REYKINGABANN á dansleikjum og öðrum viðburðum í félagslífi nemenda Menntaskólans í Reykjavík (MR) á mikinn þátt í því að engir nemendur 3. bekkjar skólans reykja daglega, að mati Gunnars Hólmsteins Guðmundssonar, fráfarandi inspector scholae MR.
REYKINGABANN á dansleikjum og öðrum viðburðum í félagslífi nemenda Menntaskólans í Reykjavík (MR) á mikinn þátt í því að engir nemendur 3. bekkjar skólans reykja daglega, að mati Gunnars Hólmsteins Guðmundssonar, fráfarandi inspector scholae MR.

Gerð var könnun meðal nýnema við skólann á liðnu hausti og m.a. spurt hvort þeir reyktu og þá hve mikið. Önnur könnun var gerð nú nýlega og þá kom í ljós að engir nemendur 3. bekkjar höfðu tekið upp daglegar reykingar í vetur. Að sögn Gunnars Hólmsteins voru kannanirnar gerðar m.a. til að athuga hvaða áhrif skólavistin hefði á líf og hegðun nýnema, t.d. hvort þeir hæfu reykingar á skólagöngunni.

"Við erum viss um að böllin okkar eiga sinn þátt í því að engir hafa byrjað að reykja daglega," sagði Gunnar Hólmsteinn. "Við erum eini framhaldsskólinn í landinu sem er með alla dansleiki og aðra viðburði algerlega reyklausa. Við ákváðum þetta í upphafi skólaársins og þótti ákvörðunin brjóta blað í sögu vímuvarna."

Nánar er greint frá niðurstöðum könnunarinnar í Skólablaðinu, skólablaði MR, sem er dreift til allra núlifandi MR-inga.