Marinó Björnsson fæddist í Reykjavík 14. febrúar 1982. Hann lést af slysförum 10. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans eru Björn Þorsteinsson, f. 22.9. 1937, og Sigríður Steinsdóttir, f. 13.12. 1944. Systkini Marinós eru: 1) Jóhanna, f. 17.2. 1964, sonur hennar er Björn Sævar, 2) Vilborg, f. 21.6. 1965, sambýlismaður Guðjón B. Sverrisson, börn þeirra eru Sigríður Fanney, Sverrir Freyr, Snorri Felix og Svanur Fannar, 3) Þorsteinn, f. 18.8. 1966, sambýliskona Ida Cecilia Bergman, synir þeirra eru Björn Óskar og Lars Axel, 4) Steinn, f. 18.8. 1970, d. 14.8. 1981, og 5) Steinn, f. 14.2. 1982, sambýliskona Þórdís Eva Þórhallsdóttir, dóttir þeirra er Lilja Rós.

Marinó gekk í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar og lauk þar námi 1998. Árið 2002 lauk hann námi í vélvirkjun frá Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Haustið 2004 hóf hann nám við Tækniháskóla Íslands, nú Háskólann í Reykjavík, og hugðist ljúka þar námi í frumgreinadeild í vor. Allt frá 16 ára aldri starfaði Marinó hjá Guðjóni mági sínum við ýmsa verktakavinnu, öll sumur og í öðrum fríum frá skóla. Helstu áhugamál Marinós voru tengd útivist og mótorsporti. Hann hafði gaman af að fara á fjöll, hvort sem það var jeppa-, sleða- eða veiðiferð.

Útför Marinós verður gerð frá Fáskrúðsfjarðarkirkju á morgun, mánudaginn 17. apríl, og hefst athöfnin klukkan 14.

Jarðsett verður á Kolfreyjustað.

Kveðja frá systkinum.

Elsku hjartans Marinó, nú ertu farinn svo alltof, alltof fljótt. Slysin gerast, við vitum ekki af hverju og það er engum að kenna.

Við þökkum þér fyrir allar góðu stundirnar sem þú gafst okkur. Minningin lifir um góðan dreng.

Hjartans elsku besti bróðir,

brosandi með þelið hlýja,

oft þú ferð um fjallaslóðir,

finna vildir staði nýja.

Nú í skjólin flest er fokið,

flæða úr augum heitu tárin,

fyrst að sinni leið er lokið,

lengi brenna hjartasárin.

Minning þín er mikils virði,

mun um síðir þrautir lina,

alltaf vildir bæta byrði,

bæði skyldmenna og vina.

Nú er ferð í hærri heima,

heldur burt úr jarðvist þinni,

þig við biðjum guð að geyma,

gæta þín í eilífðinni.

(Pabbi.)

Þín systkini

Jóhanna, Vilborg,

Þorsteinn og Steinn.

Elsku Marinó, mágur minn, ég er þakklát fyrir þau fáu ár sem við þekktumst.

Mikil gleði ríkti á heimili okkar Steins bróður þíns þegar þig bar að garði og sérstaklega var Lilja Rós kát að sjá þig föðurbróður sinn. Alltaf gafstu þig að henni með galsa eða gælum. Þú komst litlu frænku þinni til að engjast um af hlátri og skríkja af gleði. Eftir heimsóknir þínar tók það okkur foreldrana langan tíma að ná Lilju Rós niður aftur.

Þín verður sárt saknað á okkar heimili og vildi ég óska þess að þú gætir komið í heimsókn og leikið við frænku þína þótt það tæki okkur langan tíma að koma henni í ró.

Stundin líður, tíminn tekur,

toll af öllu hér,

sviplegt brotthvarf söknuð vekur

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig,

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

(Hákon Aðalsteinsson.)

Minningin um þig og þitt ógleymanlega bros mun lifa um ókomna tíð.

Þórdís Eva.

Elsku Marinó minn. Þegar við keyrðum heim á sunnudagskvöldið sagðirðu við mig "það er nú tími sem þú sérð ekki eftir. Maður veit aldrei hvað sá tími verður langur". Þó að orðin hafi verið sögð í öðru samhengi eiga þau sjálfsagt aldrei betur við en nú.

Maður veit aldrei hvenær kallið kemur og allt í einu er hver einasta stund sem við áttum svo ofurdýrmæt.

Ég kveð þig með söknuði og mun geyma með mér minninguna um allt það sem þú varst mér um alla framtíð.

Hvíl í friði, kæri frændi, vinur og félagi.

Þín

Sigríður Fanney.

Til hvers er lífið sem Guð okkur gefur

þá gæfu í sorg breytt er fljótt?

Hvert er það mildi sem harðræði hefur

svo hamingja verður að nótt?

Spurningar vakna því sárt er að sakna

og syrgja, þá ástvinur deyr;

mæta til lífsins og verða að vakna

og vita - hann sést ekki meir.

Hvers vegna fá ekki sumir að finna

að forsjónin veiti þeim grið

í barningi lífs meðal barnanna sinna;

af bjartsýni horft fram á við?

en verða að þjást og veita þó ást

sem vonleysið hrekur af braut.

Því lætur vor Drottinn menn langtímum

þjást

svo lífsgildin verða að þraut?

Við spurningum mörgum er fátt víst að

finna

sem fyllir og gefur rétt svör.

