"Ég fer ekki mikið út, hlusta ekki á útvarp og les ekki blöðin. Ég er meira bara að einbeita mér að sjálfum mér þessa dagana," segir Graham Coxon.
"Ég fer ekki mikið út, hlusta ekki á útvarp og les ekki blöðin. Ég er meira bara að einbeita mér að sjálfum mér þessa dagana," segir Graham Coxon.
Breski tónlistarmaðurinn Graham Coxon gaf nýverið út sína sjöttu sólóplötu, Love Travels at Illegal Speeds. Jóhann Bjarni Kolbeinsson ræddi við þennan fyrrverandi gítarleikara hljómsveitarinnar Blur um nýju plötuna og brennivínsdrykkju á Íslandi.
Fjögur ár eru liðin frá því að Graham Coxon sagði skilið við Damon Albarn og félaga í hljómsveitinni Blur, og ákvað að leggja áherslu á sína eigin tónlist. Hann hefur nú gefið út sex sólóplötur, en árið 2004 gaf hann út plötuna Happiness In Magazines sem kom honum endanlega á kortið sem virtum tónlistarmanni. Fjögur lög af plötunni komust á breska vinsældalista, gagnrýnendur héldu vart vatni yfir plötunni og Coxon var valinn besti tónlistarmaðurinn á tónlistarverðlaunum tímaritsins NME. Coxon ákvað því að halda sig við sólóferilinn og hefur nú gefið út sína sjöttu plötu, Love Travels at Illegal Speeds . Þessi hægláti gítarleikari er orðinn 36 ára gamall og virðist hættur að hugsa um hljómsveitina sem gerði hann frægan. Hann vill að minnsta kosti ekki ræða um hana á opinberum vettvangi því áður en blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Coxon barst skeyti þar sem farið var fram á að ekki yrði rætt um Blur í viðtalinu. Blaðamaður ákvað að virða það og byrja á því að spyrja út í hið undarlega nafn plötunnar.

Ekki hrifinn af Sex Pistols

Nú heitir nýja platan Love Travels at Illegal Speeds. Fjallar hún um ástina?

"Nei, ég held ekki. Ég held að þetta sé hálfgerð and-ástar plata. Ég held að hún fjalli meira um aðrar tilfinningar sem tengjast ástinni.

Ég er samt ekkert á móti ástinni sjálfur, þótt textarnir bendi kannski til þess."

Tónlistin á plötunni minnir um margt á The Jam, Kinks, Ramones, Weezer eða jafnvel Sex Pistols. Er þetta pönk-plata?

"Já, kannski, en reyndar er ég ekki mjög hrifinn af Sex Pistols. En pönkið var það sem var vinsælast þegar ég var ungur að árum þannig að það hefur vissulega haft áhrif á mig. Ég hlustaði mikið á pönk í útvarpinu undir lok áttunda áratugarins."

Platan virðist skiptast á milli pönklaga og síðan rólegri laga. Var það meðvituð ákvörðun að hafa þessar andstæður svo áberandi?

"Já, kannski, það eru þarna nokkur mjög kröftug lög og mér fannst að það þyrftu að koma rólegri lög strax á eftir til að skapa svolitlar andstæður. Það þarf stundum að bremsa hlustandann niður."

Nú fékk síðasta platan sem þú gerðir mjög góða dóma. Var erfitt að fylgja því eftir?

"Nei, í rauninni ekki. Ég geri alltaf mitt besta og það var engin undantekning á því núna. Ef menn eru ekki ánægðir þá geta þeir bara keypt einhverja aðra plötu. Það er auðvitað ekki mitt mál. Hins vegar er ég hálfgerður fullkomnunarsinni, og ég færi aldrei í hljóðver til þess að taka upp plötu án þess að vera viss um að ég hefði nógu mikið af góðu efni. Ég er nokkuð strangur við sjálfan mig og í rauninni geri ég sjálfum mér frekar erfitt fyrir."

Þú ert þá væntanlega jafnsáttur við þessa plötu og þá síðustu?

"Já, ég er það, ég er mjög ánægður með þessa plötu. Fyrir mér er hún mikið þroskaskref."

Mikið drukkið á Íslandi

Finnst þér betra að vera sjálfs þíns herra en að vera hluti af hljómsveit?

"Já, eins og er þá finnst mér betra að vera sóló. Ég held að það sé það sem ég vilji. Það er mjög gott að þurfa ekki að hlusta á það sem aðrir vilja gera. Ég ætlaði mér alltaf að fara á sóló því mig langaði að leyfa fólki að heyra mína tónlist."

Ég las það einhvers staðar að þú værir alvarlega að íhuga að gerast svínabóndi. Á það við einhver rök að styðjast?

"Já, mér finnst það góð hugmynd. Ég gæti flutt upp í sveit, verið þar með mitt eigið hljóðver og hugsað svo um svínin þess á milli. Ég hugsa að ég láti verða af því fyrr en síðar."

Nú ertu búinn að vera á tónleikaferðalagi um Bretland, ertu ekkert á leiðinni til annarra landa, til dæmis til Íslands?

"Jú, ég væri alveg til í að koma til Íslands. Ég hef komið þangað tvisvar eða þrisvar. Mig minnir reyndar að ég hafi oftast verið í annarlegu ástandi þegar ég kom til Íslands. Ég var mikið í því að drekka brennivín og eitthvað fleira. Svo hitti ég fullt af orkuríku fólki þarna. En ég man samt mest eftir drykkjunni, sem var ansi mikil. Svo man ég reyndar eftir að hafa farið á vélsleða, sem var mjög gaman. Ef ég kæmi aftur til landsins núna þá held ég að ég myndi nú bara drekka kaffi."

Talandi um Ísland, þekkir þú eitthvað til íslenskrar tónlistar?

"Ég þekki reyndar mjög lítið af tónlist yfirleitt. Ég hlusta bara á tónlist ef hún er til staðar, ég veit ekkert hvað menn eru að gera, og ég veit ekkert hvað hverjir eru að gefa út. Ég veit ekki einu sinni hvað er að gerast hérna í Bretlandi. Ég fer ekki mikið út, hlusta ekki á útvarp og les ekki blöðin. Ég er meira bara að einbeita mér að sjálfum mér þessa dagana, og læt það duga í bili."