Gunnlaugur A. Jónsson fæddist í Reykjavík 1952. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1972, embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1978 og doktorsprófi í guðfræði frá Lundarháskóla í Svíþjóð 1988.

Gunnlaugur A. Jónsson fæddist í Reykjavík 1952. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1972, embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1978 og doktorsprófi í guðfræði frá Lundarháskóla í Svíþjóð 1988. Hann var forstöðumaður Guðfræðistofnunar 1990-95. Gunnlaugur er prófessor í gamlatestamentisfræðum við HÍ frá 1995. Hann var forseti guðfræðideildar 2001-04. Frá 1995 hefur hann verið formaður listahátíðarnefnndar Seltjarnarneskirkju og var nýverið kosinn í stjórn Hins íslenska Biblíufélagsins. Gunnlaugur er kvæntur Guðrúnu Helgu Brynleifsdóttur lögmanni og bæjarfulltrúa og eiga þau tvö börn og tvö barnabörn.

Gunnlaugur A. Jónsson fæddist í Reykjavík 1952. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1972, embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1978 og doktorsprófi í guðfræði frá Lundarháskóla í Svíþjóð 1988. Hann var forstöðumaður Guðfræðistofnunar 1990-95. Gunnlaugur er prófessor í gamlatestamentisfræðum við HÍ frá 1995. Hann var forseti guðfræðideildar 2001-04. Frá 1995 hefur hann verið formaður listahátíðarnefnndar Seltjarnarneskirkju og var nýverið kosinn í stjórn Hins íslenska Biblíufélagsins. Gunnlaugur er kvæntur Guðrúnu Helgu Brynleifsdóttur lögmanni og bæjarfulltrúa og eiga þau tvö börn og tvö barnabörn.

Listahátíð var sett í Seltjarnarneskirkju í lok marsmánaðar. Hátíðin mun standa til 7. maí en í dag, páskadag, verður afhjúpað glerlistaverk eftir myndlistarkonuna Ingunni Benediktsdóttur við hátíðarguðsþjónustu í kirkjunni kl. 8. "Þetta er sérlega fallegt þrískipt verk, hlaðið trúartáknum og er það gjöf kvenfélagsins Seltjarnar," segir Gunnlaugur A. Jónsson, formaður listahátíðarnefndar kirkjunnar.

Listahátíð Seltjarnarneskirkju er nú haldin í 9. sinn og er yfirskriftin að þessu sinni "Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi" en hefð hefur myndast fyrir að velja kirkjulistahátíðinni biblíulega yfirskrift.

"Listahátíðin var sett 26. mars með opnun málverkasýningar Kjartans Guðjónssonar í kirkjunni og safnaðarheimilinu. Þetta er í þriðja skiptið sem hátíðin kynnir sérstaklega einn málara, en áður höfum við sýnt verk Leifs Breiðfjörðs og Einars Hákonarsonar," segir Gunnlaugur. "Á sýningunni gefur að líta verk úr safni Kjartans sem og verk sem hann málaði sérstaklega fyrir listahátíðina og hafa verkin hlotið verðskuldaða athygli." Sýning verka Kjartans Guðjónssonar er opin 9 til 17 alla daga nema föstudaga.

"Margt annað er á dagskrá listahátíðar. Fyrst má nefna ritgerða- og ljósmyndasamkeppni meðal ungs fólks á Seltjarnarnesi um þema hátíðarinnar. Tónlistin skipar líka, eins og venjulega, stóran sess í dagskránni og sumardaginn fyrsta, 20. apríl kl. 17, standa hjónin Margrét Bóasdóttir söngkona og séra Kristján Valur Ingólfsson fyrir dagskrá í tónum og tali um tékkneska tónskáldið Antonín Dvorák og biblíuljóð hans," segir Gunnlaugur. "Þá verður dagskrá kl. 15 laugardaginn 29. apríl sem við köllum "Kærleikurinn í kvikmyndum" en þar stendur kvikmyndaklúbburinn Deus Ex Cinema fyrir sýningardagskrá þar sem fjallað verður um hvernig óður Páls postula til kærleikans, úr 1. Kórintubréfi 13, gegnir stóru hlutverki í kvikmyndum meistara á borð við Rússann Tarkovsky, Pólverjann Kieslovsky og Ingmar Bergman."

Listahátíðinni lýkur 7. maí með tónleikum Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna sem hefjast kl. 17. Stjórnandi er Pavel Manásek og einsöngvari kona hans Vera Manásek.

"Við sem að listahátíðinni stöndum erum áhugasöm um að sýna hversu snaran þátt Biblían á í menningunni. Sama á sér stað við ýmsar aðrar kirkjur landsins, að hlutdeild listar og menningar í kirkjulífinu hefur aukist mjög," segir Gunnlaugur en listahátíð Seltjarnarneskirkju er haldin annað hvert ár, á víxl við menningarhátíð Seltjarnarnesbæjar.

Upplýsingabæklingi með dagskrá listahátíðarinnar hefur verið dreift á öll heimili á Seltjarnarnesinu. Einnig má nálgast nánari upplýsingar á heimasíðunni www.seltjarnarneskirkja.is