Kristín Kristjánsdóttir fæddist í Hnífsdal 11. janúar 1942. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík 26. mars síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Víðistaðakirkju 4. apríl.

Hún var hetjuleg, snörp, baráttan hennar Stínu frænku við vágestinn sem hafði að lokum betur. En hún stóð ekki ein í þessari baráttu, þau stóðu þétt að baki henni, dætur hennar og perlur, Sólrún, Kolbrún, sem kom frá Bandaríkjunum eftir áramótin og Guðrún, svo og Ármann sambýlismaður og fjölskyldan hennar. Og var það mikill styrkur að Sólrún og fjölskylda bjuggu í næstu götu. Og Alli hefur reynst tengdamömmu sinni betri en enginn. Leiðir okkar Stínu hafa legið saman á fjórða áratug og verið okkur mæðginum dýrmæt og yndisleg kynni. Og höfum við átt margar góðar og skemmtilegar samverustundir í gegnum tíðina. Þá bjuggu þau hjón Stína og Ninni í Hnífsdal, og dæturnar komu loksins hver af annarri, á stuttum tíma og voru svo yndislega velkomnar í fjölskylduna og svo innilega langþráðar eftir mörg ár án þeirra. Sonur minn, Kristján Ingi, var hennar hjartans barn, eins og dæturnar, við ómældan kærleik og hann var prinsinn hennar í stelpuskaranum og áttu þau einlæga, fallega vináttu fram á hinstu stund. Í gegnum tíðina þegar krakkarnir voru litlir, höfðum við mikil samskipti og pössuðum fyrir hvor aðra til skiptis, það voru fjörmiklar ánægjustundir þegar þau voru öll saman komin og enn í dag eiga þau fallega og góða vináttu. Eftir að Ninni féll frá þá flutti Stína suður með dætur sínar en Sólrún varð eftir á Ísafirði og bjó hjá okkur mæðginum um tíma og voru það góðar stundir. Það tók dóttur Dalsins þó nokkurn tíma að finna sig í borginni í fyrstu, en svo lagaðist það. Það var oft gestkvæmt og fjölmennt á heimilinu hennar Stínu enda hún ættrækin mjög og trygg sínum.

Hún var búkonuleg matmóðir, myndarleg húsmóðir, snögg að framreiða veisluföng fyrir sína. Glaðlynd með bros á vör, hnyttin í tilsvörum, skemmtilega stríðin og mannkostakona. Það var gott að eiga vináttuna hennar Stínu og tryggð alla tíð, og hef ég oftsinnis þakkað henni það. Barnabörnin hennar Stínu voru elskuð og dáð og mikilvæg ömmu sinni. Á milli hennar og dætranna var falleg og einlæg vinátta alla tíð. Svo birtist Ármann í tilveru hennar og voru þau eins og ástfangnir unglingar, það geislaði af þeim þegar maður hitti þau, og áttu þau góða samveru og bjuggu sér fallegt heimili saman í Keflavík, en hamingja þeirra varð allt of stutt. Við áttum yndislega stund í endaðan janúar og mörg góð símtöl eftir það og dáðist ég að æðruleysi hennar og kjarki í viðmóti við veikindin og dauðann. Eftir að allri meðferð var hætt sagði hún mér að hún væri bara að ganga frá sínum málum við guð og menn.

Hvíldin er þreyttum kær segir í ljóðinu, en eftir erfiða þrautagöngu er hún lausn þó að sárt sé, og sárin engan vegin gróin eftir andlát Siggu Betu systur hennar í fyrra. Guð gefi þér fallega heimkomu, Stína mín, til ástvina sem fóru fyrr. Með okkar fallegustu þökkum fyrir allt. Elsku Sólrún, Kolla, Guðrún, Ármann, Dóri Páls og fjölskyldur, við Kristján Ingi og Gitta sendum ykkur dýpstu og einlægustu samúð og biðjum að Guð gefi ykkur styrk.

Bjarndís.

Elsku Stína, mig langar til að kveðja þig með örfáum orðum því þegar ég minnist uppvaxtaráranna í Hnífsdal kemur Hlégerði 3 mikið við sögu. Ég var nánast daglegur gestur hjá þér því við stelpurnar lékum okkur mikið saman. Það koma margar ljúfar minningar upp í hugann. Heilögu stundirnar á sunnudögum við að horfa á Húsið á sléttunni þegar við gátum grátið allar í kór, ristað brauð með osti og heimagerða marmelaðið þegar við komum heim úr skólanum og ekki má gleyma hafrakexinu. Þegar úti var aftakaveður lékum við okkur stelpurnar í alls konar ímyndunarleikjum ég man t.d. eftir Barbieborg á stofugólfinu og ósjaldan lögðum við undir okkur öll herbergi í húsinu í mömmuleik en aldrei man ég eftir að þú hafir kvartað yfir því, Stína mín.

Elsku Stína, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og alla þá hlýju og góðvild sem þú sýndir mér. Þó að sambandið hafi verið slitrótt síðustu ár hef ég hugsað til þín og stelpnanna því þið voruð svo stór hluti af mínu lífi í Hnífsdal.

Elsku Sólrún, Kolla, Guðrún, Ármann og fjölskyldur, guð gefi ykkur styrk til þess að takast á við sorgina og söknuðinn.

Kristjana Bjarnþórsdóttir.

Elsku Stína mín, með örfáum orðum langar mig að þakka þér fyrir allt sem þú varst mér. Ég man alltaf eftir þeim ljúfu stundum sem ég átti með þér. Þegar ég flutti í dalinn varstu eins og önnur mamma mín. Ég gat alltaf leitað til þín með allt. Það var ekki svo sjaldan sem ég kom við hjá þér. Þegar ég bar út póstinn þá var hellt upp á gott Stínu-kaffi sem var upp á gamla móðinn. Á sumrin unnum við saman á gæsluvellinum í Hnífsdal. Það var yndislegur tími en þó við frumlegustu aðstæður, þá var oft glatt á hjalla. Löngu seinna fluttum við báðar suður. Því miður höfðum við lítið samband í seinni tíð. En alltaf bar ég hlýjar tilfinningar til þín. Ég er glöð að hafa getað spjallað við þig áður en þú kvaddir þennan heim.

Elsku Ármann, Sólrún, Kolbrún, Guðrún og fjölskyldur, megi Guð styrkja ykkur í þessari sorg. Þín vinkona,

Hanna Sigurjónsdóttir.

Minningarnar um nátengt fólk geta verið svo sterkar og margvíslegar að næstum ómögulegt getur verið að lýsa þeim. Ég fékk einungis að þekkja Kristínu í nokkur ár. Vinátta hennar og traust var skilyrðislaust. Því þótti mér fljótt ákaflega vænt um þessa konu sem faðir minn hafði tekið saman við. Þau ákváðu að eyða ævikvöldinu saman og það virtist sem birta og hlýja léki í kringum þau.

Fjölskylda Kristínar tók mér með opnum örmum rétt eins og hún hafði sjálf gert upphaflega. Yndislegra fólk en hún og fjölskylda hennar er vandfundið. Ég finn því fyrir auðmjúku þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast henni og fólkinu hennar.

Sorgin sem ég skynja við lát hennar bergmálar í sorg yfir láti móður minnar eins og aðvörun um að það sem er verði brátt liðin tíð.

Fyrir hönd föður míns er ég innilega þakklát fyrir alla þá gleði sem fjölskylda Kristínar hefur veitt honum og Kristínu er ég innilega þakklát fyrir að eyða síðustu árum ævi sinnar með honum.

Anna Jonna Ármannsdóttir.