Skítakuldi á Karl Jóhann. Sporvagnar skjótast með ískri yfir járnbrautartorgið og tína upp fólkið. Tyrkneskur grænmetissali pakkar saman. Vetrarútsala í H&M, þar er enn opið, þar er ljós, þar er hlýtt.
Skítakuldi á Karl Jóhann. Sporvagnar skjótast með ískri yfir járnbrautartorgið og tína upp fólkið. Tyrkneskur grænmetissali pakkar saman. Vetrarútsala í H&M, þar er enn opið, þar er ljós, þar er hlýtt. Það er hægt að kaupa homemade norskar ullarpeysur með silfursmellum á 300 norskar hjá asískum kaupmanni beint á móti. Í Stórþinginu logar dauft ljós. Nokkrir unglingar renna sér á skautum á Wesselsplass. Það býr hálf milljón manna í Osló. Í Þjóðleikhúsinu er verið að sýna splunkunýtt verk eftir Jon Fosse og gamalt verk eftir Ibsen. Það er hálka í hallargarðinum og nokkuð bratt upp að höllinni. Bak við höllina liggur Parkveien. Húsið númer tuttugu og fimm er við hornið á Bogstadveien. Það er stórt og gult og heitir Cochs Pensjonat. Áður bjuggu þar einkum piparsveinar, tveir og þrír í hverju herbergi. Þeim var boðið upp á þrjár heitar máltíðir á dag. Á sjötta og sjöunda áratugnum voru flestir gestirnir lögreglumenn, starfsmenn póstþjónustunnar og verkamenn í verksmiðjum á Oslóarsvæðinu. Í dag gista þarna ferðamenn. Í dag eru 88 herbergi á Cochs Pensjonat með 205 rúmum. Það er eldunaraðstaða í flestum herbergjunum, plastparket á gólfum og frekar ódýrt að gista.

Við enda gangsins upp á fimmtu hæð er herbergi númer 502 og snýr út í port. Hér bjó eitt sinn skáldpersónan Arnold Nielsen í 4.982 daga. Þegar hann var drengur var hann heillaður af sirkusflokki sem hafði kosið sér einkunnarorðin: Mundus vult decipi. Ergo decipiatur. "Heimurinn vill vera blekktur. Blekktu hann." Í herbergi 502 erum við komin inn í miðja skáldsögu sem heitir "Hálfbróðirinn". Sögumaðurinn er afar smár vexti, drykkfelldur handritshöfundur og lygari. Hann er sögumaður af guðsnáð, hann heitir Barnum, hann er sonur Arnolds Nielsens og á þögulan hálfbróður sem heitir Fred.

Beint fyrir neðan herbergi 502 er herbergi 402. Þar liggur 46 ára opinber starfsmaður á gólfinu og emjar af kvölum. Líkami hans er strekktur strengur. Konan hans spyr ráðþrota hvað sé að en maðurinn veltir sér til og frá og getur engu svarað. Börnin þeirra, átta og tíu ára gömul, horfa undrandi á föður sinn og vita ekki hvort þau eiga að hlæja eða gráta. Konan hringir í resepsjónina og biður um lækni. Manninum verður óglatt og tekst að staulast á klósettið og æla. Það líður heil eilífð þar til ungur maður bankar á dyrnar og segist vera læknirinn. Hann sest á stól við hlið mannsins og spyr hvar verkurinn sé mestur. Maðurinn stynur upp úr sér að hann sé mestur í mjóbakinu og kannski sé þetta brjósklos sem hann fékk einu sinni og hafi nú tekið sig upp. Læknirinn spyr hvort verkurinn leiði niður í fæturna og athugar ósjálfráð viðbrögð hægri fótar og vinstri fótar. Hann skrifar allt hjá sér og segist síðan þurfa að fá þvagprufu hjá manninum. Konan finnur glas og maðurinn staulast á klósettið. Þegar hann kemur aftur fram skoðar læknirinn glasið og segir að það sé blóð í þvaginu. Þú skalt reyna að leggjast í rúmið og slaka á ég ætla að láta þig fá morfín.

Það líður heil eilífð þar til morfínið fer að virka, þar til slaknar á skrokknum, þar til þægilegur doði hríslast um líkamann út í hvern einasta taugaenda, þar til herbergið tekur að bylgjast upp og niður, þar til raddirnar renna saman í suð. Börnin eru að spila og manninum heyrist læknirinn segja "nirensten" og "painkiller". Hann virðist vera að ræða við konu um sársauka, um hámarkssársauka. Manninum heyrist læknirinn segja að slæmt nýrnasteinakast sé um það bil mesti sársauki sem manneskja geti þolað án þess að falla í yfirlið. Svona álíka og erfiðar fæðingarhríðir bætir hann við, til að konan fái samanburð sem hún þekkir kannski sjálf. Nokkrum klukkustundum síðar vaknar maðurinn úr djúpum svefni. Hann finnur ekki fyrir neinum óþægindum lengur og heyrir ekkert nema reglubundinn andardrátt sofandi barnanna og konunnar.

Þau leggja seint af stað daginn eftir. Keyra þjóðveg E 16 og upp Hallingdal. Snjóþung fjöllin fylgjast með þeim. Vegurinn er mjór og hlykkjóttur og brattur. Það er komið myrkur þegar þau koma á Hemmedalsfjallið og þar gista þau í dauflegum skíðabæ. Morguninn eftir er komið glaðasólskin. Þegar þau koma ofan af hálendinu, á leiðinni niður í Sognfjörð, sjá þau skilti með mynd af stafkirkju. Þau leggja lykkju á leið sína og koma að lítilli stafkirkju í þröngum dal. Þetta er elsta stafkirkja Noregs. Hún er kolbikasvört og hundheiðin.