Að geta í eyður og gefa til kynna

ei gefur til baka lífsfjör.

En, minningasjóður er mikill og góður;

í mörgu vel lífsgildin fann.

Það vorar að nýju og verður til gróður

í veröld sem elskaði hann.

Ei þýðir að reyna af rökhyggju að skilja

hvað ráði um brottför af jörð.

Hann fólkinu sínu ei fái að ylja

né faðma og standa um vörð.

Ég bið þess að öllum þeim lífsaflið lýsi

og leiði til vonar úr þraut

og minningar allar um Marinó vísi

æ markvisst á farsæla braut.

(Hr.H.)

Árið 1982 í júní fluttum við fjölskyldan í Egilsstaði, þá voru Marinó og Steinn nokkurra mánaða, síðan þá höfum við fylgst með þeim vaxa og dafna og verða fullorðnir.

Tengslin hafa alltaf verið mikil en aldrei verið meiri en síðustu ár þegar frændsemin varð að miklum vinskap milli unga fólksins.

Það eru ófá jólaboð sem fjölskyldurnar hafa hist, og krakkarnir spilað, kom í ljós að þeim þótti þetta ómissandi hluti af jólahaldinu og þegar aldur leyfði var kannski endað á balli.

Oft hafa leiðir legið saman í sauðburði, heyskap og smalamennsku, og þá þurfti nú ekki að spyrja hver færi efstur, að sjálfsögðu Marinó. Lengi vel voru þeir alltaf "tvíburarnir á Þernunesi" sem fæddust á hárréttu ári, en seinustu ár lágu leiðir þeirra í sitt hvora átt, þar sem Marinó tók stefnuna á tækninám. Síðast hittumst við í frábærri fermingarveislu Snorra þar sem gleðin skein af hverri brá og átti að endurtaka á fermingardegi Bjarma. Marinó kom ekki sjálfur, en fermingargjöfin og kortið frá honum og hinum í Þernunesfjölskyldunni var tilbúið. Það var margra saknað við veisluborðið í Faxatröð 6 þann dag. Ósköp skipti nú litlu máli hvort búið væri að þurrka alls staðar af.

Við kveðjum Marinó með þökk fyrir allar góðar minningar um skemmtilegan, hressan og allra mest góðan frænda og sendum foreldrum hans, systkinum og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Jóhanna og Hreinn,

Sindri, Lísa, Geisli, Bjarmi

og fjölskyldur.

Ég veit ekki hvernig á að byrja, það er svo margt sem ég þarf að segja þér. Vildi að ég hefði fengið aðeins lengri tíma svo ég hefði getað sagt þér að ég elskaði þig enn. Hjartað var rifið úr mér þegar ég fékk þær fréttir að þú hefðir dáið. Ég sé þig enn svo ljóslifandi fyrir mér, með þitt hvíta stóra bros sem fékk alla í kringum þig til að brosa. Er svo þakklát fyrir það að ég fékk að kynnast þér og eyða tíma með þér. Vitandi það að þú elskaðir mig fær mig til að brosa allan hringinn, við áttum svo góða tíma þegar við vorum saman. Mun ég geyma þá í minni mínu og hjarta alla mína ævi.

Elsku vinur, ég mun hugsa til þín á hverjum degi og muna það hvað þú varst yndislegur.

Megir þú hvíla í friði, elsku ástin mín, og ég veit að þú verður þarna þegar ég kem einn daginn og brosir til mín.

Megi Guð og englar standa við hlið fjölskyldu þinnar í þessum erfiðleikum.

Góða ferð, Marinó, ástin mín, við sjáumst einn góðan veðurdag.

Þín að eilífu.

Hafrún.

Bros. Einlægt, hlýtt og fallegt bros er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um fráfallinn vin minn Marinó. Ég kynntist Marinó fyrir tveimur árum þegar við hófum nám í frumgreinadeild Tækniháskóla Íslands en við vorum þar í sama bekk.

Það sem einkenndi Marinó var brosið hans, hann kom brosandi í skólann og fór brosandi út. Það skondna er að hann brosti meira að segja þegar hann var feiminn eða vandræðalegur, eins og þegar við þurftum að flytja fyrirlestur fyrir framan bekkinn, allir voru skjálfandi og eða stamandi nema, Marinó hann var í hláturskasti og með sínum einlæga hlátri fékk hann allan bekkinn til að hlæja með sér.

Bekkurinn var mjög samrýndur og vorum við mjög mikið saman. Það sem er mér ofarlega í huga er einn föstudagur í miðjum próflestri, það var aðeins eitt próf eftir en það var strax eftir helgi eða á mánudeginum. Enginn var í sérstöku lesstuði en allir sátu samt sem áður með nefið niðrí bókunum. Ég, Marinó og tvö önnur úr bekknum ákváðum að slaka aðeins á í lestrinum og fara einn Laugaveg og enda hann með því að fá okkur eitthvað gott að borða sem við gerðum, en á leiðinni aftur uppí skóla fengum við þá snjöllu hugmynd að fara í Bláa Lónið sem leiddi til þess að þessi hálftíma pása endaði með fjögurra tíma ferð sem var örlítið lengra en til stóð í byrjun.

Það var virkilega gaman og mikið hlegið sem fékk okkur öll til að slappa af.

Að kveðja þennan einlæga dreng með þessum hætti er óásættanlegt.

Sólveig Ásta.