Júlía Björnsdóttir
Júlía Björnsdóttir
Júlía Björnsdóttir skrifar um vændi í tengslum við HM: "...í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem verður 9. júní- 9. júlí 2006 mun fara fram stórfellt mansal."
SOROPTIMISTAR vekja athygli á mansali í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu í sumar.

Soroptimistasamband Íslands vill vekja athygli á því að í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem verður 9. júní-9. júlí 2006 mun fara fram stórfellt mansal.

Heimsmeistarakeppnin mun verða haldin í 12 borgum Þýskalands. Búist er við að fjöldi knattspyrnuáhugamanna sem þangað koma verði u.þ.b. 3 milljónir, aðallega karlmenn.

Áætlað er að um 40.000 konur verði fluttar til Þýskalands frá Mið- og Austur-Evrópu til þess að þjóna þessum karlmönnum kynferðislega og er sá fjöldi hrein viðbót við þann fjölda vændiskvenna sem fyrir er í landinu.

Í Þýskalandi var vændi lögleitt árið 2002. Samt sem áður er ekki gert ráð fyrir að sá vændisiðnaður sem fyrir er í landinu muni ná að þjóna þeim fjölda sem kemur á HM.

Einn þáttur í undirbúningi fyrir þessa knattspyrnuleika er að verið er að koma upp nýjum vændishúsahverfum til þess að bjóða aukna þjónustu.

Sem dæmi þá er verið að byggja stórt vændishús í Berlín sem er nálægt aðalleikvangi keppninnar og mun þar verða hægt að taka á móti um 650 viðskiptavinum í einu.

Þetta virðist vera lítið annað en þrælasala. Verið er að notfæra sér eymd og fátækt fólks sem lætur glepjast af glæstum störfum í fjarlægu landi og skjótfengnum gróða. Líkami kvenna er notaður sem söluvara líkt og hver annar neysluvarningur.

Heiðarlegt fólk ætti ekki að taka þátt í þesskonar viðskiptum. Heiðarlegt fólk ber virðingu fyrir öllu mannlegu, líkama og sál. Þessi viðskipti skilja aðeins eftir sig eymd og niðurlægingu og verið er að fótumtroða mannréttindi.

Það er niðurlægjandi fyrir íþróttahreyfinguna að bendla heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu við slíkt mansal.

Soroptimistasambönd allra Norðurlandanna hafa vakið athygli á þessu máli ásamt UNIFEM og m.a. hefur verið skorað á knattspyrnulandslið Svíþjóðar að fara ekki á HM í sumar til þess að mótmæla þessu aukna vændi.

Látum andúð okkar í ljós á þessu háttalagi.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Soroptimistasambandi Íslands.