Ef grannt er skoðað má sjá orðið flughjálp ritað stórum stöfum á skrokk annarrar vélarinnar.
Ef grannt er skoðað má sjá orðið flughjálp ritað stórum stöfum á skrokk annarrar vélarinnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eins og fram kemur í máli föður Tony Byrne áttu Íslendingar nokkurn þátt í flugi með matvæli í stríðinu milli Nígeríu og Biafra á sínum tíma. Arngrímur Jóhannsson var beðinn að segja undan og ofan af sögu þessa flugs og brást ljúflega við bóninni.
Eins og fram kemur í máli föður Tony Byrne áttu Íslendingar nokkurn þátt í flugi með matvæli í stríðinu milli Nígeríu og Biafra á sínum tíma. Arngrímur Jóhannsson var beðinn að segja undan og ofan af sögu þessa flugs og brást ljúflega við bóninni. Honum segist svo frá:

"Þegar hinn vestræni heimur uppgötvaði að eitthvað væri að í Nígeríu var búið að drepa mikinn fjölda fólks. Faðir Tony Byrne var prímusmótor í því að hefja þetta hjálparflug. Tony sagði í upphafi hjálparstarfsins að það væri alveg sama hver gerði þetta, ef það væri hægt, þá ætlaði hann að gera það. Fyrstu flugferðirnar voru farnar með manni sem var bara peningamaður og hafði orðið efnaður á því að flytja vopn þarna niður eftir, sá hét Hank Worton, og hafði ekki gott orð á sér. Tony sagði að það skipti engu máli hver kæmi með matinn og þeir Worton virtu hvor annan það mikils að þegar þeir voru að semja fór Tony fram á að tíunda hvert flug yrði frítt. Worton féllst á það og stóð við það. Síðar fengu Tony og samstarfsmenn hans flugvélar, frá Ameríkumönnum og Kanadamönnum, nú Skandinövum líka, þar sem Íslendingarnir flugu. Þetta er ein af stærstu loftbrúunum sem settar hafa verið í gang í heiminum. Við fórum tvær til þrjár ferðir á nóttu, þetta var 2,5 klst. flug, og það var stanslaust, flugvélar voru að lenda alla nóttina. Miðað við mína log-bók, ég fór 53 ferðir þarna inn, var annaðhvort sprengju- eða skotárás í hverri ferð," lýsir Arngrímur æðrulaus. "Frá Íslandi var komið með mjólkurduft og skreið. Fyrstu ferðirnar voru farnar frá hollenska flugfélaginu TransAvia, síðan stóð þannig á að Loftleiðir voru að hætta að nota sínar DC 6-vélar, 5-6 vélar, og gáfu JCA (Joint Church Aid) þær flugvélar. Þeim flugum við svo gegnum stríðið." Þetta var sem sé þáttur Loftleiða í verkefninu. "Þá var herra Sigurbjörn Einarsson stjórnarformaður í JCA," bætir Arngrímur við. "Ég man eftir því að svertingjarnir sem við vorum að vinna með þekktu Ameríku, England og Ísland á landakortinu, það voru stóru löndin," segir hann og hlær. "Ég byrjaði sem radíóviðgerðarmaður fyrst, hafði þó unnið sem flugmaður áður, svo byrjaði ég að fljúga og var þarna í rétt rúmt ár. Tony stýrði þessu verkefni af rosalega miklum myndarskap, var hlaupandi á milli flugvéla á hverri nóttu." Nokkuð margir Íslendingar unnu við hjálparstarfið og Arngrímur nefnir nokkra. "Steini Jónsson var yfirmaður, Jóhannes Markússon, þá yfirflugstjóri Loftleiða, þarna var Smári Karlsson flugstjóri, ég flaug mikið með honum, var aðstoðarflugmaður, Viktor Aðalsteinsson flugstjóri, Magnús Guðbrandsson og fleiri og fleiri. Þessir menn voru í vinnu hjá Loftleiðum eða flugfélaginu og voru bara í stuttan tíma í senn. Aftur á móti vorum við þrír sem vorum þarna allan tímann; Einar Guðlaugsson sem núna er flugstjóri hjá Flugleiðum, og Kristján Richter sem var flugstjóri hjá Cargolux þangað til fyrir stuttu. Við þrír fylgdumst að í gegnum þetta tímabil."