Páll Vilhjálmsson
Páll Vilhjálmsson
Páll Vilhjálmsson skrifar um Baug: "Vegna þess að þeir Ari og Þorsteinn eru enn blautir á bakvið eyrun í nýju starfi er rétt að stafa ofaní þá hugmyndafræðina sem þeir gengust á hönd þegar þeir réðu sig á Baugsmiðla."
BAUGUR notar fjölmiðla í sinni eigu til að halda fram hagsmunum auðhringsins og hefur gert frá fyrstu tíð. Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, skipaði svo fyrir að fréttir andstæðar hagsmunum Baugs skyldu teknar af vefsvæðinu visir.is, en þar bar fjölmiðlaítökum Baugs fyrst niður.

Jón Ásgeir notaði leppa til að endurreisa Fréttablaðið sem varð gjaldþrota sumarið 2002. Baugur var þá almenningshlutafélag og það voru auglýsingar frá verslunarkeðjum Baugs, Bónus og Hagkaupum, sem tryggðu rekstur Fréttablaðsins og eignarhald Jóns Ásgeirs og fjölskyldu. Í heilt ár var því haldið leyndu hver ætti Fréttablaðið.

Á ferli Fréttablaðsins hafa ritstjórar og blaðamenn verið viljugt verkfæri Baugs. Stundum hefur það sýnt sig í skondnum fréttafyrirsögnum eins og þegar Nóatúnsverslunin í JL-húsinu brann. Fyrirsögn Fréttablaðsins var Allt ónýtt í Nóatúni. Líklega hefði fyrirsögnin verið önnur ef Bónusverslun hefði brunnið. Á öðrum tímum hefur Fréttablaðið þagað yfir fréttum sem koma Baugi og viðskiptafélögum illa.

Alræmdasta misnotkun fjölmiðlavalds Baugs, hingað til, er dagsett 1. mars 2003. Í forsíðufrétt Fréttablaðsins var því haldið fram að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, stæði á bakvið lögreglurannsókn á bókhaldi Baugs. Jón Ásgeir var heimildarmaður fyrir fréttinni, en þá var enn leynd á eignarhaldi Fréttablaðsins. Fréttin var uppspuni og þverbraut allar viðteknar reglur í blaðamennsku eins og hún tíðkast á Vesturlöndum.

Atlagan að forsætisráðherra misheppnaðist. Í framhaldi upplýstist að áður en til árásarinnar kom hafði Jón Ásgeir reynt að múta forsætisráðherra með 300 milljónum króna. Múturnar áttu að þagga niður í forsætisráðherra sem hafði gagnrýnt Baugsverslunina fyrir hátt vöruverð til almennings.

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, og fyrrverandi aðstoðarmaður forsætisráðherra, var milligöngumaður fyrir Jón Ásgeir.

,,Ég bað Hrein að segja mér þetta tvisvar og hann gerði það. Þegar hann sá minn mikla undrunarsvip, því mér var mjög brugðið, þá sagði hann: Ég sagði nú reyndar við Jón Ásgeir að hann þekkti ekki forsætisráðherrann, það þýddi ekkert að bera á hann peninga. Þá svaraði Jón Ásgeir: Það er enginn maður sem stenst það að vera boðnar 300 milljónir króna inn á hvaða reikning sem er, sporlausa peninga," segir Davíð Oddsson í viðtali við Morgunblaðið 4. mars 2003.

Þeir sem ráða sig til starfa á Baugsmiðlum vita að hverju þeir ganga. Skilyrðislaus hlýðni við auðhringinn er forsenda fyrir því að tolla í starfi þar á bæ. Á því fékk Guðmundur Magnússon, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, að kenna þegar hann gagnrýndi mannorðsmeiðingar DV, systurblaðs Fréttablaðsins. Guðmundur var rekinn.

Um áramótin síðustu tóku til starfa á Baugsmiðlum, Ari Edwald, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Þorsteinn Pálsson, sem einu sinni var formaður Sjálfstæðisflokksins. Ari var gerður að yfirmanni Baugsmiðla og Þorsteinn að ritstjóra Fréttablaðsins.

Upp á síðkastið hafa þeir félagar kvartað undan því að vera spyrtir við hagsmunagæslu auðhringsins sem þeir starfa hjá. Ari skrifaði grein í Morgunblaðið 11. mars til varnar fyrir þá félaga og Þorsteinn hefur borið sig illa í leiðurum Fréttablaðsins.

Vegna þess að þeir Ari og Þorsteinn eru enn blautir á bakvið eyrun í nýju starfi er rétt að stafa ofaní þá hugmyndafræðina sem þeir gengust á hönd þegar þeir réðu sig á Baugsmiðla. Þessi hugmyndafræði er hvergi sögð upphátt, meira að hún sé hugsuð í einkaþotum yfir Atlantshafi og í lystisnekkjum á Miðjarðarhafi: Óskalandið Baugur - Ísland, hvenær kemur þú?

Höfundur er blaðamaður.