ÞAÐ hamlar mjög viðbragðsgetu dýralæknayfirvalda, m.a. vegna farsótta og heimsfaraldra, að hafa ekki aðstöðu hér á landi til krufningar dýra og greiningar sýna vegna alvarlegra sjúkdóma í dýrum.
ÞAÐ hamlar mjög viðbragðsgetu dýralæknayfirvalda, m.a. vegna farsótta og heimsfaraldra, að hafa ekki aðstöðu hér á landi til krufningar dýra og greiningar sýna vegna alvarlegra sjúkdóma í dýrum. Þannig þurfa yfirdýralæknir og starfsfólk Tilraunarstöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum að öllum líkindum að bíða í rúma viku eftir niðurstöðum rannsóknar á sýnum úr dauðum fugli sem fannst á Elliðavatni laugardag fyrir viku, í stað þess að niðurstöður gætu legið fyrir nær samdægurs.

Þetta er mat Halldórs Runólfssonar yfirdýralæknis. Hann kveður mjög bagalegt að páskafrí í Svíþjóð setji strik í reikninginn þegar beðið er eftir mikilvægum niðurstöðum sem gætu varðað viðbúnaðarstig landsins gegn fuglaflensu.

"Þetta sýnir að það er mjög erfitt að ferlið skuli þurfa að vera svona langt ef hér væri raunverulega um fuglaflensu að ræða eða annan sjúkdóm sem þyrfti að rannsaka í hvelli," segir Halldór, sem kveður þó rannsóknarstofuna í Svíþjóð hafa sinnt rannsóknum hratt og vel hingað til. "Almennt talað er þó mjög alvarlegt að hafa ekki aðstöðu til að fá hröð svör eins og þarf. Það er búið að taka ákvörðun um það núna að búa þessa aðstöðu til, en hún hefði þurft að vera til. Þegar svona stendur á, eins og þegar helgidagar koma upp og við höfum ekki okkar eigin aðstöðu, þá geta svona aðstæður skapast, sem geta tafið okkar viðbúnað og nauðsynlegar aðgerðir."