum - sérstaklega karlmönnum sem voru eldri en ég - fannst erfitt eða óþægilegt að setja verk eftir sig í dóm hjá mér. Þeim fannst ég hvorki nógu roskin né virðuleg til að gegna þessu fornfræga embætti."

Margir þeirra listamanna sem þú tókst vel og hleyptir inn í blaðið virðast hafa orðið vinir þínir en eignaðist þú aldrei óvini í þessu starfi?

"Jú. Á þessum dögum vandist ég af því að fara á bari og böll að skemmta mér. Eftir að ég fékk innihald úr glasi vonsvikins höfundar yfir mig ákvað ég að hætta að vera innan um fólk sem var ekki með sjálfu sér.

Ég reyndi að segja fólki sem ég hafnaði að mitt álit væri aðeins álit einnar manneskju og hvatti það til að leita annað en auðvitað voru önnur tækifæri til að birta skáldskap á þessum árum ekki mörg og eru ekki enn."

Það er sagt að íslenskur útgáfustjóri hafi handleikið fyrsta bindið af Harry Potter á bókamessu fyrir mörgum árum og afþakkað það með þeim orðum að þetta væri alltof löng barnabók. Kom eitthvað þessu líkt einhvern tímann fyrir þig? Kom fyrir að einhver sem þú vísaðir frá barðist til frægðar sem skáld eftir öðrum leiðum?

"Ekki man ég eftir neinu tilviki í svipinn en það getur vel hafa gerst án þess að ég muni það."

Hvernig metur maður ljóð eftir óþekkt skáld?

"Maður les og annaðhvort gerist eitthvað eða ekki. Kannski skiptir ástand manns sjálfs, hvernig manni líður, einhverju máli, hvort maður er hamingjusamur, bitur, vansvefta, kvefaður eða hvað. En ég lærði mjög snemma að treysta hjartanu og ef það hrærist við lesturinn þá á ég að lesa aftur. Ef ég fer að hugsa um það hvað ég á að hafa í matinn í miðju ljóði þá er það sennilega ekki verulega gott."

Margir þekkja hugtakið "One Hit Wonders" úr poppbransanum þar sem hljómsveit slær í gegn með einu lagi og sést svo aldrei meir eða heyrist. Hendir þetta í bókmenntaheiminum - eitt ljóð sem slær í gegn og svo ríkir þögn?

"Ekki man ég til þess. Ég held reyndar að það sé ekki algengt í bókmenntasögunni allri að eitt ljóð í tímariti geri höfund sinn frægan. Lesendurnir eru ekki nógu margir."

Er Biblían of löng?

Þurfa skáld og rithöfundar mikla handleiðslu?

"Allir vita að það er gott að láta aðra lesa yfir og fá álit þeirra, hvað sem menn svo gera við það. Mér finnst hins vegar að núna, þegar ég er ekki með forlag á bak við mig, þá sé hálfgerður óþarfi að láta mig lesa. Ég vil gjarnan gera það fyrir þá sem ég hef fylgst með, en valdið er fyrst og fremst hjá þeim sem ákveða að gefa út eða ekki. Endalaus álit geta verið til óþurftar og menn geta orðið háðir þeim og þegar útgefandinn segir nei dugar skammt að segja að fimm vinir manns séu búnir að segja að þetta sé frábært.

Þegar ég skrifaði bókina um Guðmund Böðvarsson þá fékk ég álit nokkurra góðra yfirlesara og þar á meðal var einn sem gerði alvarlegar athugasemdir á tveim-þrem stöðum. Ég ætlaði að láta þær sem vind um eyrun þjóta en þá sagði maðurinn að ég mætti ekki geta hans sem yfirlesara í formála nema ég tæki mark á athugasemdum hans og ég valdi þann kost að fá að nefna hann. Þar beitti hann valdi sínu til góðs fyrir mig og bókina þótt mér þætti í hita leiksins hann vera að skipta sér of mikið af verkinu.

Þeim rithöfundum sem taka leiðsögn farnast alla jafna betur þótt bókmenntasaga veraldarinnar geymi auðvitað dæmi um annað. Biblían þætti núna áreiðanlega of löng og ruglingsleg skáldsaga.

Það þarf því rétta blöndu af sjálfsöryggi og opnum huga fyrir ábendingum annarra. Við þurfum öll að efla trú okkar á sjálf okkur og í þessu starfi þarf maður að geta hvatt fólk til dáða án þess að ljúga að því.

Ég komst fljótt að því að það hefndi sín ef ég birti eitthvað af greiðasemi við höfundinn og þaggaði niður mína betri vitund. Ég mátti alls ekki ljúga að höfundinum og sjálfri mér heldur sýna nauðsynlegan heiðarleika. Ég varð alltaf að geta varið það sem birtist í tímaritinu með hreinni samvisku."

Silja hefur umgengist listamenn mjög lengi gegnum sitt starf í áratugi og þekkir marga þeirra. Ég geri ráð fyrir að margir listamenn telji sig eyland, fágæta snillinga sem eigi enga hliðstæðu í alheiminum, en er eitthvað sem listamenn eiga sameiginlegt sem gerir þá að listamönnum?

"Það sem skilur listamenn frá þeim sem verða aldrei listamenn, sama hvað þeir reyna, er frjór hugur. Sískapandi hugur gerir þetta fólk skemmtilegt og laust við forpokun þótt það hafi stundum einkennilegar hugmyndir. Fyrst og fremst er það lifandi. Okkur finnst stundum að við þurfum að sjá utan á fólki að það sé listamenn, en það er ekki nóg að vera "listamannslegur". Gáum hvað á bak við býr, en minnumst þess líka að sumir listamenn leika ákveðna týpu til þess að breiða yfir feimni og viðkvæmni, búa sér til aukasjálf og fela sig og sína feimnu persónu bakvið það."

Við höfum talað um þau erfiðu skref sem listamaður stígur á fund ritstjóra eða útgáfustjóra og hvernig eigi að hlúa að listamönnum og hvetja þá. Stóðstu einhvern tímann í þessum sporum sjálf?

"Auðvitað getur verið að einhvern tímann hafi einhvers staðar birst eftir mig smásaga fyrir óralöngu en aldrei ljóð," segir Silja og er satt að segja undarlega óljós í svörum.

"Ég vissi fljótt að mér léti betur að lesa eftir aðra en yrkja sjálf og er dásamlega laus við skáldskaparhneigð." | lysandi@internet.is

Eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson Ljósmyndir Brynjar Gauti